Petronas-tvíburaturnarnir voru vígalegir séðir frá götunni.
Petronas-tvíburaturnarnir voru vígalegir séðir frá götunni. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saumaklúbburinn Skálópíur hélt á vit ævintýranna til Malasíu fyrir skemmstu. Blaðamaður tilheyrir þeim mæta klúbbi og rekur hér ferðasöguna í máli og myndum.

Saumaklúbburinn Skálópíur hélt á vit ævintýranna til Malasíu fyrir skemmstu. Blaðamaður tilheyrir þeim mæta klúbbi og rekur hér ferðasöguna í máli og myndum. Það er af nógu að taka því í þessu hitabeltislandi hinum megin á hnettinum var sannarlega margt að sjá og upplifa. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Á menntaskólaárunum kynntust sjö stúlkur úr tveimur skólum, Kvennó og MR. Tvær voru úr Keflavík og bjuggu því einar í litlu herbergi í hvítu steinhúsi við Skálholtsstíg. Skemmst er frá því að segja að þar hélt hópurinn til öll menntaskólaárin, enda griðastaður fjarri foreldrum og auk þess alveg í hjarta miðborgarinnar. Eftir stúdentspróf héldum við hópinn og stofnuðum þá saumaklúbbinn kenndan við götuna, Skálópíur. Í seinni tíð höfum við reynt að skreppa saman í eina hefðbundna borgarferð og höfum heimsótt Kaupmannahöfn, París, Barcelona, London og New York, svo eitthvað sé nefnt. Það var því kominn tími til að stíga aðeins út fyrir þægindarammann!

Viljiði koma til Malasíu?

Veturinn var ekkert sérlega skemmtilegur ef þið munið; janúar var og er leiðinlegastur mánaða og í ár var hann auk þess kaldur og snjóþungur. Einn góðan veðurdag, nú eða einn vondan, kom tölvupóstur sem vakti von í brjósti um sól og yl. Í bréfinu, sem skrifað var í gegnum húsaskiptasíðuna lovehomeswap.com, var beiðni um skipti frá fjölskyldu í Malasíu. Þau áttu 500 fermetra íbúð í Kuala Lumpur og hótel á paradísareyjunni Langkawi. Boðið var upp á báða staðina í skiptum fyrir hús í Garðabæ. Þetta þótti mér gott boð, of gott til að hunsa, og sendi skilaboð á saumaklúbbinn og spurði: Viljiði koma til Malasíu í sumar? Ekki datt mér í hug að undirtektirnar yrðu miklar þar sem vinkonurnar eru ekki miklir heimshornaflakkarar, en mér til furðu og gleði svöruðu fjórar: „Já, ég kem með!“ Greinilega voru fleiri en ég þreyttar á vetrinum, og það eftir tvö löng kórónuveiruár. Í byrjun febrúar var því hist og flugmiðar keyptir, korter í stríð og því á viðráðanlegu verði en miðinn kostaði 140.000 báðar leiðir. Á þeim tímapunkti vissum við þó ekki að landið var enn lokað ferðamönnum en blessunarlega opnaðist það 1. maí en ferðin var farin 18. júní og stóð yfir í tvær vikur. Veturinn varð svo miklu bærilegri vitandi að ylvolgur sjór og hvítar strendur langt hinum megin á hnettinum biðu okkar, auk framandi menningar og spennandi matar. Móður minni fannst ansi sniðugt en kannski heldur langt að „draga saumaklúbbinn alla leið til Malasíu“ og lét þessi orð falla: „Uppátæki er þetta!“ Þetta urðu svo einkunnarorð ferðarinnar, enda tókum við upp á ýmsu í Malasíu!

Lent í KL eftir sólarhring

Áður en við vissum af sátum við afar spenntar á Leifsstöð. Með blaðamanni voru í för Ása Gunnsteinsdóttir, Unnur Gunnarsdóttir, Hrafnhildur Kristjánsdóttir og Linda Arilíusdóttir. Langt ferðalag var framundan en flogið var til Kaupmannahafnar, þaðan til Doha í Katar og að lokum til Kuala Lumpur, höfuðborgar Malasíu. Í heilan sólarhring vorum við á ferðinni en lentum loks í Kuala Lumpur, eða KL eins og heimamenn kalla hana, sunnudagseftirmiðdaginn 19. júní. Átta tíma munur er á löndunum en ágætlega tókst okkur að aðlagast. Móðirin í fjölskyldunni malasísku tók á móti okkur en hún hafði heimtað að sækja okkur og bauð okkur gistingu fyrstu nóttina en planið var að byrja á Langkawi og áttum við flug þangað daginn eftir. Frá flugvellinum er um klukkutíma keyrsla og alla leiðina inn í borgina mátti sjá raðir og aftur raðir af íbúðablokkum, en á öllu stórhöfuðborgarsvæðinu búa átta milljónir manna. Þarna er vinstri umferð, eins og víða í Asíu, og var því einkennilegt að sitja í „bílstjórasætinu“ en vera farþegi! Móðirin Alla bauð okkur velkomnar og hittum við eiginmanninn, ömmuna og börnin fjögur. Um kvöldið var haldið af stað í tveimur stórum fjölskyldubílum á lókal veitingastað einn þar sem við fengum Asíu beint í æð. Á borð voru bornir hver girnilegi rétturinn á fætur öðrum; aðallega fiskmeti sem rann ljúflega niður ásamt steiktum grjónum og öðru góðgæti. Um kvöldið var lagst á koddann heima hjá þessu ókunnuga en mæta fólki og þrátt fyrir að klukkan væri aðeins fjögur um dag á Íslandi sofnuðum við allar um leið, enda þreyttar eftir langt og strangt ferðalag.

Apinn sem elskaði Pepsi

Fyrsta daginn okkar bauð Alla okkur í smá útsýnisbíltúr um borgina. Hitinn var um 32 gráður og mollulegt en í Malasíu er hitastigið nánast eins allt árið. Heimsókn okkar var á regntímabili en aðallega rigndi á nóttunni og svo kom einstaka skúr yfir daginn, en sólin skein inni á milli. Oftast var skýjað og því var vel hægt að venjast hitanum. Í borginni eru fjölmörg háhýsi, þar á meðal frægir tvíburaturnar sem nefnast Petronas og eru 452 metrar tæpir á hæð, um 40 metrum hærri en tvíburaturnarnir í New York voru. Petronas-turnarnir voru hæstu byggingar heims frá byggingu þeirra árið 1998 til ársins 2004 en eru nú í sautjánda sæti, enda hafa þeir ekki roð við byggingum á borð við Burj Khalifa í Dubai sem nær 828 metrum. Nóg um það!

Aftur var haldið út á flugvöll, í þetta sinn í stutt klukkutímalangt flug á eyjuna með framandi nafnið; Langkawi. Þarna má finna 99 eyjar en sú stærsta er 478 ferkílómetrar sem þýðir að stutt er að keyra hana þvera og endilanga. Þarna er hitabeltisgróður, regnskógar og hvítar strendur og komumst við brátt að því að apar ráða þar ríkjum. Hótel fjölskyldunnar samanstóð af litlum kúlulaga húsum og fengum við tvö slík til umráða. Útsýnið yfir morgunkaffinu var engu líkt; sjórinn blasti við svo langt sem augað eygði. Það var þó lítill friður þennan fyrsta morgun því „einkaþjónninn“ okkar, Haroon nokkur sem við gáfum íslenska nafnið Hörður, mætti og vakti okkur klukkan átta með hrísgrjón og afar vonda baunakássu. Lyktin tældi til sín alla apa skógarins og flúðum við hræddar inn þessa apaárás, en krúttlegir voru þeir samt, mæður með unga hangandi utan á sér. Ég sendi Öllu skilaboð og sagði henni frá árásinni og fannst henni það afar fyndið, enda eru þau jafnvön öpum og við kindum úti í haga. Mælti hún með að ég myndi kasta í þá steinum sem ég sagðist alls ekki vilja gera. „Þú skalt bara þykjast kasta steini, þeir hlaupa þá í burtu,“ sagði hún þá. Ég þóttist teygja mig eftir steini og kasta í þennan fríða flokk sem sat á morgunverðarborðinu okkar, en allt kom fyrir ekki. Þeir ætluðu ekkert að láta þennan ljóshærða túrista gabba sig neitt! Næstu morgna létum við okkar nægja kaffibolla en urðum þó fyrir nokkrum „árásum“ því sykurinn í bréfinu sem fylgdi kaffinu þótti þeim gómsætur. Steininn tók þó úr þegar við lágum í makindum við sundlaugina og stór api hlunkaðist á milli okkur án fyrirvara, stal dós af Pepsi Max, hljóp með hana upp á nálægt handrið og saup á. Þarna lá við hjartaáfalli.

Lóan bjargar lofthræddum

Dagarnir í Langkawi einkenndust af afslöppun á sólbekk í bland við túristaferðir. Fyrsta daginn drifum við okkur í bíltúr en auðvitað var ekki annað tekið í mál en að við fengjum bíl lánaðan. Undirrituð var skipuð bílstjóri og var það í fyrsta sinn á ævinni sem ég hafði keyrt í vinstri umferð. Stelpurnar hjálpuðu til og kölluðu ef ég gleymdi mér og fann mig vitlausum megin á veginum. Annars er auðvelt að keyra á þessum rólegu sveitavegum og lágreist húsin og vegaskúrarnir meðfram veginum minntu lítið á háhýsi borgarinnar. Kýr voru á beit í haga og fólk í rólegheitum á kaffihúsum þeirra heimamanna; vinalegt fólk sem reyndi oft að aðstoða þessar fimm íslensku konur sem tókst oftar en einu sinni að villast, þrátt fyrir smæð eyjarinnar og fáa vegi. Ferðinni var heitið í kláfa sem bera farþega hátt upp á skógivaxið fjall þar sem byggð hefur verið brú sem nefnist Sky Bridge, eða Skýjabrúin. Sannkallað réttnefni, en brú þessi liggur milli tveggja fjallstinda, 125 metra löng og til þess eins hugsuð að njóta útsýnis yfir eyjar og haf. Við stelpurnar drifum okkur upp með kláfnum, mislofthræddar. Sjálf er ég ekki mjög lofthrædd en viðurkenni að mér var um og ó á tímabili þegar svifið var í hundrað metra hæð yfir frumskógi. Kláfur þessi er einn af þeim sem fara brattast upp, í 42° halla, en leiðin upp er um tveir kílómetrar. Til að róa taugarnar sungum við hástöfum hið alíslenska lag: Lóan er komin. Það hjálpaði og mæli ég með því ráði við lofthræðslu! Þegar upp var komið fórum við tvær hugrökkustu að brúnni sem var þá stundina hulin þoku. Ása gekk óhrædd yfir en ég guggnaði eftir nokkra tugi metra. Þokan hvarf svo í einni svipan og útsýnið var stórfenglegt og vel þess virði að hafa lagt á sig ferðina.

Á eyjunni var margt að sjá og fórum við dag einn í bátsferð um fenjasvæði þar sem leiruviður vex og ernir svífa um loftin blá. Annað kvöldið sigldum við milli eyjanna í kvöldhúminu og dönsuðum dátt um borð ásamt nokkrum hressum farþegum. Við Ása gerðumst svo hugrakkar að henda okkur í fallhlífarflug yfir hafinu, en fallhlífin var dregin af báti. Mikið ævintýri og enn eitt uppátækið! Svo nutum við þess að liggja eins og lúxuspíur við sundlaug og horfa út á haf, rölta niður á strönd og dýfa okkur í þann volgasta sjó sem við höfum nokkru sinni upplifað. Það sem betra var, við vorum nánast einu túristarnir á eyjunni, ströndin tóm og við áttum heiminn. Maður kemst ekkert mikið nær paradís.

Apakrumla í veskið

Eftir tæpa viku á Langkawi var kominn tími til að snúa til baka til borgarinnar með skemmtilega nafnið, Kuala Lumpur. Var þá malasíska fjölskyldan í góðu yfirlæti á Íslandi í 7 stiga hita en við orðnar einar í lúxusíbúðinni með konu sem bjó um okkur og þvoði þvottinn okkar. Í íbúðinni var meðal annars lítil sundlaug og önnur stærri í garðinum. Fjölskyldan bauð okkur einnig einkabílstjóra sinn sem keyrði okkur um þegar við þurftum að fara í lengri ferðir en þess á milli tókum við leigubíla því það var alveg af og frá að ég ætlaði að keyra í stórborginni vinstra megin! Dagarnir voru nýttir í ýmsar bæjar- og skoðunarferðir og auðvitað þurftum við að fara upp í tvíburaturnana fyrrnefndu, en auk þess borðuðum við hádegismat í KL Tower, 421 metra hár útsýnisturn með veitingastað sem snýst líkt og Perlan. Einnig var mollið heimsótt sem var eitt hið flottasta sem við höfum séð, en borgin er öll hin nútímalegasta. Við kíktum í Kínahverfið, í fuglagarð, inn í hindúhof og á markaði, auk þess sem við prófuðum mat frá Malasíu, Kóreu, Kína, Japan og svo voru smakkaðar líka ítalskar eðalpítsur. Sundlaugin var vel nýtt og gott að liggja þar á bekk jafnvel fram á kvöld því hitastigið fór varla neðar en 27 gráður að kvöldi til.

Einn eftirminnilegur staður sem við heimsóttum var Batu-hellarnir en þar má finna eitt stærsta hindúahof utan Indlands. Á torginu við inngang hellisins stendur stórt gyllt líkneski af indverska guðinum Murugan og við hlið þess liggja 272 litríkar tröppur upp að hellinum. Við röltum upp tröppurnar á þessum heitasta degi ferðarinnar og hittum fyrir marga forvitna apa. Á meðan ég tók sjálfu með apa í baksýn gerði annar sér lítið fyrir og stakk lítilli krumlu ofan í veskið mitt. Þar var engan mat að finna en það mátti reyna!

Eftir vikurnar tvær kvöddum við land og þjóð og héldum heim reynslunni ríkari, sólbrúnar og sætar og ánægðar að hafa prófað eitthvað annað en borgarferð.