Vísir í Grindavík Hjónin Páll Hreinn Pálsson og Margrét Sighvatsdóttir og fjölskylda byggðu félagið upp.
Vísir í Grindavík Hjónin Páll Hreinn Pálsson og Margrét Sighvatsdóttir og fjölskylda byggðu félagið upp. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Þegar og ef kaup Síldarvinnslunnar hf. á sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi hf. í Grindavík ganga í gegn, munu núverandi eigendur Vísis greiða um 4,4 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Sem kunnugt er var tilkynnt um kaupin um þarsíðustu helgi, en þau eru háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar Síldarvinnslunnar hf. og Samkeppniseftirlitsins.

Baksvið

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Þegar og ef kaup Síldarvinnslunnar hf. á sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi hf. í Grindavík ganga í gegn, munu núverandi eigendur Vísis greiða um 4,4 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Sem kunnugt er var tilkynnt um kaupin um þarsíðustu helgi, en þau eru háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar Síldarvinnslunnar hf. og Samkeppniseftirlitsins.

Kaupverð hlutafjár í Vísi hf. nam 20 milljörðum króna en auk þess mun Síldarvinnslan taka yfir 11 milljarða króna vaxtaberandi skuldir félagsins – og nemur kaupverðið því í heild 31 milljarði króna. Aftur á móti ber núverandi eigendum Vísis að greiða fjármagnstekjuskatt af þeim 20 milljörðum, sem nemur sölu hlutafjár, sem eru sem fyrr segir um 4,4 milljarðar króna.

Nær 100% skattstofn

Fyrir þessu er einföld ástæða. Hlutafé Vísis er bókfært á um 12,5 milljónir króna – þó að aflaheimildir félagsins séu, eðli málsins samkvæmt, mun verðmætari – og því myndast nær 100% skattstofn af þeim 20 milljörðum sem nema söluverði hlutafjárins. Ef hlutafé Vísis hefði verið um 15 milljarðar króna, svo tekið sé dæmi, hefðu eigendur félagsins aðeins þurft að greiða fjármagnstekjuskatt af þeim fimm milljörðum sem ber á milli.

Síldarvinnslan greiðir um sex milljarða í reiðufé fyrir Vísi en afganginn, um 14 milljarða, með hlutabréfum í Síldarvinnslunni. Eigendur Vísis verða þannig kjölfestufjárfestar í Síldarvinnslunni, sem er skráð á markað. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er gert ráð fyrir að meginþorri þess reiðufjár sem greitt er fyrir félagið renni til ríkisins í formi fjármagnstekjuskatts og eftir atvikum til að standa skil á erfðafjárskatti.

Byggðu félagið upp frá grunni

Vísir er nú í eigu sex systkina sem byggðu félagið upp ásamt foreldrum sínum, Páli Hreini Pálssyni og Margréti Sighvatsdóttur. Félagið var stofnað 1965 en Páll Hreinn lét af störfum sem forstjóri árið 2000. Þau Páll Hreinn og Margrét eru bæði látin og er félagið nú í eigu barna þeirra, sem öll eru uppkomin. Öll hafa þau systkinin, og eftir atvikum makar þeirra, starfað hjá félaginu á einhverjum tímapunkti og gera sum enn.

Ríkissjóður gæti þó átt von á auknum greiðslum vegna viðskiptanna. Ef börn þeirra, og þá barnabörn Páls Hreins og Margrétar, erfa bréf í almenningshlutafélaginu Síldarvinnslunni munu þau þurfa að greiða erfðafjárskatt af þeim arfi.

Erfðafjárskattur bætist við

Ef aðeins 10% hlutabréfanna erfast nú þarf að greiða um 155 milljónir króna í erfðafjárskatt en ef öll hlutabréfin erfast nú þurfa þau að greiða um 1,5 milljarða króna.

Á einhverjum tímapunkti munu bréfin erfast eins og í öðrum fyrirtækjum og mun skatturinn þá taka mið af gengi og verðmæti bréfa í Síldarvinnslunni.