Landmannalaugar Sýna þarf aðgæslu þegar ekið er yfir straumvötnin.
Landmannalaugar Sýna þarf aðgæslu þegar ekið er yfir straumvötnin. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Allar helstu leiðir á hálendinu eru nú opnar, segir í tilkynningu sem birt var á vef Vegagerðarinnar í gær. Þokkalega mun viðra víðast hvar á landinu um helgina, skv. spám, og því er tilvalið fyrir fólk að fara til fjalla.

Allar helstu leiðir á hálendinu eru nú opnar, segir í tilkynningu sem birt var á vef Vegagerðarinnar í gær. Þokkalega mun viðra víðast hvar á landinu um helgina, skv. spám, og því er tilvalið fyrir fólk að fara til fjalla. Kjalvegur er til dæmis fær öllum þokkalega búnum og sæmilega háum fólksbílum og þaðan af stærri ökutækjum. Vegurinn er þó sumstaðar grýttur og óþjáll, þá einkum norðarlega á leiðinni svo sem í grennd við Hveravelli.

Sprengisand er óvarlegt að fara nema á góðum jeppum. Þar kemur til að oft getur óbrúuð Fjórðungskvísl, sem er skammt norðan við Nýjadal, verið vantsmikil og yfir hana ætti aldrei að fara einbíla. Inn á Sprengisand er til norðurs ekið frá Sigölduvirkjun. Frá sama stað er ekið til suðurs í Landmannalaugar. Næst þeim er yfir varasamar ár að fara svo allur er varinn góður þar. Sama má einnig segja um leiðina úr Laugum um Fjallabak nyrðra niður í Skaftártungur.

Ónefndar eru hér ýmsar aðrar leiðir á hálendinu sem vert er að gefa gaum. Fáfarinn og lítt þekktur er vegurinn yfir Arnarvatnsheiði, það er milli Kalmanstungu í Borgarfirði í Miðfjörð í Húnaþingi vestra. Brú yfir Norðlingafljót sem tekin var í notkun fyrir nokkrum árum opnaði þá leið flestum bílum. Ferðalangar verða heldur ekki fyrir vonbrigðum því þarna er stórbrotið útsýni, meðal annars að ísköldum Eiríksjökli og til vatnanna á heiðinni sem sögð eru óteljandi.