[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Baldur Arnarson baldura@mbl.is Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir tilkomu Boeing MAX farþegaþotna í flota félagsins hafa sparað um þrjá milljarða í eldsneytiskostnað á öðrum ársfjórðungi. Nánar tiltekið hafi það lækkað eldsneytiskostnaðinn um 21 milljón bandaríkjadala, eða um 2,9 milljarða króna, að skipta úr Boeing 757-þotunum yfir í MAX-þoturnar.

Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir tilkomu Boeing MAX farþegaþotna í flota félagsins hafa sparað um þrjá milljarða í eldsneytiskostnað á öðrum ársfjórðungi. Nánar tiltekið hafi það lækkað eldsneytiskostnaðinn um 21 milljón bandaríkjadala, eða um 2,9 milljarða króna, að skipta úr Boeing 757-þotunum yfir í MAX-þoturnar.

Icelandair greindi frá því á fimmtudag að félagið hefði hagnast um rúman hálfan milljarð á öðrum ársfjórðungi. Var það í fyrsta sinn frá 2017 sem félagið skilaði hagnaði.

„Eldsneytisverð hefur hækkað verulega milli ára,“ segir Bogi Nils. „Þegar við horfum fram á þennan kostnaðarlið hækka jafn mikið og raun ber vitni, erum við afar ánægð með að ná að skila hagnaði á fjórðungnum. Fyrir utan eldsneytissparnaðinn, þá hjálpa nýju MAX-vélarnar okkur að ná markmiðum okkar í umhverfismálum,“ segir Bogi Nils um ávinninginn.

Úr 42 í 109 milljónir dala

Til að setja þessar tölur í samhengi, varði Icelandair 109 milljónum dala til eldsneytiskaupa á öðrum fjórðungi og samtals 151 milljón dala á fyrri hluta ársins. Útgjöld vegna eldsneytiskaupa ríflega tvöfölduðust, úr 42 milljónum dala á fyrsta fjórðungi í 109 milljónir dala á öðrum fjórðungi. Verð á þotueldsneyti rauk upp í vor en hefur lækkað í sumar (sjá graf).

Spurður, hversu hátt hlutfall eldsneytiskaupanna sé varið með framvirkum samningum, segir Bogi Nils að hlutfallið nálgist að vera um 25% á þriðja fjórðungi.

Tóku varnir úr sambandi

– Hafið þið hugsað ykkur að hækka þetta hlutfall í ljósi ólgunnar á fjármálamörkuðum og í hagkerfi heimsins?

„Við vorum með stefnu í gangi um slíkar varnir fyrir kórónuveirufaraldurinn en tókum þær síðan úr sambandi. Óvissan hefur verið mikil. Delta-afbrigðið af kórónuveirunni gekk yfir og svo Ómíkron-afbrigðið. Síðan skall á stríð í Úkraínu. Það er flókið að setja varnir [vegna eldsneytiskaupa] aftur í gang þegar sveiflurnar eru svona miklar. En við erum hægt og rólega að fikra okkur þangað á ný.“

– Má þá ætla að hlutfallið hækki á næstu mánuðum?

„Það mun ekki hækka fyrir þriðja ársfjórðung. En við höfum bætt í varnirnar á fjórða ársfjórðungi.“

Með sterka bókunarstöðu

– Nú var mikil uppsöfnuð ferðaþörf eftir faraldurinn. Sparnaður safnaðist upp hjá almenningi sem notaði tækifærið þegar færi gafst og fór í ferðalög á ný. Vísbendingar eru um að fólk geri jafnvel betur við sig í mat og drykk en fyrir faraldur. Nú er mikil óvissa í efnahagsmálum. Hverjar eru væntingar ykkar fyrir veturinn og ferðasumarið 2023?

„Við sjáum sterkar bókanir út árið og þar með inn í fjórða ársfjórðung. En vegna ástandsins er ákveðin óvissa um næsta ár. Fólk hefur ekki getað ferðast mikið í tvö ár og það er mikil uppsöfnuð eftirspurn núna. Fólk er að nýta uppsafnaðan ferðasjóð. Verðbólgan hefur svo áhrif en Ísland er hins vegar mjög eftirsóttur áfangastaður og við þurfum svo fáa ferðamenn hlutfallslega til að vera í góðri stöðu. Þannig að þótt það sé ákveðin óvissa út af framangreindum þáttum, erum við engu að síður bjartsýn á framtíðina.“

Hefur áhrif á ferðaviljann

– Ferðamenn frá Bandaríkjunum hafa vegið þungt í endurkomu ferðaþjónustunnar á Íslandi í ár. Nú er kaupmáttur að gefa eftir í Bandaríkjunum og vaxtahækkanir munu að óbreyttu skerða ráðstöfunartekjur. Getur þetta ekki haft áhrif á ferðaviljann?

„Allt hefur þetta áhrif. Ef almenningur hefur minna milli handanna hefur það áhrif á eftirspurn en við teljum að okkar leiðakerfi, og Ísland sem áfangastaður, hafi veruleg tækifæri til að koma vel út, þrátt fyrir að verðbólgan fari að bíta og þess háttar. Við munum aðlaga okkur að aðstæðum hverju sinni og erum bjartsýn á framtíðina. Það er mikilvægt í þessum geira að vera með rétt framboð miðað við undirliggjandi eftirspurn. Það hefur mikla þýðingu fyrir rekstur okkar og rekstur flugfélaga almennt og þar hefur okkur tekist mjög vel til á þessu ári“

– Þið hafið kynnt nýja áfangastaði að undanförnu. Hvaða áhrif hefur þessi óvissa á hugsanlega fjölgun áfangastaða á næstunni?

„Við höfum hafið flug til Rómar, Nice og Raleigh-Durham í sumar, ásamt Salzburg í vetur. Þessir áfangastaðir hafa allir gengið mjög vel. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um nýja áfangastaði fyrir næsta ár.“

– Mörg flugfélög hafa þurft að fella niður ferðir vegna manneklu, verkfalla og röskunar á þjónustu flugvalla. Hversu þungt vegur það í uppgjörinu að fá farþega sem ella hefðu farið með SAS eða öðrum félögum sem neyddust til að fella niður ferðir?

Breytir ekki stóru myndinni

„Það hreyfir ekki nálina mikið en auðvitað hjálpar það til. Allt flæði sem kemur til okkar, og hefði ella farið annað, vegur ekki svo þungt að það breyti stóru myndinni en það bætir stöðuna.“

– Hvers vegna er minni röskun hjá ykkur en helstu keppinautum? Tengist það því á hvaða tíma dagsins þið hafið aðgang að flughliðum?

„Nei. Það tengist meira því að sem betur fer er mjög eftirsótt að starfa hjá Icelandair og okkur hefur tekist að ráða afburðastarfsfólk í allar stöður sem við þurftum að ráða í fyrir sumarið. Og fólkið okkar hefur sýnt ótrúlega útsjónarsemi og unnið gríðarlega mikla og góða vinnu við að halda okkar kerfi gangandi við mjög krefjandi aðstæður. Það hjálpar okkur líka mikið að vera með þétta áætlun, háa tíðni og marga áfangastaði, þegar eitthvað kemur upp á á flugvöllum út í heimi.“

– Hvaða áhrif hafði faraldurinn á fjárhag félagsins? Hvað verðið þið lengi að styrkja félagið þannig að það jafni sig fjárhagslega á þessu áfalli?

Vilja styrkja eigið fé meira

„Við höfum náð að halda góðri lausafjárstöðu í gegnum allt þetta tímabil og félagið hefur aldrei verið með sterkari lausafjárstöðu en einmitt núna í lok júnímánaðar. Faraldurinn hafði veruleg áhrif á eiginfjárstöðuna og við söfnuðum hlutafé til að styrkja hana en viljum hafa hana enn sterkari. Það gerum við með því að skila góðri afkomu. Að hafa skilað hagnaði á öðrum ársfjórðungi er mikilvægur áfangi í þessari vegferð okkar að styrkja efnahagsreikninginn til lengri tíma og vera með sjálfbæran og arðbæran rekstur,“ segir Bogi Nils Bogason.