Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Flestir kvíða komu hans. Karlmannsnafn er hér til sanns. Stundum vafinn geislaglans. Getur verið ævi manns. Þessa lausn á Helgi R. Einarsson: Vitjar dánardagur manns. Dagur heiti er til sanns.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Flestir kvíða komu hans.

Karlmannsnafn er hér til sanns.

Stundum vafinn geislaglans.

Getur verið ævi manns.

Þessa lausn á Helgi R. Einarsson:

Vitjar dánardagur manns.

Dagur heiti er til sanns.

Skírdagur með geislaglans.

Góða daga átti Hans.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Kvíða dánardegi menn.

Dagur heitir pilturinn.

Dagur rís í austri enn.

Ævidag menn lofa sinn.

Þá er limra:

Dómhildur digra í Hvammi,

sem daglega tróð í sig nammi

og fitnaði af því,

en fór megrun í,

nú sér eftir sérhverju grammi.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Legg ég núna landi frá

litlu dvergaskipi á,

farminn ykkur flytur það,

finnst hér gáta á sínum stað:

Upp á háan hól ég rann.

Á himni áðan sá ég þann.

Út með sjó hann síðan fann.

Sífellt reyni að klóra í hann.

Þessar limrur fylgdu lausn Helga:

Hana í sundi ég sá

hún synti þar til og frá

rennandi blaut,

baðsins hún naut,

ég brosti – og hugsaði smá.

Á sólbekk hún síðan sig lagði,

ég sagði' ekki neitt, bara þagði

og horfði' ana á,

en hugsaði þá

um hitt, þetta smá – að bragði.

Enn kvað Helgi og kallar “Dagsatt“:

Dagsatt

Kata litla er kná

þótt gömul sé orðin og grá.

Ég á Hakinu stóð

er sú stutta fram óð

og stökk yfir Almannagjá.

Hallgrímur Pétursson á að hafa ort vísu þessa um Sveinaskarð, sem nú er kallað Svínaskarð:

Langt og erfitt, leitt og slæmt

líst mér skarðið vera,

sem frá öllum sóma er dæmt

og sveina nafn réð bera.

Gömul vísa að lokum:

Svínadalnum sagt er frá

seggir búi fjórir á,

Bauluvelli bragnar slá,

brúðir eftir raka ljá.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is