Hlíf Sigurjónsdóttir
Hlíf Sigurjónsdóttir
Hátíð til heiðurs tékkneska tónskáldinu Erwin Schulhoff verður haldin í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar með tónleikum í kvöld og annað kvöld kl. 20.30.

Hátíð til heiðurs tékkneska tónskáldinu Erwin Schulhoff verður haldin í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar með tónleikum í kvöld og annað kvöld kl. 20.30.

Í tilkynningu kemur fram að Schulhoff, sem var vel þekktur í heimalandi sínu fyrir framúrstefnulega tónlist, hafi látist í fangabúðum nasista tæplega fimmtugur að aldri fyrir um 80 árum. „Alexander Liebermann tónskáld, sem skrifað hefur doktorsritgerð um Schulhoff, kynnir tónskáldið. Leikin verða verk eftir tónskáldin tvö og Liebermann lýsir áhrifum Schulhoff á verk sín.“ Meðal flytjenda eru fiðluleikararnir Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer og Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló.

„Erwin Schulhoff fæddist 8. júní 1894 í Prag og hóf tónlistarnám við konservatoríið þar. Síðar nam hann píanóleik og tónsmíðar í Vín, Leipzig og Köln en meðal kennara hans var Claude Debussy. Schulhoff var af gyðingaættum og þar að auki hliðhollur kommúnistum sem olli því að verk hans voru bannfærð af nasistum og hann mátti ekki koma þar fram á tónleikum. Schulhoff var í hópi fyrstu kynslóðar klassískra tónskálda sem nýtti sér rytma djassins í tónlist sinni og hann hreifst af óhefðbundnu formi dadaismans.“