Rosalia Kohn (Rósa) fæddist 11. desember 1926 í Oberschönegg í Þýskalandi. Hún andaðist á heimili dóttur sinnar í Welden í Þýskalandi 16. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Rosalia og Josef Kohn. Rosa giftist Josef Stechele, f. 4. júlí 1929, d. 19. mars 1997, í Dietershofen í Þýskalandi 28. júlí 1950. Eiga þau tvö börn, Waltraud og Walter, og tvö barnabörn, Claudia og Maximilian.

Rósa og Josef eiginmaður hennar fluttu til Zusmarshausen í Þýskalandi árið 1952 og svo 12 árum síðar til Augsburg-Göggingen, þar sem Josef starfaði sem skógarvörður ríkisins. Rósa og Jósef bjuggu í raðhúsi í Blaichacher Strasse 4 í Augsburg-Göggingen í 50 ár, og hélt Rósa búsetu þar eftir fráfall eiginmanns síns þangað til hún flutti til dóttur sinnar snemma á þessu ári. Börn Rósu eru búsett í Welden og Inningen í Þýskalandi, en barnabörnin og makar þeirra eru búsett í München í Þýskalandi og í Hrísey á Íslandi. Walter sonur Rósu starfar við Technical University í München en dóttir Rósu starfaði sem lífeindafræðingur og læknaritari en er nú á eftirlaunaaldri. Maximilian barnabarn Rósu starfar sem arkitekt í München. Claudia barnabarn Rósu býr í Hrísey, er íslenskufræðingur að mennt og var verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar árin 2016 til 2021 en er núna sjálfstætt starfandi.

Minningarathöfn verður haldin í Kuratie St. Johannes Baptist í Augsburg-Göggingen í dag, 23. júlí 2022, klukkan 9. Útförin fer fram í kirkjugarðinum í Augsburg-Göggingen mánudaginn 25. júlí 2022 klukkan 13.

„Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“

(6:21 Matteusarguðspjall)

Í dag kveð ég mína elskulegu ömmu sem var mér vinkona og klettur í lífinu. Sem barn dvaldi ég oft hjá henni og afa mínum, og þótti mér oft mun skemmtilegra að vera hjá henni frekar en að sækja leikskóla. Leikskólagangan reyndist mér erfið sökum þess að ég er einhverf (sem kom þó ekki í ljós fyrr en fyrir stuttu), og var ég því oft send til ömmu og afa í stað þess að mæta í leikskóla. Hjá afa og ömmu var ég frjáls og fékk skilning fyrir þær sérþarfir sem ég var þegar með á þeim tíma.

Ást og yndi ömmu Rósu var garðurinn við raðhúsið hennar, og líktu margir garðinum við skrúðgarð. Þar ræktaði Rósa meðal annars dalíur, en sumar þeirra hafði hún tekið með sér til Augsburg í flutningum frá fæðingarstað sínum, þar á meðal dalíur frá Önnu systur sinni. Þá sinnti hún garðinum sínum af ást og alúð alveg þangað til hún flutti úr sínu eigin húsi sl. janúar.

Rósa dvaldi hjá Waltraud móður minni, og sáum við mamma um alla umönnun eftir að amma slasaðist inni á eigin heimili í janúar.

Eftir fráfall Rósu er eftir Waltraud mamma mín, og er hún að skoða að flytja til Íslands, þar sem hún hefur mikla tengingu við bæði Ísland og sérstaklega Hrísey, og má segja að hún eigi í raun meiri fjölskyldu á Íslandi en í Þýskaland eftir andlát elsku móður sinnar.

Elsku amma mín. Ég kveð þig með söknuði og þakka þér fyrir allar dýrmætu stundirnar.

Claudia.