Alliance-húsið Er á besta stað við Gömlu höfnina og miðbæinn. Töluverð uppbygging er heimiluð á lóð hússins.
Alliance-húsið Er á besta stað við Gömlu höfnina og miðbæinn. Töluverð uppbygging er heimiluð á lóð hússins. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Ítrekaðar tilraunir Reykjavíkurborgar til að selja Alliance-húsið á Grandagarði 2 hafa ekki lukkast. Nú hefur borgarráð samþykkt að hefja enn á ný söluferli á húsinu og byggingarrétti á lóð þess.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Ítrekaðar tilraunir Reykjavíkurborgar til að selja Alliance-húsið á Grandagarði 2 hafa ekki lukkast. Nú hefur borgarráð samþykkt að hefja enn á ný söluferli á húsinu og byggingarrétti á lóð þess.

Í greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar til borgarráðs kemur fram að Reykjavíkurborg festi kaup á Grandagarði 2 árið 2012. Ytra byrði hússins er friðað og hóf borgin framkvæmdir fljótlega eftir kaupin. Var ytra byrðið gert upp í anda fyrri tíma. Þetta var upphaflega fiskvinnsluhús og hófst bygging þess 1924. Í dag er starfrækt í húsinu Sögusafnið og veitingastaðurinn Matur og drykkur ásamt því að nokkrir listamenn hafa aðstöðu á efri hæðum.

Nýting var aukin á lóðinni

Fram kemur í greinargerðinni að ákveðið hafi verið að vinna nýtt deiliskipulag fyrir húsið og umhverfi þess sem myndi miða að því að auka nýtingu á lóðinni. Skipulagið var samþykkt í borgarráði í mars 2018.

Á fundi borgarráðs 28. júní 2018 var samþykkt að hefja söluferli á fasteigninni og meðfylgjandi byggingarrétti með samkeppnisfyrirkomulagi. Með hliðsjón af sögulegu mikilvægi hússins og staðsetningar var lagt til að í stað beinnar sölu væri haldin samkeppni þar sem kaupverð myndi hafa 50% vægi en matsblað þar sem umsóknir yrðu metnar eftir ákveðnum þáttum eins og hugmyndafræði, hönnun og samráði við nærumhverfi myndi hafa 50% vægi. Tilboð áttu að innihalda greinargerð þar sem umsækjandi gerði grein fyrir hugmyndum sínum um uppbyggingu á reitnum ásamt uppdráttum. Þrjú tilboð bárust í eignina, það lægsta 300 milljónir, það næsta 650 milljónir og það hæsta 900 milljónir. Við könnun á áreiðanleika kauptilboða kom í ljós að tilboðsgjafar ýmist féllu frá tilboði sínu eða gátu ekki staðfest greiðslugetu. Þess vegna var endurtekning söluferlis undirbúin og framkvæmd.

Ákveðið var að styðjast við áþekkt ferli að vori 2022 og gert var 2018. Grandagarður 2 var auglýstur bæði í dagblöðum og á vef Reykjavíkurborgar í febrúar 2022. Þrjú kauptilboð bárust frá tveimur aðilum, 300, 450 og 650 milljónir. Tilboðsgjafar voru E&S 119 ehf. (E.Backman), E.Backman og Bismarck ehf. Öllum tilboðum er hafnað. Var sú ákvörðun m.a. byggð á lágum kauptilboðum í ljósi verðmats. Þá féllu engin tilboð að skipulagsskilmálum sem gilda á svæðinu og hugmyndir um aðgengi og hönnun voru ekki sýnilegar og því ekki hægt að meta þær.

Ástand hússins bágborið

Fasteignin á Grandagarði 2 er skráð 2.701 fermetri á þremur hæðum. Ástand hússins er bágborið og ljóst að eignin þarfnast verulegs viðhalds til að standa undir kröfum leigutaka um gæði eigna, segir í greinargerðinni. Það sé því ljóst að ekki sé hægt að bjóða eignina til útleigu á markaðsverði nema með talsverðum endurbótum. Vandasamt sé að leggja mat á eignina í því ástandi sem hún er í dag.

Auk fasteignarinnar fylgir byggingarréttur fyrir blandaða byggð verslunar- og veitingahúsa, aðra skrifstofu- og atvinnustarfsemi, rekstur gististaða og íbúðabyggðar. Heildar-viðbótarbyggingamagn á lóðinni er samkvæmt nýja skipulaginu 5.593 fermetrar, þar af eru 4.193 fm ofanjarðar.

Í þessum byggingarrétti felast mikil verðmæti, enda um að ræða lóð á eftirsóttum stað nálægt Gömlu höfninni og miðbænum.