Rauðátuveiðar Dr. Ástþór Gíslason sjávarlíffræðingur (t.v.) og Ragnar Jóhannsson skipstjóri (t.h.). Um borð er búnaður sem gerir viðvart um rauðátu.
Rauðátuveiðar Dr. Ástþór Gíslason sjávarlíffræðingur (t.v.) og Ragnar Jóhannsson skipstjóri (t.h.). Um borð er búnaður sem gerir viðvart um rauðátu. — Ljósmynd/Þekkingarsetur Vestmannaeyja
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarson gudni@mbl.is „Við höfum farið nánast vikulega á sjó í sumar og tekið sýni af rauðátu í Hávadýpinu austur af Eyjum,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja.

Guðni Einarson

gudni@mbl.is

„Við höfum farið nánast vikulega á sjó í sumar og tekið sýni af rauðátu í Hávadýpinu austur af Eyjum,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja. „Það hefur nánast ekki verið neinn meðafli, sem er afar jákvætt fyrir verkefnið.“

Farin verður ein ferð enn í næstu viku og þá verður lokið við að taka sýni á öllum þeim stöðum sem búið var að ákveða. Miðað er við þrjá meginpunkta og sýni tekin út frá þeim. Sýnatökustaðirnir skipta nokkrum tugum.

Veiðarnar eru stundaðar á Friðriki Jessyni VE 177, sem er rannsóknabátur Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Veiðarfærið er mjög fínriðinn háfur, svonefndur Bongóháfur, sem er sérstaklega gerður fyrir svona sýnatöku.

„Aflinn er misjafnlega mikill eftir dýpi og toghraða, en að meðaltali erum við að fá um 60 grömm í hali sem getur staðið í 5-10 mínútur. Þetta er svokallað U-tog. Við tökum sýni allt niður á 100 metra dýpi. Það er reynt að hafa togin sem líkust á hverjum stað til að fá samanburð. Svo eru tekin aukatog út frá þeim stað til að sjá muninn. Aflamagnið er ekki stórkostlegt en nóg fyrir okkur til að rannsaka það sem við ætlum að gera,“ segir Hörður.

Samstarf um rannsóknirnar

Rannsóknir á sýnunum hefjast í haust. Þá verða sýnin aldursgreind og ýmislegt fleira skoðað. Þekkingarsetur Vestmannaeyja er í samstarfi um þessar rannsóknir við Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun, Matís og tvö fiskvinnslufyrirtæki í Vestmannaeyjum. Matís, Rannsóknaþjónusta Vestmannaeyja og Háskóli Íslands munu rannsaka sýnin.

„Vonandi verðum við komin með raunhæfa útkomu úr þessum rannsóknum í kringum áramótin,“ segir Hörður. „Þá getum við séð í fyrsta lagi hvort rauðátan er í veiðanlegu magni. Í öðru lagi hvernig staðan er á meðafla. Hann gæti verið til dæmis ýsu-, þorsk- eða ufsaseiði. Þau viljum við ekki veiða. Ef eitthvað slíkt er til staðar, þá verður ekkert úr rauðátuveiðum í atvinnuskyni. Meðafli við rauðátuveiðar í Noregi er um 1%.“

Rauðátan verður eins árs gömul. Hún heldur sig á misjafnlega miklu dýpi. Rannsóknin gengur meðal annars út á að sjá hvar hún heldur sig á hverjum kafla æviskeiðsins. Á einum hluta þess heldur rauðátan sig nánast í sjávarborðinu. Þess vegna eru tekin sýni jafnt og þétt yfir sumarið á mismunandi stöðum og í misjafnlega djúpu vatni.

Hörður sagði í viðtali við Morgunblaðið í mars sl. að eftirsóknarverð efni væru í rauðátu. Eitt þeirra er astaxanthin. Það er m.a. notað í meðferð við sykursýki. Markaðsverð á einu kílói er 8-12 milljónir króna. Til að fá eitt kíló af efninu þarf ellefu tonn af rauðátu. Hver rauðáta er á stærð við hrísgrjón.