Skógar Gamli héraðsskólinn er nú sumarhótel, þangað sem margir mæta nú til þess að njóta lífsins.
Skógar Gamli héraðsskólinn er nú sumarhótel, þangað sem margir mæta nú til þess að njóta lífsins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Aðstaðan er frábær svo þarna má skapa alls konar ævintýri,“ segir Stefán Pálsson, dagskrárstjóri hjá SÁÁ.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Aðstaðan er frábær svo þarna má skapa alls konar ævintýri,“ segir Stefán Pálsson, dagskrárstjóri hjá SÁÁ. Nú stendur yfir undirbúningur fjölskylduhátíðar samtakanna, sem verður í Skógum undir Eyjafjöllum um verslunarmannahelgina. Yfirskriftin er Skógar 22 og vettvangur hátíðarinnar er Skógaskóli og fallegt, skjólsælt umhverfið þar. Hátíðin hefst næstkomandi föstudag og dagskráin stendur til sunnudagskvölds.

Rapp, ratleikur og Rúnar Þór með hljómsveit sína

Sú dægradvöl sem í boði verður eru ýmis skemmtiatriði, hægt verður að fara í hoppukastala, sápubolta, ratleik, jóga, listasmiðju og fjölmargt fleira. Tónlistarmaðurinn Rúnar Þór verður á svæðinu með hljómsveit sinni, Trap. Rapparinn Birgir Hákon verður með atriði, söngkonan Valborg Ólafsdóttir kemur fram og brekkusöng stjórnar Eyjólfur Kristjánsson.

„Ég fór austur undir Eyjafjöll í vor til að kanna aðstæður. Féll þá algjörlega fyrir staðnum sem hefur upp á svo margt að bjóða,“ segir Stefán. Getur þess að þarna í sveitinni séu Skógafoss, Paradísarhellir, Seljalandsfoss, Seljavallalaug, Kvernugil og fleiri áhugaverðir staðir. Í Skógum sé svo byggðasafnið góða, fróðlegt og fjölbreytt. „Gamli héraðsskólinn, í hótelinu þar sem við höfum aðstöðu, hentar vel. Þar nefni ég til dæmis að í skólahúsinu eru stór og rúmgóð herbergi sem henta vel til ýmiss konar sjálfsvinnu.“

Skemmta sér saman án vímuefna í fallegu umhverfi

Stefán segir rennt algjörlega blint í sjóinn um fjölda gesta sem vænta má á Skóga 22. Vænst sé þó að þeir verði einhvers staðar á bilinu 500-1.000.

„Hátíð sem þessi er mikilvæg, það er fólk sem er á svipuðum stað og vill skemmta sér saman án vímuefna í fallegu umhverfi. Sá hópur er stór. Því miður virðast hins vegar einhverjir líta svo á að áfengi hljóti alltaf að fylgja skemmtunum. Svo þarf alls ekki að vera, eins og hátíðin okkar í Skógum sýnir. Mörg ár eru síðan SÁÁ hefur efnt til samkomu eins og þessarar, en þessi valkostur þarf að vera til staðar í skemmtanamenningu þjóðarinnar,“ segir Stefán.

Fyrsta flokks aðstaða er á hátíðarsvæðinu fyrir fólk með ferðavagna jafnt sem tjaldgesti. Rafmagnstengingar í ferðavagna eru til staðar fyrir þá sem á svæðið koma með slík tæki. Í Skógaskóla er hægt að fá gistingu í Hótel Kvernu. Miðasala er á Tix.is og hjá SÁÁ í Efstaleiti 7 í Reykjavík.