Margrét Ásgerður Björnsdóttir fæddist 25. maí 1928 í Miðhópi í V-Hún. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi 15. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Þórunn Björnsdóttir, f. 18.9. 1891, d. 1979, og Björn Þorsteinsson, f. 17.1. 1877, d. 1953. Systkini hennar voru Aðalheiður, Björn Kristófer og Herdís Ingibjörg. Í Miðhópi ólust upp að miklu leyti samtíða Margréti, Ingibjörg, Njáll, Anna og Finnbogi.

Margrét hlaut hefðbundna grunnskólagöngu. Hún starfaði um skeið í súkkulaðiverksmiðjunni Víkingi og fer síðan í Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1947-1948. Eftir skólann starfar hún á Hótel Blönduósi og þar kynnist hún verðandi eiginmanni sínum.

Hinn 27.10. 1951, fyrsta vetrardag, giftist hún Jóni Espólín Kristjánssyni, f. 5.2. 1923, d. 20.6. 2014. Þau bjuggu í Köldukinn í Torfalækjarhreppi en árið 1990 fluttu þau á Blönduós og bjuggu á Brekkubyggð 22 þar sem Margrét bjó þar til hún flutti á hjúkrunarheimilið á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi.

Börn Margrétar og Jóns eru: 1) Gunnþórunn, f. 22.4. 1952. Eiginmaður hennar er Halldór Sverrisson, f. 4.3. 1950. Börn þeirra eru Flóki, Sólveig og Halldór. Eiginkona Flóka er Elísabet Þórey Þórisdóttir. Þau eiga þrjár dætur. Sólveig er fósturforeldri þriggja barna. Halldór er í sambúð með Sólrúnu Ingvadóttur. Hún á einn son. 2) Björn Björgvin, f. 16.3. 1954. Eiginkona hans er Margrét Jóhannsdóttir, f. 7.7. 1957. Börn þeirra eru Gréta Björg og Jón Andri. Sambýlismaður Grétu Bjargar er Helgi Valur Kristinsson. Hún á einn son. 3) Kristján Þröstur, f. 23.4. 1955. Sambýliskona hans er Guðbjörg Sigurðardóttir, f. 24.5. 1956. Dætur þeirra eru Fanney og Margrét Alda. Sambýlismaður Fanneyjar er Hólmar Freyr Christiansson. Þau eiga tvær dætur. Sambýlismaður Margrétar Öldu er Enetz Olasagasti. 4) Júlíus Helgi, f. 25.6. 1956. Eiginkona hans er Snæfríður Íris Berglind Kjartansdóttir, f. 5.3. 1961. Börn þeirra eru Inga Rós, Jóhanna Ýr og Aron Þór. Eiginmaður Ingu Rósar var Hlynur Hrafn Þorkelsson, d. 2021. Þau eiga þrjár dætur. Jóhanna Ýr er í sambúð með Pascal Johannes Spalt. Þau eiga einn son. Aron Þór er í sambúð með Rakel Hönnudóttur. Þau eiga einn son. 5) Guðrún Ásgerður, f. 14.9. 1957, sonur hennar er Brynjar Bjarkason. Eiginkona hans er Sunna Hólm Kristjánsdóttir. Þau eiga þrjú börn. 6) Ingibjörg Eygló, f. 8.8. 1959. Eiginmaður hennar er Guðmundur Sæmundsson, f. 12.3. 1960. Börn þeirra eru Lilja Dögg, Harpa Lind og Jón Unnar. Eiginmaður Lilju Daggar er Guðbergur Heiðar Valgeirsson. Þau eiga þrjú börn. Sambýlismaður Hörpu Lindar er Gunnar Þór Þorsteinsson. Þau eiga tvö börn. Jón Unnar er í sambúð með Erlu Sigurbergsdóttur. Þau eiga þrjú börn. 7) Magnús Ómar, f. 6.1. 1961. 8) Þorsteinn Kristófer, f. 25.4. 1967. Eiginkona hans er Hrefna Aradóttir, f. 3.2. 1966. Dætur þeirra eru Guðlaug Ingibjörg og Margrét Ásgerður. Guðlaug er gift Hróbjarti Arnfinnssyni. Þau eiga einn son. Margrét Ásgerður er gift Jamie Alexander.

Útför Margrétar Ásgerðar fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 23. júlí 2022, klukkan 14.

Sæl mamma.

Jæja, það held ég að sé nú veisla í sumarlandinu. Nú eru steiktar pönnukökur eins og enginn sé morgundagurinn, bakaðar skonsur, sódakökur og brúntertur. Vá, hvað pabbi er heppinn. Ég var að reikna að gamni mínu og ég held að þú hafir verið búin að steikja ca. 40 pönnukökur á viku í 60 ár, það gera ekki nema 124.800 pönnukökur. Svo bakaðir þú líka sódakökur og kryddkökur, ca. fjórar á viku, það eru ekki nema 12.480 formkökur. Svo er ég viss um að þú hefur prjónað að minnsta kosti 15 peysur á ári, það eru ekki nema ca. 900 peysur þessi 60 ár. Fyrir utan alla vettlingana og sokkana sem þú prjónaðir. Samt komst þú okkur átta börnunum þínum á legg, ég var ábyggilega ekki sá auðveldasti, en ég hlýt að hafa verið sá skemmtilegasti!

Ég kom til þín á fimmtudegi og ég hvíslaði að þér að ég kæmi aftur á laugardag með gítarinn og þá myndi ég spila fyrir þig. Þú ljómaðir eins og sólin og brostir til mín. En á föstudeginum kvaddir þú. Maður á aldrei að láta bíða til morguns það sem maður gæti gert í dag. Það kenndir þú mér.

En ég stend við loforðið, ég samdi lítið lag.

Það er laugardagur í dag, þetta verður spilað og sungið fyrir þig.

Textinn er einhvern veginn svona:

Minning um mömmu

Skærasta blómið hún mamma er farin,

ég kveð hana nú hér í dag.

Ég settist því niður og hugsaði ráð mitt

og samdi til hennar smá lag.

Margt kemur í hugann og margs er að minnast

og ekki er pláss fyrir allt hér.

Ég stikla á því helsta – en kem aldrei öllu að,

hver heilvita maður það sér.

Þú ólst af þér átta,

ég er þar yngstur,

þú kenndir mér það sem ég kann.

Ég fór ekki alltaf eftir því öllu,

en þú breyttir barni í mann.

Drauminn minn vissir, hvar hugur minn væri

og hvattir mig alltaf til þess

aldrei að hika og engu að tapa

og segja við neikvæðni bless.

Þú ólst af þér átta,

ég er þar yngstur,

þú kenndir mér það sem ég kann.

Ég fór ekki alltaf eftir því öllu,

en þú breyttir barni í mann.

Forðum þú gafst mér plötuna um Drauminn,

þú vissir hvar áhuginn var.

Sagðir mér líka að fylgjast með þessum,

þett' er'ða sem koma skal.

Nú ertu farin elsku mamma,

við kveðjum þig öll hér í dag.

Í kvöld mun ég setja Sálina á fóninn

og spila mitt uppáhaldslag.

Þú ólst af þér átta,

ég er þar yngstur,

þú kenndir mér það sem ég kann.

Ég fór ekki alltaf eftir því öllu,

en þú breyttir barni í mann.

Svo mun ég fá mér pínu rautt eðal,

eins og þú kallaðir það,

og minnast þess móðir

þú kemur ei aftur.

Þú ert komin á endastað.

Elsku mamma, takk fyrir allt, þú gerðir mig að því sem ég er.

Kveðja,

Þorsteinn (Steini).

Í dag kveð ég elskulega tengdamóður mína hinstu kveðju.

Okkar kynni hófust þegar sonur hennar bauð mér upp í Köldukinn, eitthvað var nú stúlkukindin kvíðin fyrir þessu sem reyndist nú algjör óþarfi þar sem mér var tekið opnum örmum af þeim hjónum.

Mikill myndarskapur var í öllu sem Magga tók sér fyrir hendur, til dæmis hannyrðir, alltaf með nokkur verkefni í gangi í einu.

Garðurinn átti hennar hug og hjarta og var mikil gróska í öllu sem hún fór höndum um og eftir að þau hjón fluttu til Blönduóss á brekkuna, naut hún sín í garðinum og hlaut viðurkenningu fyrir sinn blómalega garð.

Árið 1991 var haldin í mínum garði fjölskyldugrillhelgi og hefur hún verið hvert ár síðan og lengst af fyrir norðan í Möggugarði, leikir – þrautir og söngur, Jón með nikkuna og strákarnir með gítarana, þá var kátt á Brekkunni, allir mættir, frá elstu og niður í nokkurra mánaða.

Eftir að við Bjössi eignuðumst börnin okkar var amma alltaf boðin og búinn að mæta á Skagann að passa þegar við skruppum í kór- eða helgarferðir. Börnin biðu spennt eftir að amma kæmi því þá yrði sko kvöldkaffi.

Gestrisin var hún og til dæmis kom rútufarmur af kórfélögum Bjössa og makar til hennar í ungversku gúllassúpuna góðu, kaffi og með því, svona var Magga, ekkert mál.

Elsku hjartans Magga, þakka þér allar þær yndisstundir sem við höfum átt öll þessi ár, geymi ljúfar minningar í hjarta mér.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Elskulega mágfólk og fjölskyldur, innilegustu kveðjur til ykkar.

Margrét (Magga).

Ég hitti Margréti tengdamömmu fyrst í Reykjavík vorið 1973. Mér var vel tekið eins og ævinlega síðar. Fljótlega fórum við Gunnþórunn á rauða fólksvagninum norður. Þar hitti ég systkini Gunnþórunnar, þau elstu við það að hleypa heimdraganum. Ljóst var að húsmóðirin hlaut að hafa staðið í ströngu við að koma öllum þessum hópi á legg. Ég átti svo eftir að kynnast því síðar hvílíkur forkur tengdamamma var til allra verka. Aldrei sá ég nein þreytumerki á henni, allt var unnið með sama jafnaðargeðinu og elskulega viðmótinu.

Eins og ljóst er af framansögðu hafði lítill tími gefist fyrir frí og ferðalög. Fyrsta utanlandsferð hennar var til Danmerkur vorið 1978 til þess að heimsækja okkur fjölskylduna. Í för með henni voru Björn og tengdadóttirin Margrét. Þau voru „heppin“ með veður, en þá var nánast hitabylgja. Magga hafði orð á að aldrei hefði hún lent í öðru eins. En þó kunni tengdamamma ekki illa við hita og vildi alltaf hafa hlýtt innan dyra. Seinna fór hún í fleiri ferðir, meðal annars til Parísar í fylgd dætra og dótturdóttur. Í þeirri ferð kom vel í ljós hve Magga átti létt með að leysa úr málum. Í vandræðum dætranna í óhrjálegu porti með að finna réttan inngang að ferðamannaíbúðinni þar sem átti að gista tók Magga til sinna ráða, leit í kring um sig og sá konu í glugga og kallaði nafn gestgjafans hátt og snjallt og veifaði. Málið var leyst og það fór vel á með þeim tveim þó þær mæltu hvor á sinni tungu.

Árið 1990 fluttu Jón og Magga á Blönduós. Tengdamamma vann þá á Héraðshælinu á Blönduósi á fjórðu hæðinni, þar sem hún átti síðar heimili.

Í húsinu á Brekkunni undi Magga sér vel. Þar er dásamlegt útsýni yfir flóann og tengdamamma ræktaði upp fallegan garð, sem seinna var verðlaunaður. Gerður var pallur sjávarmegin og þar gat orðið býsna heitt á sólskinsdögum. Þar voru iðulega haldnar grillveislur fjölskyldunnar með hljóðfæraleik og söng og leikjum fyrir börnin. Jón féll frá í júní 2014. Hann hafði þá átt við vanheilsu að stríða um nokkurra ára skeið. Tengdamamma annaðist mann sinn af alúð og natni og gerði honum fært að búa heima. Hjúkrunarheimilispláss kostar samfélagið fimmtán milljónir á ári. Magga sparaði samfélaginu tugi milljóna. Hver þakkar henni og öðrum í svipaðri stöðu fyrir þá þjónustu? Eftir fráfall Jóns bjó tengdamamma ein í húsinu á Brekkunni og naut aðstoðar Guðrúnar (Deddu) dóttur sinnar.

Möggu féll aldrei verk úr hendi. Hún hafði yndi af því að sinna garðinum sínum, prjóna og sauma út, gjafir handa afkomendum og skylduliði. Magga fylgdist vel með sinni stóru fjölskyldu fram á hinstu stundu.

Hún flutti á Héraðshælið á Blönduósi haustið 2018, þá orðin níræð. Hún átti þar góða daga lengi vel, sinnti handverki, las og fékk sér stundum rautt. Tíminn leið og sjón hennar versnaði og þar kom að þessi mikla hannyrðakona varð að játa sig sigraða við þá iðju, sem voru henni mikil vonbrigði. En því mótlæti tók hún með miklu jafnaðargeði og fór að hlusta á hljóðbækur sér til ánægju. Ég kveð tengdamóður mína með miklu þakklæti.

Halldór Sverrisson.

Elsku Magga, ég má til með að minnast þín. Þú varst mögnuð kona og ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnst þér. Þegar ég kom í fjölskylduna og fór að búa með yngsta syni þínum, þá vissi ég ekki hversu heppin ég var að fá þig fyrir tengdamömmu. Ég sótti mikið til þín í kaffi og spjall og þá gleymdist það gjarnan að þú værir tengdamamma, mér fannst þú bara vera góð vinkona sem gott var að spjalla við. Sem dæmi, þá vorum við Steini ekki búin að búa lengi saman þegar ég fór austur á land að heimsækja fjölskyldu mína og bið Steina um að klára að henda rusli og laga til í íbúðinni okkar, því ég var að missa af rútunni austur og náði ekki að klára tiltekt. Auðvitað kom ég að öllu eins og ég hafði skilið við það þegar ég kom heim aftur, sem sagt ruslið á sínum stað í miðri íbúðinni. Ég skrepp síðan í kaffi til þín og sit í eldhúsinu og spjalla og byrja að kvarta yfir þessum ómögulega manni sem ég var farin að búa með, hann hefði ekki gengið frá neinu og allt ruslið á sama stað og ég skildi við það! Þá laumaðir þú brosi að mér og spurðir „Er hann illa upp alinn hjá mér, blessaður drengurinn?“ Ég held svei mér þá að ég hafi sjaldan skammast mín jafn mikið og þegar ég áttaði mig á því að ég var að tala um litla drenginn þinn... en það er skemmst frá því að segja að næst þegar ég fór austur í frí, þá hringdir þú í drenginn þinn og bauðst til að laga til fyrir hann á meðan ég væri í burtu. Sem betur fer þáði hann það ekki og sagði mér frá þessu. Þarna áttaði ég mig líka á að þú vildir hafa mig áfram í fjölskyldunni. Og jú, strákurinn fór auðvitað með árunum að átta sig á því að hann gæti vel tekið þátt í að henda ruslinu og ég áttaði mig á að það væri ekki það mikilvægasta við sambúðina og engin ruslaágreiningur lengur.

Þú reyndist mér alla tíð einstaklega vel og dætrum okkar einstök amma. Þær voru alltaf velkomnar, hvort sem var til að laumast í búrið og næla sér í pönnukökur eða brúntertu eða til að gista þegar við fórum eitthvert í helgarfrí. Þú varst kona sem ég heyrði aldrei tala illa um aðra og aldrei heyrði ég þig kvarta yfir neinu. Handverkið sem er til eftir þig er einstakt og einstaklega fallegt og ég passa upp á það sem ég hef eignast eftir þig eins og gull. Hvort sem það eru útsaumaðir borðdúkar, heklað milliverk eða saumað og perlað jólaskraut. Prjónaðir sokkar voru reglulega í afmælis- eða jólapökkum og alltaf áttu stelpurnar dásamlega fallegar peysur, prjónaðar af þér.

Þú áttir líka einstakan garð sem þú hafðir virkilega gaman af að stússast í, enda verðlaunaður fyrir fegurð.

Þegar ég og Steini fluttum frá Blönduósi, þá var erfiðast að segja þér frá því, enda fannst mér ég vera að svíkja þig með því að fara burt, en þú skildir vel að við færum, Steini að vinna fyrir sunnan og stelpurnar báðar komnar í háskóla þar og ég vildi vera nær þeim. Við töluðumst við í síma í staðinn. Svo var kíkt í heimsókn, þó alls ekki eins oft og ég hefði viljað, en vinnan og margt annað tók tímann frá manni. Ég er svo þakklát fyrir allar stundirnar með þér, alla kaffibollana, spjallið, skoðunarferðirnar um garðinn og að hafa fengið tækifæri til að ná að kveðja þig fyrir þína hinstu ferð. Það eru örugglega pönnukökur í sumarlandinu, þínar einstöku pönnukökur sem við fengum aldrei nóg af. Með smá dassi af kardimommum, það gerði þær einstakar.

Takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir

Hrefna.

Elsku amma, það koma svo margar minningarnar upp í hugann að það er erfitt að velja. En þó eru það litlu hlutirnir í hinu daglega amstri sem minna mann á þig og fylla mann söknuði sem og þakklæti. Allar pönnukökurnar. Kandísinn og perubrjóstsykurinn. Ilmurinn af kardimommunum. Steikja kleinur eða að skera út laufabrauð. Prjóna mína fyrstu húfu eða að hekla lengdina á stofunni á Brekkubyggð. Læra að leggja kapal og spila kana. Ullarsokkarnir og vettlingarnir. Og alltaf konfektkassi.

Það er nefnilega þannig að það er ekki eitthvað eitt, þó pönnukökurnar séu nálægt því, en það er allt. Hláturinn þinn yfir vitleysunni í mér og að þú værir sko alveg hlessa á einhverri sögunni sem ég var að segja þér. Það var því ekkert meira viðeigandi en að þú heyrðir fyrst af því að ég hefði gift mig.

Þú og afi voruð alltaf þessi fyrirmyndarhjón. Hvort sem það er þrautseigjan eða þrjóskan þá vona ég að ég hafi lært sitthvað af ykkur og vonandi fengið í vöggugjöf. Bæði í nafninu og í Köldukinnargenunum.

Þín nafna,

Margrét Ásgerður Þorsteinsdóttir.

Elsku amma mín, það er svo skrýtið að sitja og skrifa þessi orð.

Mér verður hugsað til baka til þess tíma sem ég óx úr grasi á Blönduósi. Daglegar heimsóknir í pönnukökur, kandís, brúntertu, sandköku og mjólkurglas. Þær stundir sem maður horfði út á hafið og fylgdist með dýralífinu. Ég er þakklát fyrir allar þær stundir og allan þann tíma sem við fengum og allt það sem ég hef fengið að læra af þér.

Lærdómurinn var margþættur, allt frá því að þú aðstoðaðir mig við að læra fimm sinnum töfluna þegar mamma og pabbi voru erlendis. Þetta var sennilega erfiðasta margföldunartaflan sem ég lærði, ég var trítilóð og brjáluð yfir því að þú aðstoðaðir mig ekki eins og mér hentaði og settir mér mörk. Þú flissaðir yfir vitleysisganginum og kipptir þér lítið upp við brjálæðið í mér við þessa tilgangslausu stærðfræði. Enn þann dag í dag heyri ég flissið innra með mér þegar ég nýti þessar upplýsingar í daglegu lífi. Það var öllu einfaldara að kenna mér handavinnu eða leiðbeina mér í matargerð – jafnvel þótt það væri í gegnum síma eftir að ég flutti til Reykjavíkur.

Það var samt ekki fyrr en ég gekk með Þorstein Elfar sem ég áttaði mig raunverulega á því hvað þú byggir yfir dýrmætri vitneskju, reynslu og upplifun af ótrúlegum tímum. Mér eru minnisstæð nokkur símtöl frá sumrinu 2018, meðan ég var ófrísk, við töluðum alltaf reglulega saman, alltaf hafðirðu áhyggjur af því hvort ég væri farin að fá í grindina eða hvort ógleðin væri ekki örugglega farin. Það hefur eflaust enginn spurt þig að þessu á þínum átta meðgöngum. Já, eða þegar þú hneykslaðist á því að ég færi með börn á sumarnámskeiðum í vettvangsferð að þvottalaugunum í Laugardalnum. Það væri einkennilegt að hafa minnisvarða þar sem fólk fór einungis til nauðsynlegra athafna.

Ég man enn ljómann yfir þér þegar Þorsteinn fæddist. Tuttugasta langömmubarnið! Þú sagðir mér hve heppin ég væri að eiga börn núna. Rafmagnið hafði ekki komið í Köldukinn fyrr en rétt fyrir jól 1963, þá varstu búin að eiga sjö börn og áttir bara eftir að eiga pabba. Fram að því voru bleiur soðnar í potti á eldavél. Svona rifjaðirðu þessa tíma upp fyrir mér. Ég verð að viðurkenna að ég hugsa alltaf til þín þegar magapestir ganga yfir – þetta er ekkert mál því ég hef rafknúna þvottavél, það hafðir þú ekki!

Þetta eru svo sannarlega tímarnir tvennir sem þú fékkst að upplifa. Það var eiginlega þannig að það vantaði alveg heila kynslóð á milli okkar. Það skipti engu máli. Við vorum alltaf jafn góðar saman.

Það var ómetanlegt að geta treyst á tæknina þegar við Hróbjartur gengum í hjónaband fyrir tæpum tveimur árum, að fá að skála með þér og njóta. Ég mun ylja mér við þær minningar ævilangt ásamt því að nýta allar upplýsingarnar sem ég hef fengið frá þér í daglegu lífi.

Afi tekur glaður á móti þér í sumarlandinu, þar færðu sjónina aftur, þið skálið saman í rauðvíni, afi tekur fram nikkuna og þú steikir aftur pönnukökur eftir kúnstarinnar reglum. Ég sé þetta fyrir mér. Skál fyrir þér, amma mín, við hittumst aftur síðar, einn daginn.

Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir.

Í dag kveðjum við elsku ömmu okkar, Margréti Björnsdóttur. Það er sárt að kveðja en í sársaukanum er líka þakklæti fyrir dásamlegar stundir gegnum áratugina og stolt yfir því að geta kallað þessa miklu gæðakonu ömmu okkar. Það eru forréttindi að hafa átt hana að í lífinu, dýrmæt tenging við fortíðina og hafsjór af góðum minningum.

Ævintýraheimur Köldukinnar í æsku okkar, þar sem við komum hverju sumri, og svo síðar allar góðu stundirnar á Bakkanum á Blönduósi – allar þessar minningar eigum við ömmu að þakka. Maturinn, kökurnar, tónlistin, samtölin og þögnin. Það var gaman að spjalla við ömmu og það var líka gott að sitja í þögn með ömmu.

Amma var hjartahlý kona sem hafði óþrjótandi áhuga á fólki. Hún las mikið og hafði sérstaklega gaman af sögum af fólki, bæði ævisögum samtímafólks og sögum frá liðnum öldum.

Hún lagði mikinn metnað í að halda fallegt og hlýlegt heimili og garðurinn hennar, bæði í Köldukinn og svo síðar á Bakkanum á Blönduósi, var fallegt listaverk sem hún sinnti af mikilli natni.

Amma eignaðist átta börn og óteljandi barna- og barnabarnabörn. Hún fylgdist vel með hverju og einu okkar og vissi alltaf hvað við vorum að gera í lífinu. Hún prjónaði endalaust af peysum, sokkum og vettlingum á okkur öll, fallegt handverk sem voru alltaf bestu gjafirnar á jólunum. Henni fannst það samt alltaf frekar ómerkilegt og vildi líka láta eitthvað praktískt fylgja með eins og gott ofnfast mót eða handklæði.

Í fjöldamörg ár höfum við öll hist árlega og slegið upp grillveislu með ofgnótt af kræsingum og samsöng. Afi spilaði á nikkuna á meðan hann lifði og bræður á orgel og gítar. Þessar árlegu veislur hafa hjálpað okkur öllum að styrkja tengslin og tengjast fjölskylduböndum. Amma var akkerið í fjölskyldunni.

Nú þegar hún er komin til afa í annan heim vonum við að þar sé nóg af góðum mat, bókum, blómum og ekki síst samsöng.

Ástarþakkir fyrir allt sem þú gafst okkur.

Sólveig, Halldór og Flóki.

Með hlýhug og þakklæti langar mig að minnst ömmusystur minnar og vinkonu í örfáum orðum. Mínar fyrstu minningar af Möggu frænku eru þegar ég, mamma og amma fórum í heimsókn til hennar. Byrjuðum við fyrst á því að koma við hjá Þórunni langömmu á Héraðshælinu á Blönduósi og svo var farið í Köldukinn og deginum eytt þar. Önnur minning er þegar Magga kom í Miðhóp og gróðursetti birkiplöntur í heimagrafreitinn þar sem foreldrar hennar liggja, bað hún mig að vökva plöntunar og gaf mér þá risastóran brúnan bréfpening.

Það var okkar lán þegar við fjölskyldan fluttum upp á Brekkubyggð árið 1994 að Magga bjó í húsinu á móti. Vorum við nágrannar í rúm 25 ár eða þangað til að hún flutti á HSN Blönduós, eða í vinnuna mína, sem kom sér vel þar sem við gátum hist reglulega, sérstaklega á covid-tímum þegar lokað var fyrir heimsóknir.

Ýmislegt og margt skemmtilegt höfum við brallað saman á þessum árum. Eitt sinn skruppum við í Miðhóp til að skoða sundlaugina sem eldra fólk hafði talað um en við yngra vissum ekki af. Jú, hún vissi vel hvar þessi sundlaug hefði verið en í hennar augum var þetta bara drullupollur. Við fórum einnig að Hópinu þar sem hún sagði mér frá tímanum þegar hún var að alast upp í Miðhópi, t.d. þegar engjarnar voru heyjaðar og hesturinn var aðal vinnu- og ferðamátinn. Já, margs er að minnast, Magga var einnig þátttakandi í lífi barnanna minna. Hún bauð Arnari Helga í plokkfisk þegar hún heyrði raunir hans um komandi kvöldmat heima hjá honum. Elínborg gat ekki byrjað barnaafmælið sitt því Magga var ekki mætt og svo sótti hún Benna þegar hann var einn heima og bauð honum í mat. Þegar fjölskylda Möggu var með árlegan hitting vorum við fjölskyldan sótt ef við vorum ekki að skila okkur yfir. Magga var mjög handlagin, prjónaði og heklaði mörg snilldarverkin. Eiginlega gerði Magga það sem þurfti að gera. Það sást t.d. til hennar á níræðisaldri að vera mála bílskúrinn. Það var bara gengið i öll verk, þetta var ekkert flókið í hennar augum. Garðurinn hennar var verðlaunagarður, þar átti hún sínar gæðastundir og oft skrapp maður yfir til hennar í garðinn með kaffibollann í hönd og tókum við stöðuna hvor á annarri.

Elsku Dedda, Steini, Gunnþórunn, Maggi, Bjössi, Kristján, Inga og Júlli. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra og allrar fjölskyldunnar. Að leiðarlokum þökkum við fjölskyldan samfylgdina. Minning Möggu mun lifa.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd..

(Guðrún Jóhannesdóttir)

Guðrún Benediktsdóttir

og fjölskylda.