House Hugh Laurie leikur hinn óþolandi lækni.
House Hugh Laurie leikur hinn óþolandi lækni.
Læknadrama er gott sjónvarpsefni, svona oftast nær. Að minnsta kosti er ég agalega veik fyrir slíku. Eftir að hafa klárað allt það nýjasta á Netflix í sumarfríinu var úr vöndu að ráða.

Læknadrama er gott sjónvarpsefni, svona oftast nær. Að minnsta kosti er ég agalega veik fyrir slíku. Eftir að hafa klárað allt það nýjasta á Netflix í sumarfríinu var úr vöndu að ráða. Þá fann ég mér til gleði allar átta þáttaraðirnar af House inni á Sjónvarpi Símans, en sá þáttur var sýndur á árunum 2004 til 2012.

Undirrituð hafði séð eitthvað af þeim í „gamla daga“ og byrjaði því aftast. Ég er núna að vinna mig aftur á bak í gegnum seríuna og er búin með áttundu og hálfnuð með sjöundu. Kannski furðulegt uppátæki, en skiptir ekki öllu að horfa í réttri röð því í hverjum þætti er eitt mál tekið fyrir.

Læknirinn Dr. Gregory House, snilldarlega leikinn af breska leikaranum Hugh Laurie, er gjörsamlega óalandi og óferjandi en samt bæði klár og sjarmerandi. Hann er hluti af afar sérhæfðu teymi á spítala nokkrum í New Jersey, en teymið sér um að leysa ráðgátur um sjaldgæfa sjúkdóma. House notar afar óhefðbundnar leiðir til að komast að sannleikanum og brýtur oft bæði lög og reglur. Einnig gerir hann samstarfsmönnum sínum lífið leitt með ýmsum prakkarastrikum eða hreinum dónaskap. En House er samt frábær og allir elska hann. Og svo bjargar hann mannslífum líka.

Ásdís Ásgeirsdóttir