Gunnar Einarsson
Gunnar Einarsson
Eftir Gunnar Einarsson: "Það hefur verið ráðandi aðferð, að leggja allar hækkanir saman og kalla verðbólgu. Við skulum skilja þessar hækkanir að í innlendar og erlendar."

Nú er verðbólgan komin á gott skrið og Seðlabankinn hækkar vexti ótt og títt. Seðlabankinn hefur völd og vitanlega þarf hann að nota þau og láta líta út fyrir að hann geti gert gagn. Eins og aðrir guðir hótar hann kvöl og pínu ef lýðurinn fylgir ekki fyrirmælum.

Það hefur verið ráðandi aðferð, og er enn, að leggja allar hækkanir saman og kalla verðbólgu. Við skulum skilja þessar hækkanir að í innlendar og erlendar.

Innlendar hækkanir

Við skulum hugsa okkur að ríkisstjórnin ákveði að senda öllum Íslendingum, stórum sem smáum, tékka upp á eina milljón, til að rétta við heimilisbókhaldið. Fyrir þá sem lítið hafa, væri þetta mikil lyftistöng og það tekur því ekki að senda þeim sem betur eru settir minna til að það hjálpi þeim eitthvað. Þetta er vel mögulegt, þótt ekki sé króna í kassanum. En það fylgdi þessu skattlagning, sem felst í því að peningarnir yrðu minna virði, sem sagt verðbólga, verðbólguskatturinn. Það sama gerist þegar ríkið stofnar til útgjalda, hver sem þau eru; séu þau umfram tekjur, þá verður aukið peningamagn að verðbólgu. Þetta er ákveðin leið til að skattleggja þjóðir. Verðbólgan í dag er eðlilegt framhald útgjalda langt umfram tekjur. Drifkraftur innlendrar verðbólgu kemur frá stjórnvöldum, en vitanlega er eðlilegt að menn kenni öllu öðru um. Þar fyrir utan minnkuðu möguleikar á að eyða peningum, vegna minna framboðs á utanlandsferðum, skemmtunum, jafnvel ekki hægt að fara á veitingahús. Þegar minna er að eyða í, kyndir það undir hækkunum. Í staðinn fyrir verðbólgu ættum við að tala frekar um verðbólguskattinn og vaxtaskattinn, sem er náfrændi þess fyrrnefnda.

Verðbólguskriðan verður ekki stöðvuð af Seðlabankanum en hann getur að nokkru leyti breytt stefnu skriðunnar og ef til vill hægt á henni tímabundið. En grunnurinn er að heildarverðgildi peninganna hlýtur að rýrna.

Verðbólguskatturinn er ákaflega vondur skattur, sem leggst á allflesta, en ákaflega misjafnlega og oft mjög illa á þá sem hafa lítið. Það væri verðugt rannsóknarefni að rannsaka á hverjum verðbólguskatturinn lendir helst og eins hverjir lenda verst í vaxtaskattinum.

Ef til vill væri réttlátara að gefa Seðlabankanum leyfi til að leggja á sérstakan tímabundinn veltuskatt. Þetta væri skattur sem legðist á alla veltu og reiknaðist ekki inn í vísitöluna. Ef stjórnvöld eyddu umfram tekjur næði Seðlabankinn jafnvægi með þannig skatti.

Erlendar hækkanir

Ekki er að sjá að Seðlabankinn taki út erlendar hækkanir áður en hann reiknar verðbólguna. Tökum lítið dæmi. Hækkandi húsnæðisverð er sagt vera rót vandans. Allt efni til bygginga hækkar, sem Seðlabankinn getur í sjálfu sér ekki gert neitt við frekar en við öðrum erlendum hækkunum. Þetta hefur síðan þau hliðaráhrif að dýrara verður að byggja. Verulegar hækkanir á húsnæði eru þannig óumflýjanlegar vegna erlendra hækkana, þó það sé ekki eina ástæðan.

Gengið

Gengisfellingar voru mjög í tísku hér áður fyrr. Með gengisfellingu má með einu pennastriki gera peninga verðminni, innheimta mikinn verðbólguskatt. Alls konar vísitöluútreikningar og vísitöluhækkanir vega á móti því og tefja fyrir að jafnvægi náist, bæði eftir gengisfall og almennt þegar hrinur hækkana ganga yfir. Það, að taka ákveðna peninga og gera þá stikkfrí fyrir verðbólgunni, með því að verðtryggja þá, verður til þess að aðrir peningar fá á sig enn hærri skatt. Vísitöluhækkanir launa eru af sama meiði. Nýjustu hækkunum á launum ráðherra og fleiri er komið á af fólki sem skilur vel eigin hag, en minna hvernig verðbólgan virkar.

Seðlabankinn, vinur litla mannsins

Fyrir nokkrum árum lækkaði Seðlabankinn stýrivexti hressilega. Nú skyldi gera vel við litla manninn. Margt ungt fólk sá fram á að með því að spara fyrir útborgun gæti það keypt íbúð og ráðið vel við að borga af lánunum með þessum lágu vöxtum.

En vitanlega var Adam ekki lengi í Paradís. Fasteignafélög sáu tækifæri í að fjárfesta áður en óumflýjanlegar hækkanir kæmu fram. Margir einstaklingar lentu líka í því að laun höfðu hækkað, á sama tíma og það var minna að eyða peningunum í. Hjá þó nokkrum hrúguðust peningar inn á bankareikninga. Margir óttuðust um hag sinn í bönkunum og leituðu öryggis á húsnæðismarkaðinum. Allt fullkomlega eðlilegt og nokkuð fyrirsjáanlegt. Margir fyrstu kaupendur höfðu ekki við að spara upp í afborgun, sem hækkaði stöðugt, en þá sem áttu í vandræðum með uppsafnaða peninga munaði lítið um að borga umframverð til að fá eignir.

Seðlabankinn bendir núna ungu fólki á að búa bara lengur heima

Við megum ekki gleyma því að hvort sem verðbólga er góð eða vond er hún eðlileg viðbrögð efnahagskerfisins til að ná jafnvægi. Hún er neyðarventill, sem virkjast þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um útgjöld umfram tekjur. Harkaleg viðbrögð Seðlabankans gera illt verra.

Höfundur er bóndi á Daðastöðum. dadastadir@simnet.is

Höf.: Gunnar Einarsson