[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Chris Williams. Handrit: Chris Williams og Nell Benjamin. Aðalleikarar: Karl Urban, Jared Harris, Marianne Jean-Baptiste og Zaris-Angel Hator. 2022. 115 mín.
Sjávarskrímslið er ný teiknimynd á Netflix eftir leikstjórann Chris Williams sem er þekktur fyrir Bolt (2008), Moana (2016) og Big Hero 6 (2014). Kvikmyndin gerist í söguheimi þar sem sjávarskrímsli og skrímslaveiðimenn hafa verið í stríði um yfirráð yfir hafinu í kynslóðir. Maisie (Zaris-Angel Hator) er dóttir látinna skrímslaveiðimanna. Hún ólst upp við sögur um viðbjóðsleg skrímsli og goðsagnakennda veiðimenn og dáir mest fræga veiðiskipið, Hið óumflýjanlega. Þegar það skip leggst að bryggju flýr hún munaðarleysingjahælið og laumast um borð. Áhöfninni er skipað að drepa risastórt skrímsli, Rauðu ókyrrðina, en ef verkefnið mistekst mun konungsveldið taka skipið úr notkun. Í átökum við Rauðu ókyrrðina falla Maisie og Jacob Holland (Karl Urban) fyrir borð og stranda á eyju þar sem þau standa augliti til augliti við hræðilega skrímslið. Rauða, eins og Maisie kallar skepnuna, reynist hins vegar ekki vera neitt skrímsli heldur aðeins misskilið dýr.

Sagan um skepnur og manneskjur sem læra að samþykkja hvert annað er ekkert nýtt af nálinni. Það er greinilegt að handritshöfundarnir Williams og Nell Benjamin sóttu innblástur í kvikmyndaseríuna Að temja drekann sinn (2010) en það truflar mig ekki, Sjávarskrímslið er skemmtileg viðbót.

Maisie og Jacob eru aðalpersónur myndarinnar og þeirra dýnamík er mjög skemmtileg. Samband þeirra minnir mig á skrautlegt samband Flynns Rider og Garðabrúðu í Tangled (2010-2019), nema hér er ekki um að ræða ástarævintýri. Jacob er í raun mjög týpísk útgáfa af Disney-hetju. Hann er einhvers konar blanda af Flynn Rider og Kristoff í Frozen (2013) bæði í útliti og persónuleika en það er ekki leiðum að líkjast.

Boðskap myndarinnar má túlka á þá vegu að mikilvægt sé að vera opinn fyrir breytingum og líta gagnrýnum augum á umhverfið. Hins vegar er undirþemað mun alvarlegra og í anda Moby Dick . Kvikmyndin tekst á við hættuna sem getur fylgt þráhyggju en það er sýnt í gegnum karakterinn Kaptein Gal (Jared Harris) sem er staðráðinn í að drepa Rauðu ókyrrðina af því að hann tapaði öðru auga sínu í átökum við skepnuna Kapteinninn er heltekinn af tilhugsuninni um hefnd. Hann er ekki tilbúinn að endurskoða söguna og hefðir þeirra líkt og Jacob og Maisie gera. Það tekur Jacob þó aðeins lengri tíma að viðurkenna að skrímslin séu ekki hættuleg en þetta er hrífandi dæmi um það þegar yngri kynslóðir leiða þær eldri áfram.

Í gegnum tíðina hefur það reynst mjög erfitt að láta vatn líta vel út í teiknimyndum. Sjávarskrímslið sýnir okkur hversu langt miðillinn er kominn. Hafið í myndinni er mjög raunverulegt og atriðin sem gerast undir vatninu eru einstaklega flott. Hins vegar er skrímslahönnunin svolítið einföld, sérstaklega í samanburði við kvikmyndaseríuna Að temja drekann sinn.

Sjávarskrímslið er ekki gallalaus, það er margt í söguþræðinum sem hefði mátt fara betur. Í byrjun fáum við t.d. mjög stutta kynningu á Maisie í munaðarleysingjahælinu en langa kynningu á skrímslaveiðimönnunum. Allt of mikil áhersla er t.d. lögð á Kaptein Gal. Það hefði verið mun sniðugra að gefa baksögu Maisie meira tíma enda er hún ein af aðalkarakterunum. Út frá byrjuninni mætti halda að myndin fjalli um hefnd kapteinsins gegn Rauðu. Ég vissi að það gat ekki verið, árið er 2022, það er einfaldlega ekki í tísku að drepa dýr jafnvel þótt þau séu talin stórhættuleg.

Williams skilur einnig eftir lausan enda í myndinni. Í einu atriði biður kapteinninn norn um aðstoð við að drepa Rauðu. Þetta gerir hann gegn vilja þeirra sem eru um borð og því er komið skýrt til skila að þetta eigi eftir að kosta hann allt. Það virðist samt ekkert koma fyrir hann nema það að hann þarf að sætta sig við breyttar aðstæður en varla getur það verið bölvunin. Atriðið virðist bara hafa verið uppfyllingarefni.

Á heildina litið er Sjávarskrímslið mjög skemmtileg teiknimynd fyrir allan aldur og skref í rétta átt hjá Netflix. Hún minnir mig á eldri teiknimyndir eins og The Prince of Egypt (1998) og Sinbad: Legend of the Seven Seas (2003). Samræður persónanna eru ekki barnalegar og áfengisdrykkja er sýnileg. Kvikmyndin vinnur þar af leiðandi nostalgíustig hjá eldri áhorfendum. Það verður áhugavert að sjá hvort Netflix ákveður að gera fleiri teiknimyndir eins og þessar og hvort gerð verði framhaldsmynd. Mér finnst galli að það er hvorki komin íslensk talsetning né íslenskur texti með myndinni og kalla eftir því að það verði gert.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir