Helgu Gunnarsdóttur finnst mikilvægt að hugsa vel um húðina.
Helgu Gunnarsdóttur finnst mikilvægt að hugsa vel um húðina. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Gunnarsdóttir, hársnyrtimeistari og þjálfari, hefur lagt það í vana sinn að huga vel að líkama og sál. Hún stundar líkamsrækt að staðaldri og fer á fætur klukkan sex alla virka morgna. Ásthildur Hannesdóttir asthildur@mbl.is

Sjálfsagi er sjálfsást,“ segir Helga. „Ég stend með mér og mínum gildum og hugsa að jafnaði vel um líkama og sál. Þegar maður fer út í daginn svona snemma á morgnana þá er maður svo tilbúinn og fullur af orku til þess að takast á við hversdagsleg verkefni,“ segir Helga jafnframt.

Helga er mikill snyrtipinni og segist eiga stútfulla snyrtibuddu af alls kyns snyrtivörum. Vörurnar frá Nu Skin hafa verið að gera gott mót að mati Helgu en þær notar hún mikið.

„Ég er snyrtivörufrík. Það er margt að finna í snyrtitöskunni minni,“ segir Helga og hlær. „Estée Lauder Double Wear er minn uppáhaldsfarði, Sensai-púðrið og sólarpúðursperlurnar frá Nu Skin eru alger snilld. Sennilega er langmest notaða snyrtivaran mín Lip Plumping-varasalvinn frá Nu Skin. Ég er alltaf með einn svoleiðis í hverjum jakka,“ segir hún en augnblýantar og eyelinerar frá Loréal eru líka í uppáhaldi hjá Helgu.

Helga notar farða á hverjum degi en hún segist ekki vera mjög lengi að gera sig til inn í daginn en það taki hana örlítið lengri tíma að græja sig þegar hún fer út á lífið.

„Dagsdaglega set ég annaðhvort á mig CC-krem eða meik og hyljara. Smá sólarpúður, lit í augabrúnir og augnblýant. Stundum skelli ég á mig highlighter og kinnalit ef ég er í þannig gír,“ segir Helga og leggur mat á að daglega sé hún í um það bil 15-30 mínútur að gera sig til inn í daginn.

„Meira að segja þegar ég þarf að þurrka á mér faxið líka,“ segir hárgreiðslukonan sem kann vel til verka þegar hárið en annars vegar. „Þegar ég fer eitthvað út þá tekur það aðeins lengri tíma því þá bætir maður aðeins í. Setur augnskugga og eyeliner, kinnalit og alles,“ segir hún.

Augnháralengingar hafa gert Helgu auðveldara fyrir þegar kemur að útlitinu en hún hefur verið með slíkar lengingar meira og minna í heil fjögur ár.

„Augnháralengingar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er búin að vera með þannig síðan 2018 með stuttri Covid-pásu. Maður er svo fljótur að græja sig með þessar lengingar.“

Lumispa algert lykilatriði

Helgu finnst mikilvægt að hugsa vel um húðina og tekur hún húðumhirðuna mjög alvarlega. Hún segir góða húðumhirðu einskorðast við góðar venjur hvers og eins og að hún geti verið samspil margra þátta.

„Næring, hreyfing, nuddrúllur, vítamín, vatnsdrykkja og margt fleira getur haft góð áhrif á húðina. Þetta spilar allt saman. Húðin er okkar stærsta líffæri og við þurfum að hugsa vel um hana. Það er margt hægt að gera til að hugsa vel um húðina. Til dæmis eins og að hreinsa hana vel, sofa aldrei með makeup, nota sólarvarnir og gefa húðinni góðan raka á hverjum degi. Svo getur verið gott að taka inn vítamín og drekka nóg vatn,“ útskýrir Helga sem hefur vanið sig á þetta allt saman sjálf.

„Uppáhaldsgræjan mín fyrir andlitið er Lumispa. Þetta er snilldargræja sem sér til þess að ég hreinsa húðina kvölds og morgna. Svo er ekki verra að Lumispa örvar meðal annars endurnýjun húðarinnar, dregur úr sýnileika á húðholum og fínum línum. Ég bæði finn og sé mikinn mun á mér síðan ég fór að nota hana en það eru komin tvö ár síðan,“ segir Helga. „Stundum gefur maður sér ekki tíma fyrir Lumi en þá nota ég Micellar-andlitsvatn frá Nu Skin, gott serum og dagkrem með sólarvörn í og eða næturkrem,“ bætir hún við og brýnir fyrir öllum að muna eftir því að næra húðina á hálsinum líka en það svæði vill oft gleymast.

Hvernig „look“ eru að þínu mati í tísku um þessar mundir?

„Mér finnst nude-litir svolítið inn. Svona förðun sem lítur út fyrir að vera ekki förðun með kinnalit og léttu meiki og smá ljóma. Kannski alveg sterkir varalitir líka,“ segir Helga sem er ansi hrædd um að dagar breiðu, uppgreiddu augabrúnanna séu taldir.

„Ég held að uppgreiddar augabrúnir séu að verða búnar. Eða kannski er það alveg ennþá inn,“ segir hún og minnist þeirra daga þegar ofplokkaðar augabrúnir voru aðalmálið.

„Ég var með alltof mjóar augabrúnir þarna um árið,“ segir Helga og hlær.

Brúnkuslysin gerast enn

Helga segist óhrædd við að nota brúnkukrem. Enda sé varla annað hægt en að nota brúnkuvörur yfir myrkustu mánuðina á Íslandinu góða. Helga segist helst nota brúnkukrem og froður frá Bondie Sands eða Marc Inbane. Þau merki hafa gefið góða raun hingað til.

„Mér tókst gleyma að bera brúnkukrem á vinstri fótinn á mér fyrir ekki svo löngu,“ segir Helga og hlær vandræðalega. „Ég fattaði það ekki fyrr en ég krosslagði fætur í sófanum daginn eftir og var bara eins og Homeblest,“ segir hún og hlær dátt yfir hrakförum sínum með brúnkukremið. „Stundum er maður alveg utan við sig,“ segir hún.

„Ég er ekki óvön að nota brúnkukrem eða froður og nota svoleiðis árið um kring. Marc Inbane- og Bondie Sands-brúnkuvörurnar eru í algjöru uppáhaldi hjá mér.“

Hvaða snyrtivöru verður þú að eiga og kaupir alltaf aftur og aftur?

„Meikið frá Estée Lauder. Ég verð alltaf að eiga góðan farða og þetta meik er mitt uppáhald. Ég gæti ekki lifað án Lip Plumping-varasalvans frá Nu Skin og Sensai-púðrið hef ég keypt aftur og aftur í mörg ár,“ segir Helga að lokum.