Rússar kunna að hreykja sér, en þeir bjuggu vandann til

Stríðið í Úkraínu er orðið hluti af hversdeginum. Eftir að Vladimír Pútín, forseta Rússlands, mistókst það ætlunarverk sitt að ráðast inn í Kænugarð og ákvað að einbeita sér að Dónetsk og Lúhansk hefur víglínan lítið færst þótt átökin hafi verið hörð.

Í gær var undirritað samkomulag, sem á að tryggja útflutning á korni til að koma í veg fyrir matarkreppu í heiminum. Samkomulagið undirrituðu fulltrúar Rússa og Úkraínumanna í veglegri höll í Istanbúl með útsýni yfir Bosporus-sund að viðstöddum António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, á meðan Rússar létu sprengjunum rigna í Donbass.

Hin frjósömu landbúnaðarhéruð Úkraínu skipta miklu máli í kornframleiðslu í heiminum. Með því að loka á úkraínskar hafnir og koma í veg fyrir útflutning á korni hafa Rússar valdið miklum usla. Hækkun á kornverði skiptir ef til vill ekki sköpum á Vesturlöndum en þar sem fátækt er mikil getur hún skilið á milli feigs og ófeigs.

Rússar hafa verið sakaðir um að nota mat sem vopn í stríðinu og hefur reynst erfitt að finna lausn á því hvernig opna mætti fyrir útflutning að nýju.

Svo virtist sem samningar myndu renna út í sandinn fyrr í vikunni þegar Pútín tilkynnti að hann gerði ráð fyrir að samningurinn næði einnig til rússnesks korns. Bandaríkjamenn höfðu fyrir rúmri viku tilkynnt að viðskiptaþvinganir næðu ekki til rússnesks áburðar og landbúnaðarafurða og á miðvikudag gerði Evrópusambandið einnig undanþágu fyrir rússneskt hveiti og áburð.

Samkomulagið gildir í 120 daga og hægt er að endurnýja það sjálfkrafa án frekari samninga. Hins vegar er talið að 120 dagar dugi til þess að flytja út 25 milljónir tonna af hveiti og öðrum korntegundum, sem hlaðist hafa upp í úkraínskum höfnum.

Í gær var einnig undirritað sérstakt samkomulag í Istanbúl milli Rússlands og Sameinuðu þjóðanna um að refsiaðgerðir mættu ekki ná til áburðar og korns með beinum eða óbeinum hætti.

Rússar munu án vafa segja að samkomulagið beri vitni göfuglyndi þeirra og sýni að þeir séu góðir og gegnir þegnar í samfélagi þjóðanna. Þeir hafi lagt sitt af mörkum til að afstýra neyðarástandi í heiminum.

Það verður hins vegar að hafa hugfast að vandamálið var alfarið Rússum að kenna og bein afleiðing hrottalegrar innrásar þeirra í Úkraínu.

Þegar Rússar réðust inn í landið létu ráðamenn á Vesturlöndum eins og þeir myndu snúa bökum saman um að einangra Rússland á alþjóðavettvangi. Refsiaðgerðirnar sem gripið var til voru vissulega harðari en þegar Rússar lögðu undir sig Krímskaga og kyntu undir uppreisn í Dónetsk og Lúhansk 2014, en þær hafa alls ekki verið jafn afgerandi og látið var í veðri vaka.

Þar er helsti veikleikinn hversu háð Vestur-Evrópa er rússneskri orku. Það á sérstaklega við um Þjóðverja, sem á undanförnum áratugum hafa markvisst komið sér í þá stöðu að þeir geta ekki án Rússa verið í orkumálum og töldu að með því væru þeir að gera Rússa háða sér.

Fyrir vikið hafa peningar fyrir gas og olíu haldið áfram að flæða í hirslur Rússa og auðveldað þeim stríðsreksturinn. Evrópusambandslöndin hafa kynnt áætlanir um að draga jafnt og þétt úr kaupum á rússneskri orku þar til þau hætti að verða háð Rússum í orkumálum, en sá refsivöndur hefur engin áhrif nú. Þvert á móti eru Rússar nú farnir að nota orkuna til að hafa í hótunum. Fyrr í mánuðinum var leiðslunni, sem flytur gas frá Rússlandi til Þýskalands, lokað vegna viðgerða. Viðgerðunum er lokið, en mun minna gas streymir nú í gegnum leiðsluna en áður.

Í Þýskalandi er nú mikið uppnám út af þessu og sjá menn fyrir sér að loki Rússar fyrir gasið gæti haustið orðið kalt þar í landi.

Taflið hefur því snúist við. Rússum stafar ekki ógn af því að hætt verði að kaupa af þeim orku, heldur nota þeir hótunina um að skrúfa fyrir orkuna til þess að ógna kaupendum hennar. Pútín hlýtur að vera skemmt.

Í sunnudagsblaðinu, sem fylgir Morgunblaðinu í dag er grein eftir rússneska fræðimanninn Sergei Medvedev sem ber fyrirsögnina Sölumenn óttans. Medvedev segir að á okkar tímum skorti Rússland „burði til að smíða nýjan heim en er nógu hættulegt og tengt inn í heimskerfin til að eyðileggja gamla heiminn og ógna honum með hörmungum, óstöðugleika, nýjum stríðum og kjarnorkuhamförum“. Hann bætir við: „Rússland hefur umturnast úr hrávörubirgi í hryðjuverka- og glæparíki. Þótt farið yrði að „skilyrðum Pútíns“ breytti það engu, hungur Kremlverja mundi aðeins aukast við það og verða hvati enn frekari útflutnings á upplausn, ótta og ofbeldi.“

Samningarnir, sem undirritaðir voru í gær, eru ekki til marks um kúvendingu í Kreml. Markmið Pútíns hafa ekki breyst. Við undirritunina í gær skrifuðu Sergei Sjoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, og Oleksandr Kúbrakov, innviðaráðherra Úkraínu, undir sitt plaggið hvor með sama orðalaginu. Úkraínskir embættismenn sögðu að þeir vildu ekki skrifa nafn sitt á sama blað og Rússarnir. Lái þeim hver sem vill.