Hlutdeild manngerðra miðlunarlóna í orkuforða
Hlutdeild manngerðra miðlunarlóna í orkuforða
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinar Ingimar Halldórsson: "Þrýstingur til hækkunar orkuverðs er að byggjast upp."

Miðlunarlón eru ómissandi hluti raforkukerfa sem reiða sig á orku fallvatnanna. Þau fanga regnvatn, snjóbráð og jökulvatn sem annars streymir að stórum hluta fram hjá virkjunum. Á veturna og vorin þegar árrennsli er með minnsta móti er hleypt úr lónum eftir þörfum. Orkuforði lóna verður að vera í samræmi við eftirspurn eftir miðlunarvatni til að raforkuverð sé hagfellt heimilum og fyrirtækjum. Því miður eru teikn á lofti um að raforkuverð komi til með að hækka í framtíðinni því að ólíklegt er að orkuforði lóna haldi í við aukna raforkunotkun.

Hér á landi hafa verið gerðar fjórar langtíma vatnsmiðlanir: Þórisvatn, Hágöngulón, Blöndulón og Hálslón. Einnig eru til taks þrjár skammtíma miðlanir: Sultartangalón, Krókslón og Kelduárlón. Önnur manngerð lón á Íslandi hafa takmarkað geymslupláss og flest nýtast aðeins sem dægurmiðlun.

Árið 2019 framleiddu vatnsorkuverin um 13,5 TWh (Orkustofnun, 2020a). Orkuinnihald lóna er um 40% af framleiðslunni. Þegar litið er til framtíðar þá mun hlutfallið lækka smá saman. Fyrir því eru tvær ástæður. Annars vegar má fastlega búast við því að vatnsorkuframleiðsla haldi áfram að vaxa til að mæta aukinni eftirspurn eftir rafmagni. En uppistöðulón nýrra vatnsaflsvirkjana verða flest smá og bæta litlu við heildarforðann, í besta falli nokkur hundruð GWh. Í rammaáætlun er aðallega um að ræða Skatastaðavirkjun (26 km2, 446 GWh) og Hvalárvirkjun (13 km2, 113 GWh). Aðrir virkjunarkostir í nýsamþykktri rammaáætlun hafa ívið minni miðlunarforða.

Hins vegar munu lónin sem raforkukerfið reiðir sig á minnka með tímanum vegna árframburðar sem botnfellur í þeim. Orkuforði lónanna rýrnar ekki ýkja hratt en rýrnunin hjálpar ekki á meðan orkuþörf fer vaxandi. Spáð er að orkuþörf almennra notenda aukist um 3-5 TWh næstu 40 árin vegna almenns hagvaxtar (Orkustofnun, 2020b).

Ef viðbótareftirspurn eftir miðlunarvatni verður ekki mætt með nýjum miðlunum getur aðeins eitt gerst: Raforkuverð hækkar. Þrýstingur til hækkunar orkuverðs er að byggjast upp. Aukin almenn notkun, orkuskipti og nýting vindorku kalla á stærri raforkugeymslu í kerfinu og meiri sveigjanleika í orkuvinnslu. Til að afstýra framtíðarverðhækkunum þarf að leita nýrra leiða til að viðhalda og stækka raforkugeyminn.

Nýjar lausnir verða að vera hagkvæmar. Hækkun á rafmagnsverði vegna hækkandi geymslukostnaðar er varla skárri niðurstaða fyrir heimili og almennan atvinnurekstur en verðhækkanir á okkar hreina eldsneyti þegar samkeppni um miðlunarvatn harðnar á milli raforkunotenda.

Heimildir:

Landsvirkjun, 2022. Upplýsingar á

https://www.landsvirkjun.is/aflstodvar

Orkustofnun, 2020a. Uppsett rafafl og raforkuframleiðsla í virkjunum á Íslandi 2019. OS-2020-T012-01.

Orkustofnun, 2020b. Raforkuspá 2020 – 2060. Orkuspárnefnd. OS-2020-05.

Skúli Jóhannsson, 2021. Um grein forstjóra Landsvirkjunar. Grein birt í Morgunblaðinu 23.12.2021.

Höfundur er verkfræðingur, sjálfstætt starfandi.