Jón Brúnó Ingvarsson, bóndi og verktaki, Markaskarði, Rangárþingi eystra, fæddist í Varmadal á Rangárvöllum 10. september 1961. Hann varð bráðkvaddur í Reykjavík 10. júlí 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Ingvar P. Þorsteinsson, f. 20. mars 1929 og Vigdís Óskarsdóttir, f. 7. september 1930, d. 31. maí 1980, bændur í Markaskarði í Rangárþingi eystra. Systkini: Óskar Sveinbjörn, f. 1954, d. 2001, Guðrún Sigríður, f. 1955, Guðbjörn Svavar, f. 1956, Þorsteinn, f. 1959 og Guðlaug Hallfríður, f. 1963.

Eiginkona Jóns var Guðrún Ósk Jóhannsdóttir, bóndi og handverkskona, f. 20. mars 1967, d. 26. apríl 2016. Þau gengu í hjónaband 11. apríl 2016. Börn þeirra eru: 1) Oddur Helgi, f. 27. nóvember 1987. 2) Katrín Ósk, f. 13. apríl 1990, í sambúð með Sigurjóni Þór Davíðssyni, f. 1. október 1995. 3) Svanhildur Marta, f. 10. september 1996. Kærasta Jóns síðustu ár var Yvonne Vive Erina Henchel Madsen, f. 17. júlí 1967, listamaður, búsett í Reykjavík.

Jón Brúnó ólst upp fyrstu árin á Litlu-Strönd á Rangárvöllum, þangað til foreldrar hans tóku við búi í Markaskarði árið 1964. Hann gekk í Hvolsskóla og síðar Þingborgarskóla í Hraungerðishreppi. Þegar skólagöngu lauk vann Jón við ýmis störf, í fiskvinnslu í Grindavík, á sláturtíðum á Hellu, Selfossi og Hvolsvelli, í kjötvinnslu og skeifnasmiðju á Hellu og víðar. Hann kynntist eiginkonu sinni sumarið 1984 og hófu þau sambúð á Núpi í Fljótshlíð í ársbyrjun 1985. Bjuggu síðar í Markaskarði en fluttu í Fossöldu 10 á Hellu árið 1987 og bjuggu þar þangað til þau tóku við búskap í Markaskarði vorið 1990. Samhliða búskap vann Jón sem verktaki við rúllubindingu, heysölu og um tíma hjá Búaðföngum.

Útför Jóns Brúnós verður gerð frá Breiðabólstað í Fljótshlíð í dag, 23. júlí 2022, og hefst klukkan 13.

Þeir voru notalegir síðustu fimm dagarnir í lífi Jóns Brúnó föðurbróður míns. Við vorum saman í hestaferð, hann trússari og ég fararstjóri. Við sungum á kvöldin, áttum skemmtileg samtöl og nutum þess að vera úti í náttúrunni. Hann var upp á sitt besta og ekkert sem benti til þess þegar við kvöddumst eftir kvöldmat á laugardegi að hann yrði allur nokkrum klukkutímum síðar. Fregnin um andlát hans að morgni sunnudags var því töluvert áfall.

Í ferðinni var hann mikils metinn af þeim erlendu ferðamönnum sem við vorum að þjónusta. Hann talaði við þær á íslensku og gerði sig ótrúlega skiljanlegan. Þar komu mannkostir hans ágætlega í ljós. Alltaf tilbúinn að aðstoða og tungumálaþekking ekki hindrun í samskiptum.

Við Jón vorum nánir frændur og höfum átt mikil samskipti allt mitt líf. Síðustu áratugina voru samskiptin oft í hverri viku. Jón var frændrækinn og greiðvikinn og því leitaði ég oft til hans og hann til mín með ýmislegt og þar sem Jón var algjör B-týpa var aldrei vandamál þó maður hringdi seint að kvöldi, enda líklegra að ná í hann í kringum miðnættið en fyrir hádegi.

Minningarnar hrannast upp í gegnum áratugina. Ferðalög, fjölskylduhittingar, smalamennskur, fjárrag, sláturstúss, girðingavinna, heyskapur, spjall yfir kaffisopa, húmor og hlátur.

Jón var mikill matmaður og borðaði mikið. Rabarbarasulta var í sérstöku uppáhaldi og hann er líklega eini maðurinn sem ég hef þekkt sem notaði rabararbarasultu með hrossabjúgum og öðrum reyktum mat. Þegar hann bað um sultu með fiski gat ég þó illa setið á mér.

Jón sá oft spaugilegu hliðarnar og var hláturmildur. Hann var góð sál og lagði oft þeim sem stóðu höllum fæti lið. Hann hafði skoðanir, en tók rökum þegar þær fóru ekki alltaf saman hjá okkur frændum og alltaf fundum við lausn.

Ég man enn þegar Jón kom með Guðrúnu heim í Arabæjarhjáleigu. Þá var ég fimm ára. Jón og Guðrún reyndust okkur systkinunum afar vel og það fór aldrei á milli mála að þeim þótti vænt um okkur og okkar fólk.

Það var sérstaklega gleðilegt þegar þau ákváðu að koma til Oxford á Bretlandi í giftingu okkar hjóna sumarið 2013. Þar naut hann sín vel og upplifði ákveðið ævintýri. Sérlega minnisstætt er hvernig Jóni tókst að fá allt sem hann bað um þó hann talaði enga ensku.

Ótímabært andlát Guðrúnar tók eðlilega mikið á Jón og næstu árin á eftir voru honum erfið andlega. Hann ákvað að hætta með kýrnar, fjölgaði fénu á móti til að nýta landið og fór að selja hey. Á tímabili hafði maður töluverðar áhyggjur af heilsu hans en það var afar gleðilegt þegar við fréttum að hann væri kominn með kærustu og augljóst að honum leið betur.

Nú hafa börnin misst báða foreldra sína allt of snemma. Það er sárt. Ég þakka Jóni frændsemi, vinskap og samfylgd í gegnum lífið, votta börnum hans, Vive og afa sem misst hafa mikið sem og öðrum ástvinum innilega samúð. Þegar við kvöddumst nokkrum klukkustundum áður en hann lést sagði hann: „Takk fyrir vikuna.“ Nú við leiðarlok segi ég: „Hafðu þökk fyrir allt og allt.“ Blessuð sé minning Jóns Brúnó föðurbróður míns.

Ingvar P. Guðbjörnsson.

Þann 10. júlí fékk ég þær fréttir að Jón Brúnó væri farinn yfir móðuna miklu. Tíminn stóð í stað og hugsanir tóku völdin. Gat það bara verið að þau væru bæði kominn þangað hjónin Jón og Gunna? Eftir sitja systkinin þrjú Oddur, Kata og Svana. Allt er þetta svo óraunhæft.

Í huga mínum sit ég við eldhúsborðið í Markaskarði og heyri hláturinn í Jóni. Kaffi? Viltu ekki meira? Og allar þær pælingar sem voru ræddar þar. Við eldhúsborðið varð maður vitni að því að það var sama hver var þar þá gaf hann sér tíma til þess að spjalla og spyrja frétta, hvort sem um var að ræða gamlan mann eða barn. Þeir sem sátu við borðið fengu spjall, hlátur Jóns og sögur frá ýmsum tímum ævi hans.

Við Jón náðum alltaf vel saman og er ég þakklátur fyrir allar þær minningar sem við bjuggum til. Hann var hrekkjóttur og hafði gaman af því þegar ég sagði honum frá einhverjum hrekkjum sem ég hafði gert og hló oft þannig að tárin streymdu. Þegar ég hugsa til Jóns er mér hlátur efst í huga og allskonar fíflaskapur.

Í eina skiptið sem ég fór inn Jökulgil þá var Jón við stýrið. Oft hugsa ég til þeirrar ferðar, félagsskaparins og hversu flott náttúran var. Þegar við fórum til Oxford sagði hann okkur frá skemmtilegu atviki sem oft var minnst á og hlegið að. Guðrún fór í gönguferð og Jón var eftir inni í herbergi. Þar sem heitt var í veðri var ekki þörf á ábreiðu og Jón lá þar fáklæddur þegar herbergisþernan kom og áttar sig að þarna liggur hálfnakinn maður. Henni bregður við og segir: „Ó Guð.“ Við það segir Jón: „Nei, þetta er bara ég, Jón.“ Svo skellihló hann þegar hann sagði söguna. Alltaf þegar Jón var með þá var aldrei langt í hlátur.

Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa ef hann gat og tilbúinn að gera manni greiða. Að sama skapi reyndi ég alltaf að koma og hjálpa ef ég gat. Þegar Guðrún lá á spítala og ég og pabbi tókum að okkur fjósið svo fjölskyldan gæti verið saman var Jón var svo þakklátur og sýndi það svo augljóslega.

Honum fannst gaman að segja mér og krökkunum mínum frá því þegar hann passaði mig sem lítinn dreng sem fann upp á ýmsum hlutum. Eitt skipti þegar hann hélt mér í fanginu sagði hann: „Nú geturðu ekkert“ og litli snáðinn í fangi frænda sagði „jæja“ og lét höfuðin mætast af fullum þunga. Við það sleppir Jón, enda fékk hann góðan skell í andlitið. Þessa sögu fékk ég að heyra oft og hafði hann gaman af því að segja hana. Svo fylgdi hlátur í kjölfarið. Einnig fylgdu margar fleiri sögur af því þegar hann var að passa mig eða kýtast í mér og hafði alltaf jafn gaman að.

Ég þakka Jóni fyrir allt og allar þær minningar sem við áttum saman. Ég mun sakna hláturs hans og vináttu. Það verður skrýtið að sitja við eldhúsborðið og hann ekki þar. Eða að taka þátt í öllu sem við vorum svo oft saman í. Tíminn mun halda áfram og tár mín munu þorna með tíð og tíma, en minningarnar verða alltaf til staðar og hugsa ég til þeirra hjóna með þakklæti í huga. Hugur minn er hjá þeim sem eftir sitja við borðið og votta ég Oddi Helga, Katrínu Ósk, Svanhildi Mörtu og Ingvari afa mína innilegustu samúð.

Sigurður Kristinn og fjölskylda.

Lífið er hverfult og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Það sannaðist þann 10. júlí þegar við vöknum við þær fréttir að Jón Brúnó föðurbróðir minn hefði orðið bráðkvaddur þá um nóttina. Fregnin sló mann eins og þruma úr heiðskíru loft því enginn átti von á því að hann væri næstur til að kveðja þessa jarðvist. Minningarnar um góðan, greiðvikinn, skemmtilegan og stríðinn frænda standa eftir og ylja manni um ókomna tíð. Ég sóttist mikið í að vera hjá þeim Gunnu á uppvaxtarárunum og leið vel í sveitinni því ég fann mig alltaf velkomna. Mér þótti gaman að fá að gista og hjálpa til í sveitinni. Við fjölskyldan komum líka oft til þeirra eftir að ég flutti í bæinn. Þau voru mér sem mín önnur fjölskylda og munu vera alla tíð.

Ég á margar góðar minningar um sveitaveruna hjá Nonna og Gunnu. Fram streyma minningar af samræðum, ferðalögum, réttarferðum, hestaferðum og allskyns sveitastússi. Nonni var með eindæmum stríðinn og má heyra í minningunum hlátur hans þegar hann hafði náð að stríða manni. Hann sá alltaf spaugilegu hliðarnar á hlutunum og var hispurslaus í tali. Nonni var í raun C-týpa og gat það verið ærið verkefni að vekja hann á morgnana en maður fékk líka oft að vaka fram eftir í sveitinni. Nonni var gestrisinn og var alltaf gaman að koma með vini ríðandi að Markaskarði. Alltaf var sjálfsagt mál að fá næturbeit fyrir hestana og alltaf biðu hópsins veitingar þegar riðið var í hlað. Nonni kom líka nokkrum sinnum með okkur í hestaferð sem trúss og fór það hlutverk vel úr hendi. Nonni reyndist þeim sem stóðu höllum fæti í samfélaginu vel og sést það vel á því að mörg þeirra barna sem komu í sveit til þeirra héldu sambandi við þau fram á fullorðinsár.

Nonni átti stóran þátt í því að litla ég héldi áfram í trúna um þá rauðklæddu þegar ég var um 5 ára. Þá mætti hann í rauðum fötum, með hvítt hár og mikið skegg í dyragættinni heima. Ég tók eftir að stígvélin sem Sveinki var í líktust pabbastígvélum og taldi mig vita að þarna væri pabbi á ferð en þá kom pabbi fram í hurð og þar með hélt ég áfram í trúna í nokkur ár í viðbót.

Þegar Gunna veiktist opnuðum við Kristján heimili okkar fyrir Nonna og börnum þeirra og gerðum allt sem hægt var til að styðja við fjölskylduna. Þótti mér afar vænt um og mikill heiður þegar Nonni bað mig að vera svaramaður sinn þegar er hann og Gunna gengu í hjónaband á sjúkrabeði Gunnu. Þeirri fallegu stund mun ég aldrei gleyma og alltaf geyma í hjarta mínu. Fráfall Gunnu tók mikið á Nonna enda missirinn mikill. Það var því gleðifrétt þegar Nonni kynntist Vive fyrir um ári síðan. Aftur jókst gleðin í augum hans og sást að hann hefði fundið hamingjuna á ný.

Takk fyrir samfylgdina elsku Nonni. Núna ertu kominn til Gunnu þinnar, ömmu Vigdísar, Óskars frænda og án efa búinn að dusta rykið af hnakknum og ríður um grundir sumarlandsins á Þengli þínum. Við vottum Oddi, Kötu, Svönu, Vive, afa og öðrum ástvinum dýpstu samúðar. Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku frændi.

Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir og fjölskylda.