Björn Birkisson fæddist 6. júlí 1956 í Botni í Súgandafirði. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði 18. júlí 2022.

Foreldrar hans voru Birkir Friðbertsson, f. 10. maí 1936, d. 5. júní 2017 og Guðrún Fanný Björnsdóttir, f. 16. júlí 1936, bændur í Birkihlíð í Súgandafirði.

Björn var elstur sex systkina. Systkini Björns eru Hörður, f. 16. ágúst 1958, Fjóla, f. 21. apríl 1960, Lilja, f. 31. júlí 1962, Björk, f. 6. apríl 1968 og Svavar, f. 18. september 1972.

Björn giftist Helgu Guðnýju Kristjánsdóttur 16. júlí 1983 í Kotstrandarkirkju, hvar þau nýttu ferðina til þess að skíra elstu dóttur sína, enda Björn með fádæmum nýtinn maður. Börn þeirra eru:

Fanný Margrét, f. 6. júní 1983, hennar maki Eiríkur Gísli Johansson, f. 20. júní 1983. Þeirra börn eru Guðrún María, f. 21. ágúst 2012 og Margrét Obba, f. 27. nóvember 2016.

Sindri Gunnar, f. 2. apríl 1987, sambýliskona hans er Linda Ólafsdóttir, f. 5. janúar 1993. Hann á úr fyrra sambandi Sigurbjörgu Ólöfu, f. 26. júlí 2012, Rakel Ósk, f. 16. janúar 2014 og Ágúst Frey, f. 23. ágúst 2017.

Aldís Þórunn, f. 23. febrúar 1993, hennar maki er Geir Gíslason, f. 18. október 1988. Þeirra sonur er Hermann Gísli, f. 17. febrúar 2021.

Hólmfríður María, f. 26. október 1995. Hennar maki Stefán Ingvar Vigfússon, f. 20. maí 1993. Þeirra köttur Lísa, f. 2022.

Björn á úr fyrra sambandi Kristjönu Guðrúnu, f. 19. ágúst 1980, móðir hennar Sigurrós Júlíusdóttir, f. 4. september 1958.

Útför Björns fer fram frá Kotstrandarkirkju í dag, 23. júlí 2022, klukkan 14.

Fyrstu árin bjó Björn með fjölskyldu sinni í Botni hjá föðurömmu sinni og afa. Hann sýndi búskapnum strax á unga aldri mikinn áhuga og sinnti honum gjarnan í stað þess að taka þátt í leik með öðrum börnum. Á fullorðinsárum tók hann við búskapnum af afa sínum og var í félagsbúi með föður sínum og síðar yngsta bróður sínum það sem eftir lifði.

Björn var ætíð námfús, nákvæmur, talnaglöggur og vinnusamur. Fyrstu árin var hann í heimakennslu en 10 ára flytur hann til Systu, föðursystur sinnar, og Hadda til þess að sækja grunnskóla. Næst fór hann á heimavist á Holti og eignaðist þar vini til æviloka. Næst sótti hann skóla í Reykholti og þaðan á Hvanneyri, þar lauk hann fyrst búfræðideild og seinna búvísindadeild.

Eftir útskrift tók hann sæti í skólanefnd Bændaskólans á Hvanneyri og sat þar á meðan breytingar urðu á starfi skólans.

Eftir útskrift vann Björn einn vetur hjá saltfiskvinnslunni Suðurvör og eitt ár hjá tengdaföður sínum, Kristjáni Hólm Jónssyni, en árið 1982 sneri hann sér alfarið að búskapnum sem var hans ævistarf.

Þá var Björn iðinn við félagsstörf og sinnti gjarnan ábyrgðarstörfum. Hann var félagi í Lionsklúbbi Súgandafjarðar og Önundarfjarðar, gjaldkeri Staðarsóknar í yfir 30 ár. Þá var hann kraftmikill í hinum ýmsu félögum bænda, sinnti stjórnarstörfum í sauðfjárræktarfélagi, nautgriparæktarfélagi, búnaðarfélagi og var formaður búnaðarsambandsins. Síðustu 12 ár var hann félagi í NÖK, samtökum norræna kúabænda, og ferðaðist með þeim um Norðurlöndin þar sem hann eignaðist góða vini og kunningja.

Björn var tónelskur, lék á harmonikku og söng í flestum þeim kórum sem hann komst í tæri við. Hann ferðaðist víða innanlands og utan með Karlakórnum Erni.

Hann hvatti börn sín einnig til tónlistariðkunar.

Hann hafði dálæti á ljósmyndun og varðveislu myndefnis. Björn var mjög örlátur á þekkingu sína og tíma. Börn hans hafa haft orð á því að í öðrum heimi væri Björn skjalavörður eða sagnfræðingur, hann var með gott skipulag á öllu og átti allt til. „Betra er að eiga en vanta“ minnumst við sem einkunnarorða hans.

Hann hafði einnig mikinn áhuga á umhverfinu og náttúruvernd, eitt af hans helstu verkefnum var landgræðsla, þá einna helst grjóttínsla. Það gladdi hann mjög sjá hvað hann gat bætt umhverfið. Hann hafði oft orð á því eftir að hann veiktist hversu mikið hann saknaði þessara starfa.

Björn var hvers manns hugljúfi og hjálpsamur fram í fingurgóma. Hann setti það ekkert fyrir sig að rjúka út í fárviðri til þess að aðstoða bláókunnugt fólk í bílavandræðum.

Hann var jákvæður, staðfastur en ljúfur, nýtinn og útsjónarsamur Hann þótti mjög góður járnsmiður og lagaði allt sem þurfti á búinu og átti oft varahluti fyrir aðra bændur.

Björn var vinmargur og öll börn sem hann kynntist elskuðu að vera í návist hans. Hann átti einstakt samband við barnabörnin, hafði alltaf tíma fyrir þau og ósjaldan sáust börn sitja með honum í traktornum og hundarnir aldrei langt undan. Hann var alla tíð mikill dýravinur og var velferð dýra mjög hugleikin.

Við þökkum samfylgdina.

Helga Guðný og fjölskylda.

Í dag er kvaddur skólabróðir okkar og vinur, Björn Birkisson, bóndi á Botni í Súgandafirði. Því rifjast upp að haustið 1976 hófu nokkrir ungir menn nám í búvísindadeildinni á Hvanneyri, þar á meðal Björn. Þessi litli hópur var af breytilegum toga og með misjöfn markmið í lífinu, sumir jafnvel enn á þeim stað að láta frekar reka á reiðanum en stefna að einhverju ákveðnu markmiði.

Björn var nokkuð annars eðlis, líklega var hann strax á þessum tíma ráðinn í að gerast bóndi í fyllingu tímans og bjó sig undir það af kostgæfni að taka við búi í Botni, enda var hann ræktunarmaður og hafði mikinn áhuga á búskap, sérstaklega sauðfjárrækt. En ekki aðeins vissi hann betur en við hinir hvað hann vildi heldur var hann öfugt við okkur hina reglusamur og vanafastur, aldrei þó fanatískur og varð okkur hinum því hinn allra besti félagi, og að því leyti öðrum nytsamari að ævinlega var hann í standi til að keyra. Minnisstæður er líka blái Amasoninn hans, sem fór að vetrarlagi allar vestfirsku heiðarnar eins og ekkert væri, sama hvernig viðraði. Björn var músíkalskur og söngmaður góður, söng með öllum þeim hópum sem við varð komið. Og allsgáður gat hann ærslast ekki síður en aðrir, á góðum stundum átti hann til að hafa á sér endaskipti og ganga eða dansa á höndunum, og hrundi þá gjarnan smámynt og annað góss úr vösum hans. Þetta gátum við hinir ekki leikið eftir.

Björn var glaðvær, skoðanafastur og greiðvikinn. Hann hafði mikinn áhuga á vélum og tækni, ekki síst vélum til að tína grjót, sem von var miðað við ræktunarskilyrði í Botni.

Eftir Hvanneyrardvöl okkar tvístraðist hópurinn, Birni dvaldist þó nokkru lengur þar sem starfsmaður Bútæknideildar, nægilega lengi til að kynnast ungri konu úr Ölfusinu, Helgu Guðnýju Kristjánsdóttur. Varð úr að þau rugluðu saman reytum sínum og stóð Helga þétt við hlið manns sín alla tíð síðan. Þau gengu fljótlega inn í búskapinn heima í Botni, fyrst með foreldrum Björns og síðan bróður. Þar bjuggu þau með sínar ær og kýr, rafmagnsframleiðslu og ýmislegt fleira. Þá varð vík milli okkar skólabræðranna en aldrei rofnaði þó sambandið. Í vetur fregnuðum við að fundist hefði meinsemd í höfði Björns. Við tók stutt en snörp barátta sem því miður endaði illa.

Ljúft er að trúa því að nú erji Björn ódáinsakra í annarri tilveru, noti þar himneska grjóttínsluvél, sé í þeim nokkurn stein að finna, syngi með vinum sínum þegar næði gefst ellegar æfi sig á harmónikkuna, og í fyllingu tímans aki hann á Amasoninum til móts við Helgu sína.

Helgu Guðnýju og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Benedikt Björgvinsson, Halldór Gíslason,

Jón Gíslason,

Ólafur Jóhannesson,

Sigurður Árnason,

Sigurður O. Ragnarsson, Þórarinn Sólmundarson.

Hinn 1. ágúst 1937 vígði herra Jón Helgason, biskup Íslands, nýbyggða kirkju á Suðureyri við Súgandafjörð. Síra Jóhannes Pálmason tók þar við prestsskap fimm árum síðar. Síra Jóhannes, sem las hljóð af blaði og kunni að spila á orgel, hóf þá þegar að æfa kirkjukórinn, auk þess sem hann stjórnaði karlakór. Öðlingurinn Sturla Jónsson hreppstjóri á Suðureyri var 43 ára, þegar hann keypti sér orgelharmoníum og tók að læra á það til þess að geta leikið undir sálmasönginn við guðsþjónustur og aðrar athafnir í kirkjunni.

Mannlíf í Súgandafirði hefur löngum verið fagurt. Súgfirðingar hafa löngum verið kirkjuræknir og unnað kirkjum sínum, bæði úti á Stað í Staðardal og á Suðureyri. Guð blessi ávallt byggðina við fjörðinn.

Mörgum árum eftir að síra Jóhannes lét af embætti var stofnaður Samkór Vestur-Ísfirðinga með þátttöku Súgfirðinga, Önfirðinga og Dýrfirðinga. Þáverandi prestsfrú í Holti stjórnaði kórnum og hélt hann söngskemmtanir við góðar undirtektir. Potpourri (syrpa) úr óperettum Franz Lehár var meðal þess, sem flutt var. Ungu hjónin í Botni, þau Helga Kristjánsdóttir frá Bakkárholti í Ölfusi og Björn Birkisson búfræðings og bónda Friðbertssonar í Botni og Guðrúnar Fannýjar Björnsdóttur, voru dyggir og raunar ómissandi félagar í þessari söngsveit. Er gott að minnast indælla kynna við hvor tveggju hjónin, þau Birki og Gunnýju og Björn og Helgu.

Sveitungi Björns, Björgvin Þórðarson rafvirkjameistari og tenórsöngvari frá Suðureyri, sonur hjónanna Þórðar Maríassonar og Margrétar Sveinbjarnardóttur, sem bæði sungu í Kirkjukór Suðureyrar í fjöldamörg ár, hafði á hendi hlutverk einsöngvarans í laginu góðkunna úr óperettunni Brosandi land eftir Lehár, „Dein ist mein ganzes Herz!“ Þetta söng Björgvin af mikilli list, enda einhver allra fremsti tenór sem Íslendingar hafa eignast; röddin unaðslega fögur, bæði björt, mjúk og þróttmikil. Góðskáldið á Kirkjubóli í Bjarnardal, Guðmundur Ingi Kristjánsson, þýddi texta þeirra Ludwig Herzer og Fritz Löhner-Beda á íslensku, svolátandi:

„Hjarta mitt hyllir þig

og hvergi má ég vera'án þín.

Svo bliknar jarðarblóm

á blöð þess ef ei sólin skín.

Um þig er lífs míns ljóð,

sem leggur ástin í þína slóð.

seg mér enn: Hvað sýnist þér um mig.

Ó, segðu hátt og skýrt: Ég elska þig.“

Það er mikill sjónarsviptir að Birni Birkissyni, hinum dugandi bónda í Botni í Súgandafirði. Þar var búskapur allur með óvenjulegum myndarbrag. Nutu og margir vegfarendur aðstoðar þeirra feðga, þeir er leið áttu yfir Botnsheiði, þegar snjóþungt var. Allt er það geymt og ekki gleymt.

Með mikilli hjartans þökk og í bæn um blessun Guðs kveðjum við kæran og eftirminnilegan söngfélaga og samferðarmann, Björn Birkisson. Hyggjum við, að hann hefði á sama hátt viljað kveðja og þakka ástríki, umhyggju og hlýju. Megi birta hins himneska ljóss lýsa ástvinum hans alla ókomna daga. Við biðjum Guð um frið yfir legstað hans, og um blessun yfir endurfundi hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi. Við felum Björn Birkisson orði Guðs náðar. Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars, í Jesú nafni.

Gunnar Björnsson

pastor emeritus.