„Rússland hefur umturnast úr hrávörubirgi í hryðjuverka- og glæparíki,“ skrifar Sergei Medvedev.
„Rússland hefur umturnast úr hrávörubirgi í hryðjuverka- og glæparíki,“ skrifar Sergei Medvedev. — AFP/Dmitrí Asarov
Rússneskur stjórnmálafræðingur og stjórnmálaheimspekingur, sem býr nú í útlegð, segir Rússland standa höllum fæti vegna Pútíns sem hafi gert það að sérgrein sinni á alþjóðamörkuðum að verða uppspretta áhættu og ótta. Sergei Medvedev

Þ egar ég kom til Litháen í mars á þessu ári komst ég að nokkru undarlegu: hvorki var lengur unnt að finna salt né eldspýtur í verslunum. Í eina viku varð ég að fá salt að láni hjá nágrönnum mínum; síðan kom það aftur í hillurnar. Alexander Lúkasjenkó var eins og venjulega dapur á svipinn þegar hann sagði með uppgerðarundrun í sjónvarpi að við landamæri Belarús hefðu Litháar sést mynda biðraðir við verslanir. Hann hefði líka gefið fyrirmæli um að fara með aukabirgðir af salti á þessa sölustaði. Joð hefði einnig horfið úr lyfjaverslunum í Litháen vegna þess að menn segðu að nota ætti það gegn geislavirkni, hálftíma fyrir og tveimur dögum síðar.

Apríl var frekar rólegur í Eystrasaltslöndunum en nýtt hræðslukast greip um sig árla morguns 9. maí því að menn héldu að Pútín ætlaði að nota Sigurhátíðina til að boða almennt herútkall í Rússlandi eða til að gera kjarnorkuárás á borgir í Evrópu. Í Ríga í Lettlandi bjuggu menn sig undir ögranir – til þeirra hafði raunar komið fyrir framan minnismerki um sovéska hermenn, þar höfðu báðir aðilar átakanna látið til sín taka: Rússneskumælandi íbúar í landinu breyttu kransalagningunni í pólitíska aðgerð og borgaryfirvöld notuðu jarðýtu til að fjarlægja blómin. Í London, þeirri ágætu borg, virðast menn hafa beint um of athygli að hryllilegum boðskap Dmitrís Kisselevs [rússnesks áróðursmeistara] um Sarmat-flugskeytin og fólk sem ég þekki ákvað í fúlustu alvöru að yfirgefa höfuðborgina og halda til Yorkshire eða Skotlands. Á sama tíma tóku Þjóðverjar mið af stríðinu í Úkraínu og bjuggu sig undir að nota að nýju sprengjuskýli úr síðari heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Í Evrópu og Bandaríkjunum blómstra viðskipti með skotbyrgi vegna áhuga einstaklinga á skýlum – grunnverðið er á bilinu frá 50.000 í eina milljón dollara – það hefur meira en tífaldast.

Vænisýki Evrópumanna og Ameríkana getur á þessu stigi talist brosleg; á hinn bóginn hefur frá upphafi stríðsins í Úkraínu runnið á heiminn meira æði en tvær kynslóðir minnast, hvorki meira né minna: hvorki Íraksstríðið né hernaðarátökin í Júgóslavíu höfðu álíka almenn áhrif. Joe Biden forseti sakar Rússa um að bera ábyrgð á verstu verðbólgu í Bandaríkjunum í 40 ár: „Í maí hefur hækkun á verðlagi sem rekja má til Pútíns skollið hart á þjóð okkar og heiminum öllum: hækkun á eldsneyti á bensínstöðvum og orkuauðlindum auk hækkana á matvælum stendur að baki tæplega helmings mánaðarhækkunar á verði, og gallónverð á bensíni hefur hækkað um tvo dollara.“ Pútín segir án þess að leyna ánægjunni. „Þeir þarna kenna verðbólguna við mig en þetta kemur okkur hreinlega ekkert við.“ Eins og sagt er „við erum ekki einu sinni þarna niður frá“. Eða eins og sögupersóna hliðholl Pútín segir í síðustu skáldsögu Sorokines: „Það er ekki ég.“

Á hinn bóginn dregur til mun dramatískari tíðinda á matvælamörkuðum og sannkallaðar hörmungar þar ógna heiminum.

Vegna stríðsins og kornbannsins sem Rússar hafa lagt á Úkraínu eru milljónir tonna af korni enn fastar í sveitum landsins þar sem kornið rotnar í turnum og mun þannig kalla hungursneyð yfir tugi milljóna manna í Afríku og Asíu. Sagnfræðingurinn Timothy Snyder hefur réttilega minnt á að hugmyndin um að ráða yfir úkraínsku hveiti sé ekki ný. Stalín og Hitler höfðu báðir mikinn áhuga á henni: sá fyrrnefndi skipulagði hungursneyð í Úkraínu (holodomor) sem lagði næstum fjórar milljónir manna að velli, sá síðarnefndi lagði undir sig úkraínskt hveiti til neyslu í Þýskalandi og til að svelta milljónir Sovétmanna.

Pútín beitir nú sömu aðferð með því að leggja á heiminn fjötra með kornbanni og treystir jafnframt á að til Evrópu streymi flóttamenn frá Norður-Afríku og Austurlöndum nær, svæðum þar sem hveiti frá Úkraínu er helsta fæðutegundin. Að beita farendum fyrir sig sem vopni í stríði er aðferð sem starfsbróðir hans Alexander Lúkasjenkó hefur nú þegar beitt.

Þótt sprengjurnar springi í Úkraínu og fólk týni þar lífi er plánetan öll vettvangur heimsstyrjaldar – líklega á því stigi sem fellur að áætlunum Kremlverja sem eru ofurseldir órunum um þriðju heimsstyrjöldina sem birtust í bókinni Þriðja keisaradæmið eftir Mikhaíl Júrijev. Rússland getur á hinn bóginn hvorki skilgreint sig sem ráðandi herveldi („annar öflugasti her í heimi“ er fastur í Donbas þar sem hann hefur mánuðum saman reynt að ná litlum járnbrautarstöðvum á sitt vald), né sem efnahagsveldi, ekki sem leiðandi ríki hvað varðar mannauð eða tækni eða á sviði upplýsingatækni. Rússar ráða á hinn bóginn yfir óumdeilanlegum herafla: hann vekur ótta og gerir þeim kleift að beita sér á alþjóðavettvangi og hafa áhrif langt út fyrir landamæri sín. Heimurinn er nú svo flókinn að slit á einum stað í keðjunni getur haft ófyrirsjáanleg áhrif. Í þeim efnum er skemmst að minnast þess gífurlega fjárhagslega tjóns sem heimsbúskapurinn varð fyrir í fyrra þegar gámaskipið Evergiven strandaði í Súez-skurði og stöðvaði umferð þar í sex daga áður en það var dregið á flot. Um þessar mundir er Rússland gámaskipið; það er plága, veira sem hefur búið um sig í heimskerfunum og getur sýkt þau alvarlega, jafnvel lagt þau í rúst.

II Óttaviðskipti hafa ætíð verið sérgrein Rússa. Til er saga af Rússakeisara – stundum er það Nikulás I., stundum Alexander III. – sem á að hafa skrifað með eigin hendi á spássíu landafræðihandbókar liðsforingjaskóla hersins, sem honum var sýnd til samþykktar: „Rússland er ekki iðnveldi, landbúnaðarveldi eða viðskiptaveldi; Rússland er herveldi sem hefur þá köllun að ógna heiminum umhverfis landið.“ (Líklegast er að Nikulás I. hafi skrifað þessar línur, vitað er að hann sinnti dag hvern af mikilli smámunasemi minnstu málefnum keisaradæmisins, allt frá verkum Púskins til þess hvernig tíminn væri nýttur í nýlendum undir stjórn hersins.)

Mér hefur ekki tekist að finna heimildina fyrir þessari tilvitnun en jafnvel þótt draga megi hana í efa gefur hún góða mynd af stöðu Rússlands á landfræðilegu og andlegu korti heimsins. Í aldanna rás hefur landið, sem arftaki Gullnu hordu-Mongóla, ógnað austari hluta Evrópu og evrópsk ímynd landsins hefur mótast í stríðum gegn Evrópu. Norski stjórnmálafræðingurinn Iver Neumann hefur skilgreint Rússland, og einnig Tyrkland, sem „Hina“ (fr. „un Autre constitutif“) í Evrópu. Heimspekingurinn Boris Groys skilgreinir Rússland sem „ómeðvitað um Vestrið“ (fr. „l'inconscient de l'Occident“), sem finnur þar hræðslu sinni og leynilegum minningum stað, óttanum við það sem er óraunverulegt og óskiljanlegt.

Samtímis hefur Rússland einnig sýnt heiminum aðrar hliðar á sér: dulræna hlið, „andlegheit“ (goðsögn sem dreifir sé utanlands með sérstökum árangri), kvenleika, dularfullu „rússnesku sálina“. Það er engin tilviljun að í mörgum James Bond-kvikmyndum á hetjan í höggi við rússneska konu sem er í senn fláráð og töfrandi. Þessa staðalmynd má rekja til kvikmyndarinnar Ninotsjka eftir Ernst Lubitsch með Gretu Garbo (1939). Þá er ógetið að á 20. öldinni mótuðu Rússar einstaka fyrirmynd að nútímanum með menningarsprengju sem birtist í framúrstefnu í listum og stjórnmálasprengju sem birtist í rússnesku byltingunni sem blés svo mikilli orku í brjóst þjóðarinnar að dugði henni næstum til loka aldarinnar.

Fyrir fjölda ríkja heims hélt sovésk nútímavæðing áfram að vera fyrirmynd og valkostur (raunar mjög goðsagnakenndur) við frjálslyndan kapítalisma. Í þessu lá „mjúkt vald“ Sovétríkjanna.

Á níunda áratugnum eftir innreið sovéskra skriðdreka í Búdapest og Prag, eftir íhlutun Sovétríkjanna í Afganistan og setningu herlaga í Póllandi, hvarf áran af sovésku leiðinni og risaveldið átti ekki annað eftir í vopnabúri sínu en gömlu, góðu ógnarvopnin. Sovétríkin voru of örmagna og fúin til að skapa nokkuð nýtt, til að koma á fót stofnunum eða kynna lausnir á heimsvandamálunum. Þau dugðu þó enn, grá fyrir járnum og hættuleg, til að ógna Evrópu með SS-20 flaugunum, til að hjakka áfram í nýlendustríðunum, styðja hryðjuverkastjórnir, skjóta niður kóreska Boeing-þotu og dreifa geislavirkni yfir helming Evrópu frá Tsjernóbíl. Í samtímanum stendur Rússland í sömu sporum: skortir burði til að smíða nýjan heim en er nógu hættulegt og tengt inn í heimskerfin til að eyðileggja gamla heiminn og ógna honum með hörmungum, óstöðugleika, nýjum stríðum og kjarnorkuhamförum.

III Kremlverjar leyna ekki markmiði sínu: þetta snýst um að viðhalda „ákveðinni spennu“ á Vesturlöndum. Vladimir Pútín sagði í lok árs 2021 „það ber að sjá til þess að þeir séu í þessari stöðu eins lengi og unnt er“. Gamli hugmyndafræðingur Kremlverja, Vladislav Surkov, hvatti Rússa jafnframt, í langri grein, til „útflutnings á upplausn“ um heim allan. Í grunninn einbeita ráðamenn í Rússlandi sér að því að framleiða og leggja rækt við ógnir í frjóum jarðvegi óttans sem sagan hefur skapað í undirmeðvitund Evrópubúa. Það er til skýrt hugtak yfir þennan útflutning á hræðslu: hryðjuverk, sem felast í því að hafa áhrif á skoðanir og opinberar stofnanir með ofbeldi og nauðung. Í Rússlandi helgar ríkisvaldið sig nú hryðjuverkum – að því er varðar hernað, matvæli, flótta- og farandfólk, upplýsingatækni, eiturefni (minnast má að eitrað var fyrir Litvinenko, Skripal-feðginunum, Navalníj) og hryðjuverkum í formi kúgunar með kjarnorkuvopnum.

Við vitum að hryðjuverk eru vopn þeirra sem eru veikburða – Palestínumanna, íslamista eða vinstrisinna – til að brjóta kerfi hinna öflugu. Þeir beita óskipulegum aðferðum gegn þeim sterkari, stofna til mótmæla og sýna fórnarlömbum sem fyrir tilviljun verða á vegi þeirra grimmd með það að markmiði að hrella ríkisstjórnir og almenning. Þetta er einmitt aðferðin sem Pútín beitir um þessar mundir til að vega upp á móti augljósu máttleysi Rússlands á sviði efnahagsmála, tækni og utanríkismála. Hann hóf feril sinn sem maður „nútímavæðingar“ í líkingu við Mahatir Mohamad [í Malasíu], Tony Blair, Bill Clinton, alþjóðlega leiðtoga sem hverjum um sig tókst að laga þjóð sína að alþjóðavæðingunni.

Á 20 árum hefur Rússland alþjóðavæðst á þversagnakenndan hátt og alið af sér það sem nú er: ríki skaðræðis og hryðjuverka sem er grundvallarógn við skipan alþjóðamála.

Það er á þennan hátt sem staða Rússlands á heimskortinu ákvarðast: hafi Vestrið áður talið að Rússland yrði áfram jaðarríki sem nýtti afrakstur náttúruauðlinda sinna til kaupa á neysluvörum, ríki stjórnfestu sem héldi Evró-Asíu frá upplausn, hefur þessi draumsýn nú að engu orðið á 21. öldinni. Rússland hefur umturnast úr hrávörubirgi í hryðjuverka- og glæparíki. Þótt farið yrði að „skilyrðum Pútíns“ breytti það engu, hungur Kremlverja mundi aðeins aukast við það og verða hvati enn frekari útflutnings á upplausn, ótta og ofbeldi. Eftir því sem stríðið í Úkraínu skýtur fastari rótum og spurningar vakna meðal sérfræðinga um hvort Pútín ætli að ráðast á fleiri: Georgíu? Moldóvu? Pólland? Litháen? – leggjast hörmungarnar þyngra á samvisku okkar. Hér er ekki um að ræða svæðisbundið stríð innan marka Evrópu eins og ýmsir ábyrgðarmenn í evrópskum stjórnmálum vilja halda, heldur stærstu áskorun sem Vestrið hefur staðið frammi fyrir frá annarri heimsstyrjöldinni.

Finnist ekki heildarlausn á „rússneska vandamálinu“ er ekki unnt að skapa öruggan heim. Til þess þarf alþjóðasamfélagið að samræma aðgerðir sínar á sama hátt og það gerði í annarri heimsstyrjöldinni. Eins og sakir standa hefur Vestrið hvorki lagt skipulega á ráðin um hvernig komast eigi út úr hættuástandinu (fyrir utan huglausar áhyggjur af því „að niðurlægja nú ekki Pútín“ eða barnslega þrá eftir tímanum fyrir innrásina), né er þar að finna ábyrga stjórnmálamenn (þó ekki væri nema á borð við Reagan eða Thatcher, svo að ekki sé minnst á Churchill eða Roosevelt), né stofnanir sem geta tekist á við þetta verkefni. Þar af leiðandi magnast upplausnin, kostnaðurinn eykst og Kremlverjar fleyta sér áfram á öldufaldi þessa ólgusjávar. Heimsstyrjöldin mun hafa sinn gang, sprengjum mun rigna á Kænugarð og kúlnahríð dynja á Donetsk, hungur mun herja á Afríku og sprengjuskýli rísa í Bæjaralandi, og allt án þess að á þessari stundu megi greina einhver endalok.

Sergei Medvedev er rússneskur fræðimaður. Hann hefur verið prófessor við Hagfræðiháskólann í Moskvu, áður starfaði hann við Marshall-öryggisfræðamiðstöðina í Þýskalandi, Finnsku utanríkismálastofnunina í Helsinki, Alþjóðamálastofnunina í Róm og Evrópustofnunina í Moskvu. Medvedev hlaut árið 2020 Pushkin-bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína sem þýdd var á ensku undir heitinu: The Return of the Russian Leviathan. Fréttabréfið og vefsíðan Desk Russie hóf göngu sína í maí 2021 undir forystu franska félagsins A l'Est de Brest-Litovsk sem stofnað var í janúar 2021 í þeim tilgangi að semja og dreifa gæðaupplýsingum og skýringum á málefnum Rússlands og landanna sem áður voru innan Sovétríkjanna fyrir utan að segja frá stefnu Rússlands inn á við og út á við. Hópur sérfræðinga í málefnum Rússlands og Austur-Evrópu stendur að Desk Russie: reynslumiklir blaðamenn, rannsakendur, sagnfræðingar, sérfræðingar í alþjóðamálum. Greinin kom fyrst út á rússnesku og er aðgengileg á vefsíðunni www.novayagazeta.eu Hér er stuðst við franska þýðingu eftir Bernard Marchadier sem er aðgengileg hér: https://desk-russie.eu/2022/07/01/les-marchands-de-peur.html