Far-angur Ferðatöskum hlaðið um borð í vél KLM á Schiphol-flugvelli.
Far-angur Ferðatöskum hlaðið um borð í vél KLM á Schiphol-flugvelli. — AFP/Koen van Weel
Seint virðist sjá fyrir endann á vandræðagangi evrópskra flugvalla í sumar, að minnsta kosti ef marka má ástandið á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam í Hollandi.

Seint virðist sjá fyrir endann á vandræðagangi evrópskra flugvalla í sumar, að minnsta kosti ef marka má ástandið á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam í Hollandi.

Þar á bæ urðu mörg þúsund ferðatöskur strand á miðvikudaginn vegna tæknilegra vandamála við farangursflutninga um borð í og á milli flugfara. Leiddi stíflan til þess að farþegar sem millilentu á Schiphol í fyrradag gátu ekki skráð farangur sinn áfram í flug þaðan og á lokaáfangastað.

Helst handfarangur eingöngu

„Við lentum í tímabundnum vandræðum með farangursflutningakerfið okkar,“ sagði talsmaður flugvallarins við hollenska og aðra evrópska fjölmiðla í gær og lagði um leið ríka áherslu á að starfsfólk Schiphol gerði allt sem í þess valdi stæði til að greiða úr flækjunni.

Hollenska flugfélagið KLM bað væntanlega farþega sína um að ferðast helst eingöngu með handfarangur vegna þeirra áskorana sem evrópskir flugvellir hafa staðið frammi fyrir í sumar vegna verkfalla, vinnustöðvana og annarra áskorana.

300 áfangastaðir

Fáir flugvellir í Evrópu eru fjölsóttari en Schiphol. Þaðan er flogið til 300 áfangastaða og í fyrra millilentu 44 prósent farþega, sem um Schiphol fóru, þar til að fara áfram í annað flug á lokaáfangastað.

„Við getum ekkert sagt um hve lengi þetta ástand varir, við vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér,“ skrifar KLM á Twitter-síðu sína um leið og félagið biður viðskiptavini sína afsökunar á ástandinu, sumarvertíðina 2022.