[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andrés Magnússon andres@mbl.is Nú eru fimm mánuðir liðnir síðan Vladímír Pútín réðist inn í Úkraínu og áfram heldur stríðið af þunga.

Fréttaskýring

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Nú eru fimm mánuðir liðnir síðan Vladímír Pútín réðist inn í Úkraínu og áfram heldur stríðið af þunga. Harðstjóranum í Kreml kom seigla Úkraínumanna á óvart, en enn frekar samstaða Vesturlanda sem Rússar saka nú um að vera orðin beinir þátttakendur í stríðinu.

Þess vegna hefur Rússlandsstjórn enda brugðið því vopni sem helst bítur: orkuvopninu.

Varla þarf að rekja eina ferðina enn hvernig Þjóðverjar gerðu sig háða rússnesku gasi og öðru jarðefnaeldsneyti þaðan, en fleiri þjóðir Evrópu eru háðar því og nú er farið að styttast í haustið, þegar það getur beinlínis skilið milli feigs og ófeigs hvernig framboð á jarðgasi er, sem víða er notað til húshitunar.

Styrjaldartímar í Evrópu

Allir virðast loks skilja hvað býr að baki og hvað er í húfi.

„Rússland er að kúga okkur,“ segir Ursula von der Leyen, hinn þýski forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB). En það var nákvæmlega það sem Þjóðverjarnir voru ítrekað varaðir við og ESB líka. Þjóðverjar létu þær viðvaranir sem vind um eyru þjóta og Brusselvaldið lokaði augunum fyrir þeim; vildi ekki styggja stjórnvöld í veigamesta ríki ESB.

Nú þegar Pútín hefur gert gasið að vopni hefur ESB loks áttað sig á því að það er komið í óbeint stríð og að við því verði að bregðast. Þess vegna hefur verið virkjað samningsákvæði til þess að fá öll aðildarríki ESB með góðu eða illu til þess að minnka gasnotkun um 15% og að deila orkunni með þeim sem harðast verða úti í vetur vegna gasþurrðar að austan, hvort sem Rússarnir skrúfa mikið eða alveg fyrir gasið.

Þetta eru styrjaldarráðstafanir, sem Vestur-Evrópubúar hafa ekki kynnst áratugum saman.

Mörgum finnst þetta raunar fullsein viðbrögð hjá ESB. Þetta er þó ekki hið eina sem að er gert. Þannig hefur ESB aflað mikils magns af gasi frá Bandaríkjunum, aukins gasstreymis frá Aserbaídsjan, Alsír og Noregi, auk þess sem Bretar hafa látið eins og Brexit hafi aldrei átt sér stað og séð um alla löndun á gasi fyrir Þjóðverja. Sömuleiðis hafa Bretar deilt mikilli raforku með Frökkum, en um helmingur kjarnorkuvera þeirra er úr leik vegna viðhaldsvandamála sem stendur.

Þetta þarf ekki að klikka

Ef Rússar skrúfa algerlega fyrir gasið í vetur, mun skjótt koma í ljós hversu vel þessar ráðstafanir reynast og hversu órofa samstaða ESB-ríkja reynist. Ef allt fer vel, þá dugar orkusparnaðurinn og birgðaöflunin til þess að halda hita á evrópskum heimilum í vetur, þó það muni draga talsvert úr landsframleiðslu vegna orkuskorts eða skammtana til atvinnulífs. Þá mun orkuvopn Pútíns reynast gagnslaust og það mun snúast í höndunum á honum þegar stærsti markaður rússnesks orkuiðnaðar er að eilífu glataður.

En það er ekki gefið að þessi ráð dugi. Það er alls óvíst að það reynist unnt að minnka gasnotkunina um 15% í einu vetfangi, lækka hitann í öllum húsum álfunnar, minnka rafmagnsnotkun og lifa við skömmtun. Raunar hefur hugmyndin um skömmtun reynst íbúum Vestur-Evrópu svo framandi, að fæstir skilja hana, enda um 70 ár síðan skömmtun á nauðsynjum lauk eftir síðari heimsstyrjöld, þótt Austur-Evrópubúar hafi margir lifað mun lengur við skömmtun.

Ekki má heldur gleyma því að hin ýmsu ríki ESB hafa reynst mjög misgætin í þessum efnum.

Mun eitt yfir alla ganga?

Enda þótt Þjóðverjar hafi hagað sér af ótrúlegu gáleysi, á hið sama t.d. ekki við um Spánverja, sem finnst einkennilegt að hin þýska von der Leyen og ráðamenn í Brussel hafi ekki einu sinni ráðfært sig við aðildarlöndin um þessar ráðstafanir. Margir minnast þess og víðar, að Þjóðverjar hafi verið ófúsir að deila kjörum með þeim löndum, sem harðast fóru út úr fjármálakreppunni.

Verra er að í aðildarríkjunum gruna margir Brussel um græsku og að kommissarar ESB vilji notfæra sér ástandið til þess að sölsa undir sig stjórn orkumála. Óttast þá fleiri orkupakkann en menn áður hugðu!

Eftir sem áður þurfa velflest lönd ESB að grípa til ráðstafana fyrir veturinn og ekki seinna en strax. Þar hefur framkvæmdastjórnin hlutverki að gegna. Og hún þarf sennilega að ganga lengra, loka fyrir Bitcoin-námagröft, skammta rafmagn til atvinnulífs þar sem horft verður til þess orkufrekasta og hins sem vitringum Brussel þykir ónauðsynlegast. Það mun tæpast allt gerast í friði og spekt, enda varla við því að búast á styrjaldartímum, hvað þá ef þeir dragast á langinn eins og stríð hafa tilhneigingu til að gera.