[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsar Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Hilmar Örn Jónsson, Íslandsmethafi í sleggjukasti, hafnaði í 24. sæti af 30 keppendum í greininni á heimsmeistaramótinu í Eugene í Oregonríki í Bandaríkjunum á föstudaginn fyrir viku.

Frjálsar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Hilmar Örn Jónsson, Íslandsmethafi í sleggjukasti, hafnaði í 24. sæti af 30 keppendum í greininni á heimsmeistaramótinu í Eugene í Oregonríki í Bandaríkjunum á föstudaginn fyrir viku. Hilmar kastaði lengst 72,72 metra en hefði þurft að kasta 74,67 metra til að fara í úrslit. Íslandsmet Hilmars er 77,10 metrar og hefði hann flogið í úrslit með sínum besta árangri.

„Ég var nokkuð sáttur en auðvitað er svekkjandi að síðasta kastið hafi verið ógilt, því það hefði sennilega dugað inn í úrslitin. Það hefði verið draumur en þetta var samt sem áður allt í lagi árangur. Ég var óheppinn í þessu síðasta kasti. Ég rétt steig út fyrir,“ sagði Hilmar við Morgunblaðið.

Ógilda kastið var nálægt 77 metrum og hefði hann farið með sannfærandi hætti í úrslit ef það hefði verið gilt.

„Mér leið mjög vel. Ég var tilbúinn að framkvæma það sem ég ætlaði mér og var búinn að ræða með þjálfaranum mínum. Þetta var mjög fínt og má segja að það hafi allt gengið upp. Ég gerði ekkert vitlaust. Ég var bara frekar óheppinn,“ sagði hann.

Allt öðruvísi en í London

Hilmar var að keppa á sínu öðru heimsmeistaramóti en hann var einnig með á HM 2017 í London og endaði þá í 27. sæti er hann kastaði 71,12 metra.

Þá fékk hann sæti á mótinu því enginn annar íslenskur keppandi hafði tryggt sér keppnisrétt og Hilmar var efstur Íslendinga á stigalista. Samkvæmt reglum HM fær að minnsta kosti einn keppandi frá hverju landi sæti á mótinu.

„Þetta var allt öðruvísi. Þegar ég fór til London fór ég á kvóta. Það gekk ágætlega þá og ég varð í 27. sæti. Mér fannst samt eins og ég væri gestur á mótinu og átti varla að vera með. Ég sýndi það í síðasta kastinu núna að ég á heima á svona mótum og ég hefði getað verið í úrslitum. Það kast var nálægt 77 metrum.“

Hilmar setti Íslandsmetið á kastmóti FH í Kaplakrika í ágúst fyrir tveimur árum en hann hefur ekki endilega unnið sérstaklega að því að bæta eigið Íslandsmet. „Ég hef verið að vinna í öðru. Ég hef verið að vinna í að kasta oftar í kringum 75 plús. Ég vil keppa betur og þá koma vegalengdirnar sjálfkrafa með. Ég bíð rólegur eftir því á meðan ég vinn í stöðugleikanum.“

Reynir við úrslitin á EM

Hilmar setur stefnuna á EM í München í Þýskalandi sem hefst 15. ágúst. Þótt sætið á Evrópumótinu sé ekki tryggt eru afar góðar líkur á að hann verði á meðal keppenda vegna stöðu á heimslistanum.

„Ég er algjörlega að horfa á EM. Það kemur í ljós 26. júlí hvort ég hangi inni á listanum. Það er líklegt að ég geri það, svo ég er á fullu að undirbúa mig fyrir mótið. Ég mun aftur reyna við úrslitin og framkvæma það sem ég ætlaði mér á HM. Ef það gengur upp ætti ég að vera í góðum málum,“ sagði hann.

Ætlar sér í allra fremstu röð

Hilmar er 26 ára gamall og yngri en flestir bestu sleggjukastarar heims. Pólverjinn Pawel Fajdek, sem varð heimsmeistari með kast upp á 80,09 metra, er til að mynda sjö árum eldri en Íslandsmethafinn. Hilmar segir tímann vinna með sér en hann ætlar sér í allra fremstu röð í greininni.

„Það er fyrst og fremst aldur sem er munurinn á mér og þeim allra bestu og ég þarf að vera þolinmóður. Ég þarf að gefa þessu tíma en ég er á réttri leið, miðað við hvernig hefur gengið undanfarin tvö ár. Árið 2017 var mér boðið á HM og núna komst ég inn sjálfur. Næsta markmið er að komast nokkrum sinnum í úrslit og þá endar maður á sama stað og þeir.“

Fyrir utan Evrópumótið er ekki mikið á döfinni hjá Hilmari á þessari stundu, en hann horfir fullur einbeitingar á EM. „Nú ætla ég að klára þetta EM með stæl og svo sjáum við til,“ sagði Hilmar Örn Jónsson.