Win Rosenfeld handritshöfundur, leikararnir Steven Yeun og Daniel Kaluuya, Jordan Peele leikstjóri, leikararnir Keke Palmer og Brandon Perea og Ian Cooper framleiðandi á heimsfrumsýningu Nope í Hollywood á mánudag.
Win Rosenfeld handritshöfundur, leikararnir Steven Yeun og Daniel Kaluuya, Jordan Peele leikstjóri, leikararnir Keke Palmer og Brandon Perea og Ian Cooper framleiðandi á heimsfrumsýningu Nope í Hollywood á mánudag. — AFP/Valerie Macon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Los Angeles. AFP. | Nýjasta háðsádeiluhrollvekja leikstjórans Jordans Peeles kom í kvikmyndahús um helgina. Myndin nefnist Nope og þar tekur Peele fyrir hvað nútíminn er upptekinn af þránni eftir athygli og sjónarspili.

Los Angeles. AFP. | Nýjasta háðsádeiluhrollvekja leikstjórans Jordans Peeles kom í kvikmyndahús um helgina. Myndin nefnist Nope og þar tekur Peele fyrir hvað nútíminn er upptekinn af þránni eftir athygli og sjónarspili. Um leið var opnaður aðgangur að sviðsmyndinni úr myndinni í skemmtigarði í Los Angeles.

Handritshöfundurinn og leikstjórinn, sem er gefinn heiðurinn af því að hafa blásið nýju lífi í hrollvekjuna með myndum sínum Get Out og Us og um leið hafið hana á nýtt plan, fær í nýju myndinni aftur til liðs við sig Daniel Kaluuya. Kaluuya leikur hestatemjara, OJ, sem verður skelfingu lostinn þegar annars heims fyrirbæri gera vart við sig á himninum fyrir ofan búgarð hans í Kaliforníu.

OJ og Emerald, systir hans, sem Keke Palmer leikur, reyna að yfirvinna ótta sinn við hina dularfullu og jafnvel hættulegu fljúgandi furðuhluti vegna þess að þau sjá fram á frægð og auð takist þeim að ná myndum af fyrirbærunum.

„Raunverulegi þorparinn er fíkn okkar í athygli og sjónarspil og vanmáttur okkar til að bregðast við í rauntíma,“ sagði Palmer við AFP á rauða dreglinum þegar myndin var frumsýnd í Hollywood í vikunni. „Það er enginn munur á þessu og að snúa sig úr hálsliðnum á hraðbrautinni þegar orðið hefur slys – enginn hringir, en allir stoppa til að glápa. Það er raunverulegi hryllingurinn, sem myndin okkar snýst um.“

Í myndinni má finna sömu stef og í kynþáttaádeilunni Get Out frá 2017, sem kostaði fimm milljónir dollara að gera og aflaði 255 milljóna dollara tekna. Peele fékk einnig Óskarsverðlaun fyrir myndina fyrir besta upprunalega handrit.

Peele fylgdi henni eftir með myndinni Us, sem einnig sló í gegn, sem varð til þess að hann varð einn eftirsóttasti leikstjóri Hollywood og þykir jafnframt einn sá djarfasti.

Kvikmyndaverið Universal hafði það mikla trú á nýjustu mynd Peeles að ákveðið var að setja hluta af sviðsmynd myndarinnar upp í skemmtigarði kvikmyndaversins sama dag og byrjað var að sýna hana i kvikmyndahúsum.

Þetta er í fyrsta skipti sem það hefur verið gert um leið og byrjað var að sýna mynd, að sögn Jons Corfinos, sem er yfir þróunarmálum hjá Universal.

Sviðsmyndin af Jupiter's Claim, skálduðum skemmtigarði með vestraþema, sem kemur mikið við sögu í Nope, var tekin í sundur af mikilli varfærni þegar tökum lauk í eyðimörkinni í Kaliforníu og sett saman á ný í skemmtigarðinum í Los Angeles.

Geta gestir, sem borga sérstaklega fyrir það, gengið um sviðsmyndina og tekið þar myndir, myndskeið og sjálfur og verða þar með eins og bergmál af umfjöllunarefni myndarinnar.

Sviðsmyndin af skemmtigarðinum á að vera þarna til frambúðar ásamt sviðsmyndum mynda á borð við Ókindina (Jaws) eftir Steven Spielberg og Psycho eftir Alfred Hitchcock.

Svo er að sjá hvernig myndin gengur. Í umsögn tímaritsins Empire segir að hún sé metnaðarfull og ögrandi, en í Guardian segir að hún sé ofhlaðin og þunglamaleg.

„Þarna eru milljón söguþræðir og líkingar sem áhorfendur geta hver og einn túlkað með sínum hætti,“ sagði Brandon Perea, sem leikur í Nope. „Þú getur tekið þessu eins og þú vilt og það finnst mér frábært.“

Nope verður tekin til sýninga á Íslandi 10. ágúst.