Surtsey Gríðarmiklar breytingar hafa orðið í Surtsey. Hún er eins og gluggi að því hvernig Vestmannaeyjar mynduðust og sýnir landnám lífsins.
Surtsey Gríðarmiklar breytingar hafa orðið í Surtsey. Hún er eins og gluggi að því hvernig Vestmannaeyjar mynduðust og sýnir landnám lífsins. — Ljósmynd/Borgþór Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) fóru í árlegan leiðangur til Surtseyjar í þessari viku. Leiðangurinn stóð í fjóra daga og komu sérfræðingarnir aftur í land með þyrlu síðdegis á fimmtudag.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) fóru í árlegan leiðangur til Surtseyjar í þessari viku. Leiðangurinn stóð í fjóra daga og komu sérfræðingarnir aftur í land með þyrlu síðdegis á fimmtudag.

Þriðja kynslóð leiðangursstjóra

Leiðangursstjóri var dr. Olga Kolbrún Vilmundardóttir landfræðingur hjá NÍ. Hún er fyrsta konan sem stýrir leiðangri líffræðinga í Surtsey.

Segja má að Olga sé þriðja kynslóð þeirra sem stýrt hafa líffræðileiðöngrum í Surtsey. Fyrstur var dr. Sturla Friðriksson erfðafræðingur, svo tók við dr. Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur og nú dr. Olga. Þess má geta að Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur hefur verið leiðangursstjóri jarðfræðinga í eyna.

Olga segir að ástandið í Surtsey hafi verið í stórum dráttum svipað nú og í leiðangri fyrir ári. Náttúrufræðistofnun mun greina nánar frá þeim breytingum sem orðið hafa í Surtsey þegar samantekt um leiðangurinn liggur fyrir.

Tvöfalt gosafmæli á næsta ári

Á næsta ári verða liðin 60 ár frá því að fyrst varð vart við Surtseyjargosið og 50 ár frá því að Heimaeyjargosið hófst. Fyrst sást til Surtseyjargossins 14. nóvember 1963. Líklegt þykir að það hafi byrjað nokkrum dögum fyrr á hafsbotninum en þarna var 130 metra sjávardýpi. Surtseyjareldum lauk í júní 1967 og stóðu þeir því í rúmlega þrjú og hálft ár. Gosið er því með lengstu eldgosum sem hafa orðið frá því að land byggðist. Meðan Surtseyjareldar stóðu gaus á nokkrum stöðum og mynduðust eyjarnar Surtla, Syrtlingur og Jólnir sem hurfu aftur í hafið. Surtsey var friðlýst 1965 í þágu vísindarannsókna. Friðlýsingin var svo endurnýjuð 1974 og aftur 2006. Surtsey hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 2008.