[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Næstu helgi rennur upp það sem margir Íslendingar hafa beðið óþreyjufullir eftir í sumar; verslunarmannahelgin. Morgunblaðið tók saman helstu hátíðir sem verða haldnar um og yfir helgina.

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Næstu helgi rennur upp það sem margir Íslendingar hafa beðið óþreyjufullir eftir í sumar; verslunarmannahelgin. Morgunblaðið tók saman helstu hátíðir sem verða haldnar um og yfir helgina. Auk neðangreindra hátíða verður fjölskylduhátíð SÁÁ haldin í Skógum undir Eyjafjöllum en nánar er fjallað um hana á baksíðu blaðsins.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Eftir tveggja ára bið sökum faraldurs fer loks fram Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Að sögn skipuleggjenda verður öllu til tjaldað en á föstudegi fer fram brenna á Fjósakletti, flugeldasýning á laugardegi og brekkusöngur á sunnudegi.

Fjölmargir tónlistarmenn og hljómsveitir munu troða upp á hátíðinni í ár, s.s. Birgitta Haukdal, Aron Can, Bubbi Morthens, Herra Hnetusmjör, XXX Rottweiler, Stuðlabandið o.fl.

Innipúkinn í Reykjavík

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fagnar 20 ára afmæli hátíðarinnar í ár. Aðaltónleikadagskráin fer fram innandyra í miðbæ Reykjavíkur. Að þessu sinni fer hátíðin fram í Gamla bíó og á Röntgen.

Einnig verður nóg um að vera fyrir útipúkana á götunni fyrir utan staðina. Reykjavíkurdætur, Aron Can, Emmsjé Gauti, Bríet og fleira tónlistarfólk treður upp á hátíðinni.

Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir

Á Akureyri verða fjölmenn hátíðahöld, þar sem Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir fara fram. Þétt dagskrá verður alla helgina sem hentar öllum aldurshópum.

Alls kyns jaðaríþróttir, þrekraunir og leikir verða í boði sem og tónlistar- og menningarviðburðir.

Neistaflug á Neskaupstað

Á Neskaupstað fer fram fjölskylduhátíðin Neistaflug. Á hátíðinni verður tjaldmarkaður, brunaslöngubolti, hoppukastalar o.fl. Á sunnudaginn fara fram stórtónleikar á útisviðinu og er það frí skemmtun fyrir alla.

Á framangreindum stórtónleikum koma fram JóiPé & Króli sem og Helgi Björns og Reiðmenn vindanna.

Sæludagar KFUM og KFUK

Fjölskylduhátíðin Sæludagar í Vatnaskógi fer fram um verslunarmannahelgina og er dagskrá hátíðarinnar í anda sumarbúðastarfs KFUM og KFUK. Dagskráin á að höfða til flestra aldurshópa.

Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð sem fer fram á Selfossi. Börn og ungmenni á aldrinum 11 til 18 ára geta keppt í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða því er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Öll ungmenni geta skráð sig til leiks.

Flúðir um versló

Fjölskyldu- og bæjarhátíðin Flúðir um versló fer fram á Flúðum í Hrunamannahreppi. Dagskráin er að sögn skipuleggjenda með glæsilegra móti og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Norðanpaunk á Laugarbakka

Tónlistarhátíðin Norðanpaunk verður haldin á Laugarbakka. Rúmlega 50 tónlistarmenn og hljómsveitir koma þar fram. Laugarbakki er í um það bil tveggja tíma akstursfjarlægð norður af Reykjavík.

Kotmót Hvítasunnukirkju

Þá verður Kotmót Hvítasunnukirkjunnar haldið í Kirkjulækjarkoti um helgina.

Margt verður um að vera á þessari fjölskylduhátíð, en líkt og fyrri ár verða fjölmargir viðburðir í boði fyrir alla aldurshópa, s.s. varðeldur, karnival og tónleikar.