Lilja Sigríður Jensdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 9. nóvember 1930.

Hún lést á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 10. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Jens S. Ólafsson, vörubifreiðastjóri, f. 19.5. 1909, d. 23.2. 1992 og Kristný J. Valdadóttir, f. 10.10. 1909, d. 10.8. 1993. Systkini hennar eru Ólafur, f. 26.8. 1929, d. 28.1. 1930, Fjóla, f. 15.4. 1932, d. 31.3. 1986, Guðrún, f. 13.9. 1936, d. 1.4. 2022, Sigríður Mínerva, f. 3.11. 1943. Sigríður ólst að mestu upp hjá móðurbróður Kristnýjar, þar sem hún veiktist við fæðingu Sigríðar Mínervu.

Þann 27.5. 1950 giftist Lilja Guðlaugi Þórarni Helgasyni, f. 13.11. 1928, d. 23.9. 1982. Lilja og Guðlaugur eignuðust sex börn: 1. Guðrún Erla, f. 2.5. 1952, gift Ingólfi Geirdal, f. 19.6. 1949. Með Finnboga Gústafsyni á Guðrún dótturina Helgu og með Ingólfi synina Frey og Ásgeir. Ömmubörnin eru fimm. 2. Kristný Hulda, f. 4.8. 1954, d. 18.7. 2004, gift Rúnari Helga Bogasyni, f. 6.2. 1957. Með Ólafi Guðjónssyni eignaðist hún Lilju Kristínu, með Rúnari synina Guðlaug Þórarin og Boga Ágúst. Ömmubörn eru þrjú og eitt barnabarn. 3. Helga, f. 24.1. 1956, gift Pétri Laxdal, f. 6.4. 1954. Börn: Kristín Björg, f. 22.5. 1974, d. 10.8. 2010. Ívar og Linda og barnabörnin eru fimm. 4. Svanhildur Guðlaugsdóttir, f. 16.10. 1959, gift Jóhannesi Ólafssyni, f. 24.5. 1958, börn Hjördís og Ólafur, eitt barnabarn og eitt fósturbarnabarn. 5. Gylfi Þór, f. 22.7. 1963, með Stefaníu Ástvaldsdóttur á hann Ástvald Helga og með Sigurósk Kristjánsdóttur Magneu Ýr, og barnabörn eru fjögur. 6. Erna, f. 27.12. 1969, gift Hlyni Leifssyni, f. 16.1. 1970. Börn: Leifur Örn, Ari Páll og Ingibjörg.

Árið 1992 kynntist hún Jóni S. Þórðarsyni, f. 17.6. 1921, d. 7.5. 2017, og bjó hún með honum í 25 ár.

Lilja bjó öll sín ár í Vestmannaeyjum, nema þegar á Vestmannaeyjagosinu stóð, er hún bjó nokkra mánuði á Eyrarbakka. Lilja var mest við heimilisstörf, enda margir á heimilinu. Hún starfaði þó í tíu ár við ræstingar á sjúkrahúsi Vestmannaeyja.

Lilja verður jarðsett frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 23. júlí 2022, klukkan 13.

Móðurminning:

Að loknum starfsdegi hér

ljúfust er næturværð.

Í værum blundi nú birtist þér

blessun að himni færð.

Þú miðlaðir okkur mild og hlý

af móðurkærleikans gnótt.

Heiminn þú fæddir okkur í

og annaðist dag og nótt.

Sofðu nú róleg, mamma mín,

við munum hafa hljótt,

þau breiða on' á þig börnin þín

og bjóða þér góða nótt.

(Kristján Árnason)

Svanhildur

Guðlaugsdóttir.

Mamma var einstök dugnaðarkona. Seint verður sagt að líf hennar hafi verið leikur einn. Hún bjó lengi vel á Einidranga, staðsett að Brekastíg 29 í Eyjum. Foreldrar hennar, þau Jens og Nýja, byggðu það hús. Mér fannst alltaf merkilegt að þegar hún bjó þar í upphafi þá var þar ekki salerni – heldur var þar útikamar. Að hugsa til þess að móðir manns hafi upplifað svo miklar þjóðfélagslegar breytingar er ótrúlegt. Frá kömrum til tæknialdar. Hún fylgdist vel með tækninni og átti gott með að tileinka sér nýjungar, þannig las hún fréttir á veraldarvefnum og var á Fésbók. Hún hafði mikið gaman af því.

Mamma var bráðgáfuð og hefði gjarnan viljað mennta sig meira en í boði var. Hún var elst af systkinahópnum og þegar amma varð veik og var lengi á sjúkrahúsi kom það í hennar hlut að sjá um heimilið. Alla tíð hafði hún mikinn áhuga á ættfræði og var afar fróð um hverra manna fólk væri.

Átján ár eru á milli mín og elstu systur minnar. Þegar ég fæddist var stutt í að mamma yrði amma, ekki einu sinni heldur tvisvar. Mamma tók bæði hlutverkin að sér og gerði vel.

Mamma var úrræðagóð kona og hélt stórt heimili í mörg ár. Þegar pabbi féll frá vorum við bara tvær lengi vel. Ég lærði margt af henni mömmu svo sem þolinmæði og þrautseigju.

Elsku systir mín hún, Kristný Hulda, féll svo frá langt fyrir aldur fram og var það erfitt fyrir mömmu og okkur öll.

Mamma kynntist Jóni Sigurðssyni Þórðarsyni þegar efri árin nálguðust og átti mörg góð ár með honum. Hún hafði unun af að ferðast með honum Jóni sínum. Þau dönsuðu mikið og svo vel að eftir var tekið. Þá kom fótboltinn sterkur inn og þekkti mamma marga leikmenn með nöfnum og úr hvaða liði þeir komu.

Þegar fjölskyldan mín kom til Eyja var gestrisnin hjá mömmu og Jóni alveg einstök. Alltaf nóg á borðum, spjall og almenn gleði.

Mamma var rík kona, mörg barnabörn, langömmubörn, og meira að segja eitt langlangömmubarn. Hún hafði unun að sjá litlu krílin og mátti sjá andlitið ljóma sem aldrei fyrr þegar hún fékk þau í fangið.

Elsku mamma, takk fyrir allt og ekki síst þolinmæði gagnvart örverpinu þínu öll þessi ár. Njóttu vel í sumarlandinu fagra.

Mig langar að þakka aðstandendum mömmu í Eyjum fyrir einstaka alúð og umönnun hennar síðustu árin.

Erna.

Lilja amma mín hefur kvatt okkur eftir langa ævi og gengið í gegnum miklar breytingar á sinni lífsleið. Alltaf er erfitt að kveðja en amma mín var mín önnur mamma og ég er henni mjög þakklát fyrir þann tíma sem ég hef haft hana Lilju ömmu mína í mínu lífi. Þegar ég fæddist, bjó mamma ennþá hjá foreldrum sínum á Kirkjubæjarbrautinni, enda ekki nema 15 ára og ég ekki neitt sem átti að gerast. Einnig átti elsta systir mömmu von á sínu fyrsta barni sama ár og vorum við því þrjár stelpuskottur á heimilinu um tíma. Aldrei man ég eftir öðru en að faðmur ömmu hafi verið opinn. Hún knúsaði ekki fast, enda ekki hennar háttur, en maður vissi alltaf að amma elskaði mann, því maður sá það í augunum á henni. Hún ljómaði alltaf þegar krakkar voru nálægt.

Fyrsta minning mín er þegar við erum að flytja aftur heim eftir gosið. Við fluttum á Brimhólabrautina en blessað húsið sem amma og afi strituðu fyrir og byggðu sjálf á Kirkjubæjarbrautinni fór undir hraun. Brimhólabrautin var æði, enda var ég þar nánast öllum stundum fram að skólagöngu og eignaðist þar yndislega vini. Mamma og pabbi reyndu eitt sinn, þegar ég var komin á leikskólaaldur, að setja mig á einn slíkan en ég var þar ekki nema 2-3 vikur því amma náði bara allaf í mig fyrr og fyrr á daginn, henni fannst bara betra að hafa mig heima hjá sér og Ernu.

Amma var elst í sínum systkinahópi og veit ég að hún hjálpaði Nýju langömmu mikið. Amma var gáfuð kona sem átti auðvelt með að læra. Hún hefði átt að fara í langskólanám, ekki spurning. Þar hefði hún notið sín.

Amma var líka mjög klár í höndunum og saumaði mikið, sérstaklega þegar hún var yngri. Ég man eftir að það var tvennt sem við krakkarnir máttum helst ekki leika okkur í kringum: saumavélin og þvottavélin. Þetta voru tveir mjög verðmætir hlutir hjá ömmu. Mér fannst þetta alltaf skrítið, því ég óð alltaf í saumavélina hennar mömmu. Þegar maður varð eldri, skildi maður hana betur. Amma hefur örugglega eytt ansi mörgum klukkutímum í að sauma og þvo í höndunum, áður en hún hafði peninga til að fjárfesta í þessum tveimur dýrmætu hlutum.

Amma missti Laua afa úr krabbameini þegar hann var rétt tæplega 54 ára, góðan kall sem drakk kannski fullmikið, en ég held að síðustu þrjú árin, í veikindum afa, hafi þau átt góðar stundir saman.

Á þessum tímapunkti stóð amma ein með Ernu 12 ára og mig stundum í eftirdragi og stóð sig vel. Var farin að vinna á sjúkrahúsinu og fannst það bara ljómandi.

Amma kynntist seinna á lífleiðinni honum Jóni sínum, sem var eitt það besta sem kom fyrir hana og ekki síður okkur í fjölskyldunni. Jón var yndisleg manneskja og helst vildi hann hafa okkur alltaf í heimsókn. Amma var því lánsöm á sínum efri árum. Hvað er betra en að eyða seinni hluta ævinnar í faðmi góðs maka, sem vill dansa við mann endalaust og duddar við mann þangað til tími er kominn til að kveðja.

Elsku Lilja amma, ég elska þig og mun alltaf elska þig.

Takk fyrir mig og ég bíð þakklát eftir að fá létta faðmlagið frá þér síðar.

Lilja Kristín Ólafsdóttir.