Eddie Van Halen á tónleikum árið 2012. Hann lést fyrir tæpum tveimur árum.
Eddie Van Halen á tónleikum árið 2012. Hann lést fyrir tæpum tveimur árum. — AFP/Kevin Winter
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
5150 með Van Halen er einhver sumarlegasta plata rokksögunnar og akkúrat vítamínið sem við náfölir mörlandar þurfum við sólarleysinu í sumar. Hvað segiði um að rokka fram á rauðanótt? Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Það er líklega útséð með að sumarið heiðri okkur auma Íslendinga með nærveru sinni þetta árið. Og hvað gerir maður þá? Leitar uppi gömul sumur til að ylja sér við! Og hvernig er best að gera það? Auðvitað gegnum rokktónlist! Hvurslags spurning er þetta eiginlega?

Sumarið 1986 er ekkert verra en önnur sumur. Í minningunni var það bjart og gott og 5150, sjöunda hljóðversplata bandarísku rokksveitarinnar Van Halen, var án efa sumarlegasta plata þess árs enda þótt hún kæmi út í lok mars. Sumar plötur eru sumarplötur, eins og þeir Hagkaupsmenn myndu orða það. Umslagið var hreinlega sveitt af hita, sól, brúnku og spriklandi fjöri. Framan á því var eitthvert heltanað Jóns Páls-legt vöðvabúnt að rogast með ofvaxna diskókúlu og sneri maður albúminu við hafði búntið örmagnast og lá marflatt og bugað undir kúlunni. Fjórmenningarnir í Van Halen glottu við tönn. Mergjað myndmál – sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýðir.

Platan heitir eftir heimahljóðveri Eddies Van Halens sem aftur heitir eftir lagaákvæði í Kaliforníu sem gerir yfirvöldum kleift að vista fólk á geðdeild, jafnvel gegn þess vilja, í allt að 72 klukkustundir.

Langfrægasta lagið á 5150 er Why Cant't This Be Love sem enn heyrist reglulega í útvarpi. Poppskotinn smellur með dansandi melódíu – og sumri. Ballöður eru líka frekar til fjörsins á plötunni, Dreams og Love Walks In, sem líka fengu mikla spilun í útvarpi á sinni tíð. Mönnum er því vorkunn myndu þeir haka við þann svarmöguleika á vorprófi að 5150 væri poppuð ballöðuplata. Það er hins vegar alrangt. 5150 er ósvikin rokkplata.

Sönnunargagn 1. Summer Nights. Það verður ekki sumarlegra, vinir mínir. Eitursvalt riff frá Eddie að vanda og standandi fjör fram á rauðanótt. Ég meina, textinn byrjar svona: „Uh, Hey, Oh yeah.“

Þarf frekari vitna við? Fáum samt aðeins meira:

Ain't no way I'm sittin' home tonight

I'll be out until the mornin' light

Just a hangin' 'round in the local parkin' lot

Oh, checkin' out all the girls, see what they got.

Og viðlagið:

Summer nights and my radio

Well that's all we need, baby, don'tcha know?

We celebrate when the gang's all here

Ah, hot summer nights, that's my time of the year

Hleypi þetta ekki sumrinu inn í sál ykkar þurfið þið þegar í stað að að leita á næstu bráðamóttöku! Helst með babú.

Sönnunargagn 2. Best of Both Worlds. Annað eitursvalt riff frá Eddie, góð keyrsla út í gegn og skýlaus krafa um það besta úr báðum heimum og lítið útibú frá himnaríki hér á jörð. Menn setja markið hátt og sætta sig ekki við neina meðaljónsku. Poppinu hefur verið skolað burt með baðvatninu.

Sönnunargagn 3. Good Enough. Opnunarlag plötunnar, þar sem nýi söngvarinn, Sammy Hagar, heilsar hlustendum með tilþrifum í anda The Big Bopper: „Hello Baaaay ... beeee!“ Svo verður fjandinn strax laus og engin leið að misskilja yfirlýsinguna frá bandinu: „Ókei, söngvarinn okkar er hættur en við erum búnir að finna nýjan – sem er helmingi hressari!“ Og þurfti nú ekki lítið til. Við erum að tala um sjálfan David Lee Roth, íturvaxinn sjarmör af Guðs náð, sem hlóð í karatestökk á sviði – án upphitunar. Ósvikið háloftaspígat.

Viðtökur voru eftir því. 5150 fór þráðbeint á topp Billboard-listans í Bandaríkjunum sem hvorki Van Halen né Hagar höfðu upplifað fram að því og náði platínusölu á aðeins einni viku sem var met hjá útgefandanum, Warner Brothers. Fá dæmi eru líklega um eins vel heppnuð söngvaraskipti í rokksögunni.

„Oooh“ á undan „húh“

Sönnunargagn 4. Titillagið sjálft, 5150. Enn eitt dýrindisriffið frá Eddie og strax dýrt kveðið.

The love line is never straight and narrow

Unless your love is tried and true

We take a chance with new beginnings

Still we try (Oooh)

Win or lose (Oooh)

Take the highs (Oooh)

With the blues (Oooh)

Spikfeitt „Oooh“ löngu áður en menn fundu upp „húh“.

Ég hvet ykkur til að sjá Van Halen flytja þetta lag á sviði, hvort sem er á Live Without a Net, tónleikamyndbandi sem kom út í framhaldi af plötunni, eða á seinni tónleikum. Leikgleðin er alltaf ósvikin og fölskvalaus. Veit samt ekki með danssporin hjá Eddie og Sammy Hagar. Að ekki sé talað um öll hoppin. Þið metið það sjálf. Klæðaburðurinn er líka út úr kú, bæði þá og nú. Alla vega fyrir rokkband. Og við erum að tala um glystíma dauðans, þegar allt mátti. En það skiptir bara engu máli enda leggst enginn svo lágt að dæma bókina eftir kápunni. Eða söngvarann eftir buxunum.

Á Live Without a Net má sjá og heyra bandið flytja 5150-plötuna svo til í heild sinni en þar eru líka gamli Hagar-smellurinn There's Only One Way to Rock, Rock and Roll eftir Led Zeppelin og annað hnýsilegt.

Svo kært var með þeim Eddie og Hagar á þessum tíma að maður beið bara eftir yfirlýsingu þess efnis að þeir væru orðnir hjón. Hún kom aldrei og seinna hætti Hagar í bandinu og David Lee Roth sneri aftur.

Eins og Gray's Anatomy.