Árangur Víkings og Breiðabliks í Evrópumótum karla í fótbolta á þessu sumri er þegar orðinn ansi góður. Liðin hafa unnið þrjá leiki hvort og Víkingar auk þess gert jafntefli við Malmö.
Árangur Víkings og Breiðabliks í Evrópumótum karla í fótbolta á þessu sumri er þegar orðinn ansi góður. Liðin hafa unnið þrjá leiki hvort og Víkingar auk þess gert jafntefli við Malmö. KR lagði lóð á vogarskálarnar með óvæntum sigri á Pogon og þar með hafa íslensku liðin þrjú unnið sjö Evrópuleiki af tíu og gert eitt jafntefli.

Fyrir þetta tímabil tapaði Ísland einu Evrópusæti vegna slæms árangurs árin 2019 og 2020 þegar íslensku liðin unnu aðeins einn leik af sautján.

Það tekur tvö ár að vinna sætið til baka en nú virðist fátt koma í veg fyrir að Ísland fái aftur fjórða liðið fyrir tímabilið 2024-25 og fjögur Evrópusæti verði því í boði á ný á Íslandsmótinu og í bikarkeppninni 2023. Stig á fimm ára tímabili ráða sætunum. Fyrir þetta tímabil voru það stig íslensku liðanna á árunum 2015-20 sem réðu styrkleikaröðinni.

Strax á síðasta ári unnust fimm leikir þannig að sigurleikirnir eru orðnir tólf á tveimur árum. Og þeim getur fjölgað enn ef Víkingar og Blikar ná góðum úrslitum í Wales og Svartfjallalandi í næstu viku. Sem þeir eru fyllilega færir um.

Bestu ár íslenskra karlaliða í Evrópukeppni til þessa eru 2013-2014 en þá unnu íslensku liðin 15 leiki og gerðu 10 jafntefli í 38 Evrópuleikjum. FH, Breiðablik, Stjarnan, KR og ÍBV náðu þar öll góðum úrslitum og bæði FH og Stjarnan komust í 4. umferð.

Víkingur og Breiðablik eru orðin tvö bestu lið landsins. Einvígi númer tvö um Íslandsmeistaratitilinn er þegar í gangi og nú safna þau stigum fyrir önnur íslensk lið með frammistöðu sinni í Evrópumótunum.