Guðrún Árný Karlsdóttir
Guðrún Árný Karlsdóttir — Ljósmynd/Ólöf Erla
Hefurðu áður komið fram á Þjóðhátíð? Já í fyrra en þá voru engir áhorfendur og það var upplifun. Ég veit að þetta verður stórbrotið.
Hefurðu áður komið fram á Þjóðhátíð?

Já í fyrra en þá voru engir áhorfendur og það var upplifun. Ég veit að þetta verður stórbrotið. Ég spila nánast alla daga í einkasamkvæmum, þar sem fólk er í stuði og það skapast svo rafmögnuð stemning þegar allir syngja saman. Ég get því ekki beðið eftir því að vera með alla brekkuna fyrir framan mig. Nú er komið að því, en ég hef oft verið í sumarbústað með fjölskyldunni um verslunarmannahelgi og velt því fyrir mér hvenær ég myndi skemmta í Eyjum.

Hvernig verður atriðið þitt?

Ég ætla að vera með texta á skjánum og fólk sem þekkir lögin nokkurn veginn verður þá með textana 100% á hreinu. En ég held að það megi segi að ég velji lög sem allir þekkja. Ég stend við píanóið, spila og syng. Þá get ég einnig gefið merki og stýrt samsöngnum. Ég verð með klukkutíma partísöng í framhaldi af frumflutningi á nýja Þjóðhátíðarlaginu á föstudagskvöldinu.

Hefurðu lengi tekið að þér partísöng?

Já ég hef gert eitthvað af því alla tíð en hef unnið markvisst að því í um það bil fimm ár. Hef byggt upp orðspor hægt og rólega því ég er ekki mikil samfélagsmiðlamanneskja. Ég ákvað því bara að vera þolinmóð, reyna að standa mig vel þar sem ég kem fram og bíða eftir því að fólk tali sín á milli um hvað þetta sé skemmtilegt. Mín upplifun er sú að við Íslendingar viljum svona partí. Þótt ég sé með fyrirframákveðinn lagalista á Þjóðhátíð, þá er annað fyrirkomulag í heimahúsum. Þá tek ég stundum eingöngu óskalög.