Álfheiður H. Hafsteinsdóttir kann hvergi betur við sig en úti í náttúrunni og helst á fjöllum. „Er það ekki bara Íslendingurinn í manni?“ spyr hún.
Álfheiður H. Hafsteinsdóttir kann hvergi betur við sig en úti í náttúrunni og helst á fjöllum. „Er það ekki bara Íslendingurinn í manni?“ spyr hún. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Álfheiður H. Hafsteinsdóttir er haldin ævintýraþrá og er staðráðin í að láta ekki lífið framhjá sér fara.

Álfheiður H. Hafsteinsdóttir er haldin ævintýraþrá og er staðráðin í að láta ekki lífið framhjá sér fara. Hún vinnur hjá fjárfestingarsjóði í New York en notar frítíma sinn til að ferðast, klífa fjöll, ganga yfir jökla, hlaupa maraþon og þar fram eftir götunum. Þá er hún með einleikarapróf og spilar á fiðlu í tveimur hljómsveitum vestra sér til ánægju og yndisauka. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Álfheiður H. Hafsteinsdóttir er nýkomin heim til Íslands í stutt frí þegar við hittumst á kaffihúsi í Reykjavík í vikunni. Aldrei þessu vant gerir hún ráð fyrir að halda sig fjarri fjöllum og jöklum að þessu sinni, enda til þess að gera nýkomin niður af Denali, hæsta fjalli Norður-Ameríku, og ævintýramanneskjan því enn þá með næringu í æð, ef þannig má að orði komast.

„Það er mánuður síðan ég kom niður af Denali,“ segir hún glaðlega. „Þegar maður mætir á svæðið finnst manni eins og það hljóti að taka heila eilífð að klifra þarna upp en svo er maður bara allt í einu búinn og kominn niður aftur. Að meðaltali tekur þetta um þrjár vikur en við vorum heppin með veður og gerðum þetta á tveimur og hálfri viku,“ bætir hún við.

Átta manns voru í hópnum, auk þriggja leiðsögumanna. Denali er í Alaska og var lengi nefnt McKinley-fjall en nafn frumbyggja á fjallinu var tekið upp opinberlega árið 2015. Það rís hæst 6.190 metra yfir sjávarmáli.

Aldrei á tjaldstæðinu

Fjallabakteríuna hefur Álfheiður beint frá foreldrum sínum, Hafsteini Sæmundssyni og Þórdísi Kolbeinsdóttur, en þau voru dugleg að fara með hana og bræður hennar í útilegur í æsku og þá helst upp á hálendið. „Við systkinin skildum að vísu ekkert í því á þeim tíma hvers vegna við vorum ekki á tjaldstæðinu með öllum hinum,“ rifjar hún upp hlæjandi.

Bakterían braust að vísu ekki fram alveg strax en eftir að Álfheiður hafði starfað um tíma á Manhattan, „langt fram á nótt uppi í einhverjum turni,“ eins og hún orðar það, fór náttúran að kalla hærra og hærra á hana. „Allar götur síðan hef ég leitað mikið eftir því að vera í náttúrunni. Er það ekki bara Íslendingurinn í manni?“

Hún byrjaði á að ferðast til „týndu borgar Inkanna“, Machu Picchu, sem stendur 2.430 metra yfir sjávarmáli á fjallsbrún yfir Urubambadalnum í Perú. „Ætli það hafi ekki verið upphafið á þessu fjallabrölti,“ segir hún.

Á þessum tíma voru foreldrar hennar nýkomnir niður af Hvannadalshnjúk og hvöttu hana til að fara þar upp við tækifæri. Hún lét ekki segja sér það tvisvar. „Eftir það var ég sannfærð um að ég yrði að eyða meiri tíma uppi á jöklum. Ég er alveg dugleg að fara í göngur frá New York en útsýnið er oft takmarkað í skóglendinu. Stundum þarf að ganga í marga klukkutíma til að komast yfir trélínuna.“

Varð að fara yfir Grænlandsjökul

Má hún þá frekar biðja um jöklana. „Ég fór að lesa mér til um heimskautafarana og sá í hendi mér að ég yrði að fara yfir Grænlandsjökul á gönguskíðum, sem ég þurfti reyndar að læra á,“ segir Álfheiður. Hún ferðast yfirleitt með vinum sem eru einnig vanir fjallgöngum og útivist eða, fyrir stærri leiðangra, með skipulögðum hópum undir eftirliti leiðsögumanna.

Vandamálið var hins vegar það að Bandaríkjamenn eru hvergi nærri eins orlofsglaðir og við hér á hjara veraldar. „Þar þykja tíu dagar langt frí,“ segir Álfheiður sem vann á þessum tíma hjá fjárfestingarbanka í New York. „Ég ákvað því að segja upp en lendingin varð sú að ég fékk ársleyfi frá störfum. Það notaði ég til að skíða yfir Grænlandsjökul, fara í undirbúningsferðir á Íslandi og í Noregi, klífa Kilimanjaro og ferðast til Nepal og Nýja-Sjálands.“

Sumsé bara hafa það huggulegt í fríinu.

Hún notaði leyfið einnig til að fara á klifurnámskeið og afla sér þekkingar til að geta ferðast sjálfstætt á fjöllum. Er mjög opin fyrir því að læra nýja hluti og þá af fólki sem vel kann til verka.

Að árinu loknu sneri hún aftur til New York en ákvað að breyta til og tók til starfa hjá fjárfestingarsjóði þar sem hún sinnti verkefnum á jafn ólíkum stöðum og Vestur-Virginíu, Noregi og Indlandi. „Fjármálaheimurinn í New York minnir um margt á hamsturshjól. Fólk er í stöðugu kapphlaupi við sjálft sig og aðra og stöðuhækkanir og titlar skipta öllu máli.“

Áður en hún lagði í ferðalögin, horfði fólk skilningsvana á Álfheiði og sagði: „En þú endar ári á eftir?!“

Laus milli verkefna

Í dag er hún í starfi sem á mun betur við hana, hjá fjárfestingarsjóðnum Capitol Investment Corp. í New York.

Að sögn Álfheiðar þarf að grípa tækifærin. „Starfið hjá sjóðnum er þannig að ég get verið bundin við skrifborðið í sex mánuði meðan ég vinn að tilteknu verkefni. Svo klárast það og þá losnar kannski mánuður áður en næsta verkefni tekur við. Þá sæti ég lagi og leggst í ferðalög og geri eitthvað skemmtilegt.“

Meðal annarra ævintýraferða má nefna að Álfheiður hefur gengið á Aconcagua í Argentínu, hæsta fjall Ameríku, 6.961 metra hátt, og farið í kjölfar Endurance og fótspor Ernests Shackletons til Suður-Georgíu. Það gerði hún á aldarafmæli þess fræga björgunarleiðangurs, 2016.

Það kom þannig til að sjóðurinn hennar fjárfesti í bandaríska ferðaþjónustufyrirtækinu Lindblad Expeditions árið 2015. Álfheiður vann mikið með stjórnendum þess í framhaldinu. „Lindblad siglir með fólk til stórfenglegra staða eins og Íslands – skip frá þeim voru hérna í Reykjavíkurhöfn um daginn, – Grænlands, Alaska, Galapagoseyja, Suðurskautslandsins, Falklandseyja og Suður-Georgíu. Teymið vissi af áhuga mínum og þegar mér var tjáð að pláss væri laust í siglingu til Suður-Georgíu þurfti ég ekki að hugsa mig um tvisvar.“

Án þess að það tengist Shackleton beint, þá voru synir Edmunds Hillarys og Tenzings Norgays, sem fyrstir komust á tind Everestfjalls, með í för, sem Álfheiður segir hafa gefið ferðinni skemmtilegan blæ.

Ólíkt meiri lúxus

„Þetta var ólíkt meiri lúxus en hjá Shackleton og félögum; fínt skip, fimm rétta máltíðir og sturta þegar maður vildi,“ segir hún hlæjandi. „En við fórum sömu leið. Það var sérstaklega gaman að standa uppi í fjallshlíðinni fyrir ofan Stromness, þar sem Shackleton á að hafa heyrt í flautunni í hvalveiðistöðinni í lok göngunnar. Þetta er mögnuð saga og ótrúlega gaman að koma á þessar slóðir. Það hafa ekki margir gert og enn færri þarna upp í fjöllin,“ segir Álfheiður. Aðeins níu manns voru í þessari göngu af um hundrað farþegum í siglingunni.

Þess má geta að hópurinn hitti einnig hóp af öðru skipi frá Lindblad, sem var þarna statt á sama tíma.

Shackleton og mönnum hans var bjargað eftir nær tveggja ára hrakninga. Hann sneri aftur til Suður-Georgíu nokkrum árum síðar og lést þar af völdum hjartaáfalls og hvílir í eynni, að ósk ekkju hans.

Álfheiður var þarna í lok október 2016, þegar vor er á þessum slóðum, og segir leiðangursmenn hafa fengið gott veður. „Það má ekki vera of kalt en samt þarf að vera nægur snjór og nógu kalt til að góðar snjóbrýr séu yfir jökulsprungurnar,“ segir hún.

Þegar kemur að ævintýrum sækir Álfheiður ekki alltaf vatnið yfir lækinn; þannig keyrði hún ásamt hundi sínum yfir Bandaríkin þver og endilöng síðasta haust. „Mig hafði lengi langað að gera þetta og kýldi bara á það með litlum fyrirvara. Það er hægt að vinna svo mikið í fjarvinnu. Hundurinn er of stór til að ferðast í farþegarýminu í flugvél og mig langaði að fara með hann í göngur í vesturhluta Bandaríkjanna því hann er mikill göngugarpur. Úr varð bráðskemmtilegt „road trip“,“ segir hún en ferðalagið var mjög lauslega skipulagt í kringum nokkrar vinaheimsóknir, en þess fyrir utan var tilfinningin þann daginn meira látin ráða för.

Þau skoðuðu meira en tíu þjóðgarða, þar á meðal Grand Canyon, sem hún hafði ekki gert í annan tíma, og fjölda annarra náttúrusvæða í Montana, Wyoming, Utah, Arizona, Colorado, Washington og Oregon, þar sem ströndin var í uppáhaldi og var heimsótt í tvígang. „Það var svo geggjað í Oregon að ég bara sneri við og fór aftur,“ rifjar hún upp hlæjandi.

Ísklifur og maraþonhlaup

Þess má geta að Álfheiður reynir að fara einu sinni á ári yfir til Washingtonríkis í fjallaferðir. „Helstu jöklafjöll Bandaríkjanna utan Alaska eru í Washington.“

Hún stundar líka ísklifur og segir fólk á öllum aldri vera í því sporti. „Það er einn rúmlega sextugur með mér í ísklifrinu og í klettaklifurs-klúbbnum mínum eru margir eftirlaunameðlimirnir miklu betri en ég.“

Hún hlær.

„Fólk velur sér auðvitað verkefni við hæfi en hjá flestum er það lífstíðarsport að vera á fjöllum.“

Í ljós kemur að Álfheiður er einnig víðavangshlaupari; hefur hlaupið Laugaveginn tvisvar sinnum, nokkrum sinnum tekið þátt í New York-maraþoninu og einu sinni í Reykjavíkurmaraþoninu.

– Ferðu þá heilt maraþon?

„Já,“ svarar hún og ég sé strax eftir þessari kjánalegu spurningu. Álfheiður hlær þegar hún sér svipinn á mér.

„Ég vil hafa fjölbreytni í þessu og leiðist að gera bara einn hlut. Þess vegna hleyp ég, geng og stunda styrktarþjálfun til skiptis. Ef maður er í góðu formi, þá eru öll þessi fjallaverkefni mun skemmtilegri.“

Símafundir á miðnætti

Álfheiður kemur gjarnan heim tvisvar á ári, um jól og áramót og á sumrin. Hún ætlar að stoppa í tæpar tvær vikur í þessari beimsókn en tvö undanfarin sumur dvaldist hún hér í sex vikur, sem helgaðist öðru fremur af heimsfaraldrinum sem þrengdi um tíma mun meira að New York-búum en Reykvíkingum. Álfheiður getur vitaskuld unnið fjarvinnu hér heima en segir það hvimleitt til lengdar út af tímamismuninum. „Bandaríkjamenn vinna gjarnan fram á kvöld og það er ekkert voðalega spennandi að fara á símafund á miðnætti.“

Hún brosir.

Hún gistir alltaf hjá foreldrum sínum en þau gættu þess þegar þau seldu húsið sitt og minnkuðu við sig að hafa pláss fyrir „útlendingana“ en yngri bróðir Álfheiðar, Hörður Logi Hafsteinsson, býr einnig í New York. Eldri bróðirinn, Hafsteinn Þór Hafsteinsson, býr hér á Íslandi.

Spurð hvers vegna hún sé með annað fjölskyldunafn í Bandaríkjunum, svarar Álfheiður því til að hún hafi fæðst þar, nánar tiltekið í Albany, höfuðborg New York-ríkis, þar sem foreldrar hennar voru á þeim tíma við nám. Þar notaði fjölskyldan Sæmundsson eftirnafnið. „Ég hef haldið mig við það. Það er mun auðveldara að kynna sig sem Sæmundsson en Hafsteinsdóttir í Bandaríkjunum,“ segir hún brosandi. „En ég á tvo passa með mismunandi nöfnum,“ bætir hún við en Álfheiður var þriggja ára þegar fjölskyldan flutti heim til Íslands.

Lauk einleikaraprófi á fiðlu

Enda þótt Álfheiður njóti mikillar útivistar í frístundum sínum, á hún sér annað ástríðukennt áhugamál sem hún þarf líka að sinna, tónlist.

„Ég byrjaði að spila á fiðlu þegar ég var níu ára. Það er frekar seint en best þykir að setja börn beint í Suzuki-skólann þriggja ára,“ segir hún brosandi.

Hún hóf nám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hjá Martin Frewer en þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík, þar sem kennarar hennar voru Guðný Guðmundsdóttir, fyrrverandi konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Lin Wei. Þaðan tók Álfheiður einleikarapróf. „Ég var á eðlisfræðibraut í MR og velti fyrir mér að skipta yfir á auðveldari braut til að hafa meiri tíma til að sinna tónlistarnáminu en stærðfræðikennarinn minn tók það ekki í mál,“ rifjar hún upp brosandi.

Álfheiður hafði ekki skýra hugmynd um framhaldið eftir stúdentspróf og því varð úr að hún fór í BA-nám, í bæði tónlist og stjórnmálafræði, við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Að því kom svo að hún tók praktíska ákvörðun og fór í MBA-nám. Réðist svo til starfa hjá fyrrnefndum fjárfestingarbanka í New York. „Ég vann allan sólarhringinn, svo að segja, til að byrja með og lagði fiðluna alveg frá mér; spilaði svo til ekkert í tíu ár.“

Byrjaði aftur eftir ökklabrot

Síðan ökklabrotnaði hún og gat ekki stundað útivist um tíma. Þá hafði gamall félagi úr Yale, sem leikur á píanó, samband og fékk hana til að spila með sér. „Það kom mér aftur af stað.“

– Þannig að ökklabrotið var í þeim skilningi blessun?

„Það má alveg líta þannig á það. Annars er maður aldrei alveg hættur að spila, held ég. Tónlistin togar alltaf í mann og ætli ég hefði ekki fundið leið inn í hana á ný, óháð þessu óhappi.“

– Hefurðu lent í fleiri alvarlegum meiðslum?

„Nei, ökklabrotið er það versta sem ég hef lent í en ég þurfti ekki að fara í aðgerð, það greri af sjálfu sér. Ég hef verið heppin með meiðsli og ekki lent í neinum sérstökum svaðilförum á ferðum mínum, þótt aðstæður komi manni mismikið á óvart.“

Að sögn Álfheiðar er margt gott tónlistarfólk í New York sem ekki vinnur við tónlist og áður en hún vissi af var hún komin á fulla ferð með fiðluna. „Það er alltaf gaman að finna fólk sem vill spila krefjandi og skemmtilega tónlist og það hefur mér tekist,“ segir Álfheiður, sem bæði er félagi í sinfóníuhljómsveitin Park Avenue Chamber Symphony og strengjasveitinni Mimosa Chamber Ensemble, auk þess að spila reglulega strengjakvartetta með meðlimum úr þessum hópum.

Heimsfaraldurinn setti starf beggja sveita að vonum úr skorðum en í vetur ætla menn að bæta sér það upp og stjórnandi sinfóníunnar er búinn að stilla upp metnaðarfullri dagskrá, sex tónleikum. Þar af reiknar Álfheiður með að verða með á fernum. „Stjórnandinn okkar hefur mikinn metnað fyrir því að kynna klassíska tónlist fyrir fólki sem þekkir ekki vel til á því sviði. Þannig að hann spjallar alltaf mikið við gesti á tónleikum okkar.“

Strengjasveitin kemur hins vegar ekki fram nema á einum tónleikum á ári og þá til styrktar heimilislausum í New York.

Ekki með fiðluna á fjöllum

– Tókstu fiðluna með þér til Suður-Georgíu eða upp á Denali?

„Nei, það gerði ég ekki,“ svarar hún hlæjandi. „Það fer ekki vel með fiðluna að vera í miklum kulda. Auk þess þarf auðvitað að passa upp á þyngdina í bakpokanum í fjallgöngunum. Ég hafði fiðluna hins vegar með mér í ferðina yfir Bandaríkin og spilaði með félaga mínum sem búsettur er í Seattle.“

– Þarftu ekki að passa vel upp á fingurna þegar þú ert á fjöllum og jöklum?

„Jú, ég má ekki fá kal. Einn félagi minn var nálægt því á Denali og mikill tími og orka fóru í að passa upp á puttana á honum en það slapp til. Sjálf er ég meðvituð um þetta, en hef ekki lent í neinum vandræðum í þeim efnum.“

Álfheiður kann vel við sig í Bandaríkjunum og reiknar með að búa þar áfram, enda þótt hún útiloki ekki að flytja heim til Íslands einhvern tíma í framtíðinni. „Ef ég hugsa um vinnuna, þá er sveigjanleiki að aukast mikið varðandi staðsetningu og Covid hefur sýnt okkur að margir geta unnið sína vinnu að miklu leyti heima. Annars held ég að ég sé víðsýn að upplagi, þannig að við sjáum bara til hvað gerist.“