Gull Shericka Jackson kemur fyrst í markið í Eugene í fyrrinótt.
Gull Shericka Jackson kemur fyrst í markið í Eugene í fyrrinótt. — AFP/Andrej Isakovic
Shericka Jackson frá Jamaíku varð í fyrrinótt heimsmeistari í 200 metra hlaupi kvenna og náði næstbesta tíma sögunnar í greininni þegar hún sigraði í úrslitahlaupinu á EM í Eugene á 21,45 sekúndum.

Shericka Jackson frá Jamaíku varð í fyrrinótt heimsmeistari í 200 metra hlaupi kvenna og náði næstbesta tíma sögunnar í greininni þegar hún sigraði í úrslitahlaupinu á EM í Eugene á 21,45 sekúndum.

Það er nýtt mótsmet og skammt frá hinu ótrúlega heimsmeti, 21,34 sekúndur, sem Florence Griffith-Joyner frá Bandaríkjunum setti á Ólympíuleikunum í Seoul árið 1988 og hefur staðið óhaggað síðan.

Jackson bar sigurorð af löndu sinni, Shelly-Ann Fraser-Pryce, hinum 35 ára gamla heimsmeistara í 100 metra hlaupinu. Fraser-Pryce fékk silfrið og hjjóp á 21,81 sekúndu. Dina Asher-Smith frá Bretlandi hlaut bronsverðlaunin á 22,02 sekúndum.

Shericka Jackson er 28 ára gömul og varð heimsmeistari í einstaklingsgrein í fyrsta sinn en hún hlaut gull með sveit Jamaíku í 4x100 m og 4x100 m boðhlaupum á heimsmeistaramótunum 2019 og 2015, og þá var hún í sigursveit Jamaíku í 4x100 m boðhlaupinu á Ólympíuleikunum í Tókýó á síðasta ári.

Sló met Johnsons

Noah Lyles sló 26 ára gamalt bandarískt met Michaels Johnsons í 200 metra hlaupi karla þegar hann sigraði í greininni í Eugene í fyrrinótt á 19,31 sekúndu.

Lyles, sem er 25 ára gamall, náði með því þriðja besta tíma sögunnar í greininni. Heimsmetið hjá Usain Bolt er 19,19 sekúndur, frá 2009, og Yohan Blake hljóp á 19,26 sekúndum árið 2011 en þeir eru báðir frá Jamaíku.