Norðurljós Erlendir ferðamenn flykkjast til landsins á veturna til að berja augum hin undrafögru norðurljós.
Norðurljós Erlendir ferðamenn flykkjast til landsins á veturna til að berja augum hin undrafögru norðurljós. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Til stendur að byggja upp aðstöðu til norðurljósa- og stjörnuskoðunar í aflagðri hraunnámu við Snókalönd. Svæðið er 15 hektarar að stærð og liggur norðan Bláfjallavegar og austan Krýsuvíkurvegar. Landslag ehf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Til stendur að byggja upp aðstöðu til norðurljósa- og stjörnuskoðunar í aflagðri hraunnámu við Snókalönd. Svæðið er 15 hektarar að stærð og liggur norðan Bláfjallavegar og austan Krýsuvíkurvegar.

Landslag ehf. hefur unnið að gerð deiliskipulags svæðisins fyrir Hafnarfjarðarbæ. Á fundi bæjarráðs 16. júní 2022 var samþykkt að senda skipulagslýsinguna í auglýsingu í samræmi við skipulagslög.

Árið 2019 fékk fyrirtækið Basecamp Iceland ehf. stöðuleyfi frá Hafnarfjarðarbæ til að kanna hvort forsendur væru fyrir uppbyggingu á aðstöðu til norðurljósa- og stjörnuskoðunar í gömlu hraunnámunum við Snókalönd. Uppbyggingu lauk fyrir árslok sama ár og svæðið þá tilbúið til móttöku viðskiptavina.

Aðsóknin í aðstöðuna var góð og eftir að starfsemi hófst varð ljóst að útivistarfólk á svæðinu hefur einnig áhuga á að nýta sér þjónustu á þessu svæði. Aukinn fjöldi notenda krefst frekari uppbyggingar innviða svæðisins, segir í skipulagslýsingunni. Við undirbúning að gerð deiliskipulagsins þurfi að skoða hverjar áherslurnar eiga að vera innan svæðisins. Meta þarf hvort þjónusta eigi eingöngu þá sem hafa áhuga á norðurljósum og stjörnuskoðun eða hvort einnig eigi að þjónusta þá sem stunda útivist á svæðum í kring. Svæðið er innan Hverfisverndarsvæðis HVb5 Kapellu- og Óbrinnishólahraun en það er svæði sem þegar er raskað og undanþegið hverfisvernd. Nokkur mosagróður hefur vaxið upp á svæðinu eftir að námunni var lokað. Hraunin á þessu svæði eru með þeim yngstu í Hafnarfirði.

Almenningur getur kynnt sér skipulagslýsinguna á vef Hafnarfjarðarbæjar og athugasemdafrestur er til 18. ágúst nk.