Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 9,9% á síðustu tólf mánuðum. Að undanskildu húsnæði hefur vísitalan hækkað um 7,5%. Verðbólgan hefur ekki mælst jafn há frá hruninu.

Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 9,9% á síðustu tólf mánuðum. Að undanskildu húsnæði hefur vísitalan hækkað um 7,5%. Verðbólgan hefur ekki mælst jafn há frá hruninu. Þórður Gunnarsson hagfræðingur telur að verðbólgan gæti reynst þrálát og staðið yfir langt fram á næsta ár. „Það tekur tíma að kæla niður fasteignamarkaðinn og við sáum að hann hækkaði um 2,2% í síðasta mánuði. Bara það eitt og sér verkar til um það bil helmings af þessari hækkun í júlí,“ segir Þórður.

Hann bætir því svo við að alþjóðlegt hrávöruverð muni einnig halda áfram að ýta undir verðbólguna.

Lækkun skatta á eldsneyti

„Þótt við fáum ekki þessar orkuverðshækkanir í fangið, eins og aðrir í Evrópu, þá hefur þetta áhrif á allan framleiðslukostnað og þar með á okkar aðfangaverð. Þótt Seðlabankinn þurfi að hækka vexti til að bregðast við verðbólgunni, þá er hluti af þessum verðlagshækkunum nokkuð sem hann getur fátt gert til þess að hafa áhrif á.“

Þórður segir að lækkun skatta á eldsneyti hér á landi gæti haft jákvæð áhrif á verðbólguna nú þegar heimshagkerfið virðist stefna í samdrátt, enda er hækkandi olíuverð stór ástæða innfluttrar verðbólgu.

„Við erum svo gott sem komin með tveggja stafa verðbólgu. Það sem við þurfum meira að velta fyrir okkur er hvað það taki langan tíma að sía þessa verðbólgu í gegnum kerfið, bæði hérlendis og erlendis, og hvernig við getum brugðist við því,“ segir Þórður. logis@mbl.is