[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar breski fornleifafræðingurinn Sir Arthur Evans var við uppgröft á Knossos á Krít um aldamótin 1900 fann hann leirtöflur frá öðru árþúsundi f.Kr. með óþekktu letri.

Þegar breski fornleifafræðingurinn Sir Arthur Evans var við uppgröft á Knossos á Krít um aldamótin 1900 fann hann leirtöflur frá öðru árþúsundi f.Kr. með óþekktu letri. Við nánari skoðun kom í ljós að um er að ræða tvær leturgerðir, nefndar línuletur A og B. Mun fleiri áletranir eru með línuletri B en A og því byrjaði Evans á að reyna að ráða það en án árangurs. Hann var aðeins sannfærður um eitt: málið á textunum væri ekki gríska heldur mál horfinnar siðmenningar á Krít. Þegar leirtöflur með þessu letri fundust á Pelópsskaga sýndi það þó að línuletur B var ekki bara notað á Krít heldur líka á meginlandi Grikklands.

Starf Evans varð grunnur að frekari rannsóknum á þessu dularfulla letri. Miklu munaði um framlag bandarísks fornfræðings að nafni Alice Kober. Hún tók eftir því að sömu táknin virtust mynda orð sem komu fyrir aftur og aftur, nema hvað kerfisbundin víxl voru í enda orðanna. Af þessu ályktaði hún að tungumálið hefði beygingar; breytileiki sem birtist í lok orða benti til þess að þau væru í ólíkum föllum. Áður en Alice Kober auðnaðist að ljúka verki sínu dó hún óvænt 43 ára að aldri árið 1950.

Rannsóknir hennar komu þrítugum enskum arkítekt, Michael Ventris, að góðu gagni. Frá unglingsárum hafði hann verið gagntekinn af ráðgátunni um línuletur B. Ventris var mikill tungumálagarpur og gekk mjög skipulega til verks. Auk þess að styðjast við athuganir Alice Kober og annarra fræðimanna hafði hann m.a. hliðsjón af letri sem svipar til letursins frá Krít og notað var í fyrndinni til að rita gríska mállýsku á eyjunni Kýpur. Eftir að hafa legið öllum stundum yfir ráðgátunni, á kostnað starfsframa og fjölskyldulífs, komst Ventris að óvæntri niðurstöðu árið 1952: málið á áletrununum með línuletri B var gríska. Þetta málstig er nefnt mýkenska og er mjög fornlegt, t.d. eru þar sjö föll en ekki fimm eins og í klassískri grísku á 4.-5. öld f.Kr. Það er ekki að undra þar sem leirtöflurnar eru frá tímabilinu 1400-1200 f.Kr. Fram að því höfðu Hómerskviður frá 8. öld f.Kr. verið taldar elstu heimildir um grísku. Þekking okkar á grísku máli, menningu og sögu færðist þar með aftur um margar aldir. Það er annar handleggur að mýkensku textarnir eru ekki merkilegar bókmenntir heldur fyrst og fremst listar með þurrum upptalningum, m.a. á varningi sem geymdur var í höllum á Suður-Grikklandi. Það er eins og helstu ritheimildirnar frá okkar dögum væru vörulistar frá Bónus.

Af Ventris er það að segja að hann varð enn skammlífari en Alice Kober og dó í bílslysi 1956, aðeins 34 ára gamall. Samstarfsmaður hans, John Chadwick, hélt áfram rannsóknum hans og kynnti þær ötullega fyrir fræðimönnum og almenningi. Línuletur A, sem virðist eldra en B, er hins vegar enn óráðið; lausnin bíður einhvers framtíðarsnillings – eða kannski öflugs tölvuforrits.

Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is