Kristbjörg Ámundadóttir fæddist 11. desember 1943. Hún lést 9. júlí 2022. Útför Kristbjargar fór fram 15. júlí 2022.

Krissa mín kvaddi laugardaginn 9. júlí síðastliðinn, líkaminn orðinn þreyttur þótt gleðin sem alltaf var hennar megineinkenni skini enn í gegn. Það er því bæði með sorg í hjarta yfir mínum missi og feginleika fyrir hennar hönd að ég kveð hana og óska henni góðrar ferðar í nýja heima. Þar syngur hún örugglega „Are you lonesome tonight“ og ég er viss um að nú getur hún dansað og tjúttað á ný. Krissa elskaði að tjútta og syngja og þau voru ófá böllin sem við sóttum í Þórskaffi á sínum tíma.

Við Krissa kynntumst í Sjálfsbjörgu (í Hátúni 12) og þar unnum við saman í fjögur ár. Við urðum mjög fljótlega bestu vinkonur og ríkti sú vinátta í 44 ár. Ég gæti talið upp margar minningar frá þessum árum um hana Krissu mína. Hún var góð trúnaðarvinkona, hlustaði og gaf alltaf góð ráð. Hún var með mér þegar ég gekk með og eignaðist Berglindi dóttur mína, og okkur fannst báðum að hún ætti alltaf pínupons í henni. Alltaf vildi hún fá fréttir af Berglindi, ekki síst eftir að barnabörnin komu til sögunnar, þeim vildi hún fá að fylgjast með og kynnast, þó ekki væri nema í gegnum mínar sögur.

Með tímanum varð Krissa ekki bara góð vinkona mín, heldur allrar fjölskyldunnar minnar, þar á meðal foreldra minna. Hún heimsótti þau reglulega síðustu árin þeirra og veit ég að þau glöddust alltaf yfir heimsóknunum. Alltaf vildi hún vita hvað nánasta frændfólk mitt hefðist við og hugsar fjölskyldan öll til hennar með hlýju og söknuði.

Covid-tíminn var engum auðveldur og fjarlægðin frá Akureyri þar sem ég hef búið síðasta árið gerði hittinga illmögulega en alltaf var Krissa til staðar og passaði upp á að halda sambandi gegnum síma.

Ég er henni þakklát fyrir trausta og góða vináttu, hláturinn, fíflaganginn, sönginn og allt sem við bardúsuðum síðustu 44 árin.

Dætrum Krissu og fjölskyldum þeirra sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Þóra Jónasdóttir.

Ég og fjölskylda mín kveðjum hana hana Krissu „frænku“ með söknuði, þakklæti og auðmýkt í huga. Þessi sterka, skemmtilega og flotta kona skilur eftir margar góðar minningar sem ylja. Ég kynntist henni fyrir tæpum 20 árum og fann fljótt að þarna var vönduð kona á ferð. Krissa var mikill mannvinur og næm á tilfinningar annarra. Hún var einstaklega barngóð og áttu Katrín Alda systurdóttir mín og dóttir mín Sigurveig margar gæðastundir með henni á sínum æskuárum og sýndi hún þeim ávallt mikla hlýju og áhuga. Krissa var sjálfsagður gestur í hinum ýmsu fjölskylduboðum og ferðum og alltaf gott að koma í heimsókn til hennar. Hún var svo gefandi á sinn einstaka hátt og hafði sérlega góða nærveru og gaman að gantast og hlæja með henni. Krissa var góður hlustandi og ávallt tilbúin að vera til stuðnings fyrir sitt fólk og aðra. Hún sinnti fjölskyldu sinni af mikilli alúð og umhyggju og var stolt af dætrum sínum og þeirra afkomendum. Ég vil votta þeim öllum mína innilegustu samúð og megi minning um góða konu lifa áfram og veita styrk. Kær kveðja frá Dísu „systur“ eins og Krissa kallaði mig.

Arndís Þorsteinsdóttir.

Í dag kveðjum við baráttukonuna Kristbjörgu Ámundadóttir. Ef einhver manneskja hefði átt skilið að eiga áhyggjulaust ævikvöld var það hún, en svo varð ekki. Samt yfirgaf hlýjan og húmorinn hana aldrei. Ég kynntist henni haustið 1973. Hún sýndi mér ungri stúlku vináttu, virðingu og athygli. Elsku Krissa. Þú varst mín fyrirmynd, systir, mamma og trygg vinkona öll árin sem við áttum saman. Við gátum alltaf fundið lausnir og stutt hvor aðra. Takk fyrir allar stelpurnar þínar. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér. Núna getur þú dansað, sungið og skemmt þér alla daga. Þú átt það skilið. Þú varst hetja sem gafst aldrei upp. „Guð gefi þér gott alltaf.“

Kveðja,

Ásdís Ólafsdóttir.