Pálína Guðrún Gunnarsdóttir var fædd í Breiðutorfu í Svínafelli, Öræfum, 23. nóvember 1929. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Silfurtúni 16. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Gunnar Jónsson bóndi Svínafelli, f. 31.1. 1891, d. 14.12. 1967, og Þuríður Sólveig Pálsdóttir húsfreyja Svínafelli, f. 20.8. 1897, d. 28.10. 2006. Systkini Pálínu eru: Guðlaugur, f. 17.9. 1924, d. 7.6. 2013, Þuríður, f. 29.9. 1926, d. 17.11. 2012, Jón Ólafur, f. 6.1. 1934, Halla Þuríður, f. 26.5. 1935, Jóhanna, f. 10.9. 1936, og Kjartan, f. 17.1. 1940.

Pálína Guðrún giftist 1. janúar 1955 Svavari Magnússyni, f. 8. apríl 1926, d. 15. febrúar 2012. Pálína og Svavar eignuðust fimm börn: 1) Sigríður Jóna, f. 16. júní 1954, maki Jóhann Eysteinn Pálmason, f. 1. júlí 1949. Börn þeirra eru 1. Pálína Kristín, f. 11. júní 1975, maki Guðmundur Freyr Geirsson og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn. 2. Pálmi, f. 1. mars 1979, maki Anna Sigríður Grétarsdóttir og eiga þau þrjú börn. 3. Svavar Magnús, f. 24. febrúar 1983, maki Rakel Magnea Hansdóttir og eiga þau þrjú börn. 4. Svana Hrönn, f. 29. nóvember 1985, í sambúð með Hlöðveri Inga Gunnarssyni og eiga þau tvö börn. 5. Sólveig Rós, f. 9. júlí 1987, maki Eiður Gils Brynjarsson og eiga þau þrjú börn. 2) Gunnar Örn, f. 2. febrúar 1956, d. 5. september 2020, eftirlifandi maki Guðný Ágústa Skúladóttir. 3) Guðgeir Svavarsson, f. 4. maí 1961, maki Kristín Ármannsdóttir, f. 25. mars 1963. Börn þeirra eru: 1. Ármann Veigar, f. 28. ágúst 1981, maki Ástrún Eva Sívertsen og eiga þau einn son. 2. Svavar Páll, f. 5. júlí 1986, maki Momoko Taguchi. 3. Lára Guðríður, f. 29. nóvember 1989, maki Styrmir Sigurðsson og eiga þau tvö börn. 4) Sigmar, f. 30. mars 1967, maki Valborg Reisenhus, f. 29. desember 1967. Synir þeirra eru 1. Alexander Dagur, f. 18. desember 2004. 2. Arnar Páll, f. 15. febrúar 2008. 5) Margrét, f. 20. júlí 1968, maki Sigurður Helgason, f. 14. desember 1971. Synir þeirra eru 1. Svavar Örn, f. 2. mars 1999. 2. Helgi Jón, f. 6. mars 2002.

Pálína Guðrún ólst upp hjá foreldrum sínum að Svínafelli í Öræfum. Um tvítugt lá leið hennar til Reykjavíkur og þaðan í Dalina sem kaupakona að Sauðafelli. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Svavari Magnússyni. Árið 1954 kaupa þau jörðina Skörð í Miðdölum og flytja þangað 10. júní sama ár. Eftir að börn þeirra fóru að vaxa úr grasi fór Pálína að vinna utan heimilis samhliða búskaparstörfum. Pálína var virk í félagslífi alla sína tíð og má þar nefna að hún var félagi í Kvenfélaginu Fjólu og einn af stofnendum handverkshópsins Bolla. Haustið 1995 hætta þau búskap og flytja í Búðardal, voru fyrsta árið í leiguhúsnæði en flytja þaðan í nýtt hús að Gunnarsbraut 1. Árið 2009 flytjast þau á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Silfurtún þar sem hún dvaldi til æviloka.

Útförin fer fram frá Kvennabrekkukirkju á morgun, sunnudaginn 24. júlí 2022, klukkan 14.

Streymt verður beint frá athöfninni á slóðinni:

www.kvikborg.is

Þegar ég var yngri var ég ótrúlega stolt af því að amma Palla væri amma mín. Það voru svo margir sem kölluðu hana ömmu en hún var samt ekki amma þeirra. Það tók mig smátíma að átta mig á því af hverju aðrir krakkar kölluðu hana ömmu en það var einfalt. Hún var með stærsta og besta faðminn, það voru allir velkomnir til hennar og hún átti alltaf pláss í hjartanu fyrir þá sem vildu. Hún var jákvæð og hafði einstakan hæfileika til að gleðja fólk með fallega brosinu sínu og smitandi hlátrinum. Ég skil vel að þau vildu eiga hana fyrir ömmu.

Ég kom oft á sumrin til ömmu og afa í Búðardal, sat með ömmu í Bolla, las bækur og steikti með henni kleinur. Ég hugsa alltaf til ömmu þegar ég fæ mér kleinu því sem barn borðaði ég bara kleinurnar hennar ömmu, helst nýsteiktar, það voru bara engar kleinur betri.

Takk fyrir allt, elsku amma, þín verður sárt saknað.

Þín

Lára Guðríður.

Elsku Palla okkar er fallin frá. Palla okkar sem var svo góð og hlý en eftir situr minning um yndislega frænku og systur.

Palla frænka var mér sem móðir og börnunum mínum sem amma og þau kalla hana auðvitað Pöllu ömmu. Hún prjónaði handa þeim peysur, sokka og framúrstefnulega vettlinga. Þegar Gunnar Páll minn var lítill steikti hún kjötbollur handa honum svo hann hefði eitthvað almennilegt að borða. Hún sagði að hann væri líka skírður í höfuðið á sér sem er alveg rétt. Krakkarnir muna svo vel eftir því að fara til Pöllu á Silfurtún og leika með bílana sem hún átti í skúffu, svo átti hún líka alltaf gotterí handa þeim.

Ég eyddi ótal sumrum hjá Pöllu og Svavari í Dölunum og á svo margar góðar minningar þaðan. Palla var svo skemmtilegur karakter, til dæmis um það er að þegar ég var kannski 11-12 ára fór Palla í það að læra á bíl. Margar stundir það sumar var hún að vinna í eldhúsinu og ég að lesa fyrir hana í Ökunámsbókinni og spyrja hana út úr. Áður en hún fékk bílprófið fór hún á hesti í vinnuna, hún sagði líka „að pæla“ þegar hún var að hugsa um hluti, ég man að ég hugsaði oft: „Ég vil vera eins og Palla.“

Mamma og Palla unnu saman í Iðnó í gamla daga og þegar Palla og Svavar fóru að búa í Skörðum fór hún stundum til þeirra til að létta undir með þeim. Hin seinni ár töluðu þær reglulega saman í síma og stundum í myndsímtali. Mamma mun sakna sárt þessara stunda.

Við vorum svo heppin að hafa Pöllu í okkar lífi svona lengi, fjölskyldu Pöllu vottum við okkar dýpstu og innilegustu samúð.

Takk fyrir allt og allt, elsku Palla, hvíl í friði.

Halla Þuríður Gunnarsdóttir,

Halldóra Guðlaug,

Steinar Þórarinsson,

Gunnar Páll Steinarsson, Halla Þuríður Steinarsdóttir,

Ágúst Ingi Steinarsson,

Veigar Kári Steinarsson.

Við sem fengum að þekkja Pöllu vorum öll ótrúlega heppin. Hvort sem um var að ræða lopapeysu fullkomlega prjónaða á hraða sem er bara hægt að kalla óskynsamlegan, nýsteiktar kleinur eða hlýtt faðmlag og nærveru var alltaf gott að koma í heimsókn í Búðardalinn til ömmunnar okkar allra.

Það er ekki oft sem maður fær tækifæri til þess að kynnast náfrændfólki sínu í sögulegu samhengi, oftast vegna þess að því hefur ekki enst ævin – en ég kalla mig innilega heppinn að hafa fengið að kynnast Pöllu í alveg nýrri vídd síðastliðið sumar. Það falla stundum í fangið á mér furðulegar fyrirspurnir, ein slík kom síðasta sumar þegar vinur minn og rithöfundur frá Bandaríkjunum sendi mér línu og sagði mér að hann væri að skrifa bók um prjónamenningu á Íslandi. Í sömu andrá spurði hann líka hvort ég þekkti einhvern sem gæti rifjað upp upphaf nútímalegrar verslunar með afurðir úr lopa. Þér kemur líklega ekki á óvart, þar sem ég geri ráð fyrir að þú þekkir Pöllu líka, að hún kom mér fyrst til hugar og að engin önnur kom til greina.

Hún, eins og allt gott fólk, átti fyrst um sinn erfitt með hégómann fólginn í því að rekja sína eigin sögu en þegar við vorum komin í gírinn komu fram þessar líka feikimögnuðu sögur úr æsku hennar sem eru búnar að festa sig kirfilega í huga mér. Sögur af æsku hennar í Breiðutorfu, uppljóstranir um hvernig ný prjónamunstur dreifðust á milli bæja, hugmyndafræði, upphaf og stofnun prjónasamlagsins Bolla, hvað henni þótti skemmtilegt að prjóna sérstök munstur eftir pöntun barnabarnanna og hvernig þau þróuðust – úr hestum, yfir í bíla, og núna nýjast – þyrlur.

Það var á endanum þriggja manna hópur sem fékk að heimsækja Pöllu, eitthvað sem hann virtist álíta pílagrímsferð. Ég held að ég muni seint gleyma ljómanum í augum þessa fræðafólks um lopa og hannyrðir þegar Palla útskýrði smáatriði prjónaskapar sem ég er engan veginn nógu fróður til að skilja. Vafalaust fól merkilegasta sagan í sér mynstrið sem við könnumst svo vel við úr peysunum hennar, sexhyrningslaga áferð sem virðist liggja ofan á peysunni. Það sem hún kallaði „færeyskt mynstur“. En það var víst ekki að ástæðulausu að hún kallaði mynstrið færeyskt, hún lærði það með því að skoða peysur sjómanna sem höfðu orðið skipreika nálægt Breiðutorfu.

Þrátt fyrir að hafa upphaflega varað okkur við því að hún hefði líklega ekki orkuna í langt samtal sátum við fimmmenningarnir saman í rúma þrjá klukkutíma. Ég held að við höfum öll verið léttari og betri eftir þetta samtal.

Að sjálfsögðu gaf Palla mér í lok heimsóknarinnar lopapeysu og húfu, en í fyrsta skipti ekki eitthvað sem hún prjónaði með mig í huga, heldur lopa fyrir mitt fyrsta kríli – með þessu einkennandi færeyska mynstri. Ég hlakka til að dreifa áfram sögunum hennar Pöllu, minningu hennar og persónu til næstu kynslóðar fólksins frá Breiðutorfu.

Til fjölskyldu Pöllu sendi ég dýpstu samúðarkveðjur.

Kveðja,

Eyþór Máni

Steinarsson.