Guðbjörg Karólína Karlsdóttir fæddist í Reykjavík 18. apríl 1947. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hólmavík 12. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Karl Ferdinand Thorarensen, f. 8.10. 1909, d. 28.2. 1996, vélsmiður frá Gjögri, og Regína Emilsdóttir Thorarensen, f. 29.4. 1917, d. 22.4. 2006, fréttaritari frá Stuðlum í Reyðarfirði.

Systkini Guðbjargar eru:

1) Hilmar Friðrik Thorarensen, f. 8.6. 1940. 2) Guðrún Emilía Karlsdóttir, f. 17.11. 1948. 3) Emil Thorarensen, f. 1.1. 1954.

Guðbjörg giftist Búa Þór Birgissyni frá Skagastönd en þau slitu samvistum. Synir þeirra eru: 1) Birgir Heiðar Búason, f. 8.9. 1965, hann er kvæntur Ásu Karítas Arnmundsdóttur, f. 12.6. 1965. Þeirra synir eru Búi Þór, f. 29.12. 1989, kvæntur Huldu Rannveigu Pétursdóttur, og Konráð Ingi, f. 11.12. 1995, sambýliskona Olga Mazur. 2) Karl Heimir Búason, f. 13.8. 1969, kvæntur Fanneyju Jónu Gísladóttur, f. 14.10. 1982. Sonur þeirra er Fannar Búi, f. 9.1. 2018. Fanney á fyrir synina Ragnar Björn og Gísla Valgeir Ingasyni.

Gugga, eins og hún var kölluð í daglegu tali, ólst upp á Gjögri í Árneshreppi á Ströndum. Fjölskyldan flutti árið 1962 á Eskifjörð. Þar vann Guðbjörg við fiskverkun, síldarsöltun og í rækjuvinnslunni hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar og Friðþjófi. Guðbjörg flutti árið 2001 á Drangsnes, en þar leið henni afar vel. Á Drangsnesi starfaði Guðbjörg hjá Drangi við fiskverkun.

Útför Guðbjargar fer fram frá Eskifjarðarkirkju í dag, 23. júlí 2022, klukkan 11. Útförinni verður streymt frá Facebooksíðu Eskifjarðarkirkju.

Í dag kveðjum við móðursystur okkar, elsku hjartans Guggu frænku, eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Í þetta sinn lagði meinið hana að velli, þrátt fyrir járnvilja harðduglegrar konu. Já, „í þetta sinn“ segjum við og skrifum. Hún hafði nefnilega fengið krabbamein áður, þá á fertugsaldri, í þá daga sem krabbamein var talið vera líflátsdómur. Um var að ræða sjaldgæfa og herskáa tegund en Gugga frænka bar sigur úr býtum í glímunni þá og það ætlaði hún sér að gera í þetta sinn einnig. Þegar þessari læknismeðferð lyki ætlaði hún að drífa sig heim til að baka brúntertur og vökva „kaktusaskrattana“, eins og hún orðaði það sjálf!

Við höfðum á Guggu tröllatrú enda var hún engin venjuleg kona. Hún vann erfiðsvinnu alla sína tíð og nánast fram á síðasta dag. Hún var alltaf að, hvort sem það var vinna, handavinna, sýsla við plönturnar sínar eða baka. Sætabrauðið hennar hefur lengi notið verðskuldaðrar frægðar, innan fjölskyldunnar sem utan hennar, enda bragðbetra og vandaðra bakkelsi vandfundið. Þrátt fyrir mikið annríki helgaði Gugga sig stórfjölskyldunni sinni af mikilli alúð, nærgætni og væntumþykju. Hún var alltaf til í spjall og heimili hennar stóð okkur alltaf opið. Okkur eru minnisstæð jólaboðin hennar á aðfangadagskvöldi ár eftir ár í Bleiksárhlíðinni á Eskifirði á uppvaxtarárum okkar, þar svignuðu borðin bókstaflega undan heimabökuðu kræsingum. Gugga vildi alla tíð fylgjast með systkinabörnum sínum og síðar systkinabarnabörnum. Faðmlög hennar voru engu lík; þétt, löng og hlý. Hún var sönn og gegnheil manneskja og frá henni stafaði mikil hlýja, sem við eigum eftir að sakna sárt.

Elsku Gugga okkar, við kveðjum þig nú að sinni með hjarta okkar barmafullt af sorg og söknuði en einnig þakklæti fyrir góða tíma og allar yndislegu minningarnar sem við eigum um umhyggjusama frænku með björtu, fallegu og nærandi nærveruna sína. Við viljum þakka þér fyrir hversu hlý þú varst og traust og hvað þú hefur alltaf látið þig velferð okkar varða.

Elsku Biggi, Kalli og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megi góður guð veita ykkur styrk í sorginni. Minning um góða manneskju lifir áfram.

Hvíl í friði, elsku hjartans frænka.

Láttu nú ljósið þitt

lýsa upp rúmið mitt,

hafðu þar sess og sæti

signaður Jesús mæti.

Ég fel í sérhvert sinn

sál og líkama minn

í vald og vinskap þinn

vörn og skjól þar ég finn.

(Hallgrímur Pétursson)

Ragna, Katrín, Hildur og Alma Rún Rúnarsdætur.

Með ást og hlýju minnist ég vinkonu minnar Guðbjargar Karlsdóttur eða Guggu eins og hún var alltaf kölluð, sem lést 12 júlí. Við kynntumst á Eskifirði, þá ungar konur báðar að byrja búskap og áttum heima hvor á móti annarri um tíma. Við vorum fljótar að ná saman og urðum strax góðar vinkonur. Þessi vinátta hefur haldist öll þessi ár þó við byggjum hvor á sínu landshorninu. Gugga hafði sterka persónu, hún var ákveðin og stóð fast á sínu. Hún hafði góða nærveru, var einstaklega hjartahlý og yndisleg í alla staði.

Ég held því fram að þetta blessaða líf okkar sé ein stór óvissuferð. Það er misjafnt gefið, sumir fá góð spil og aðrir slæm. Elsku Gugga mín fékk ekki góðu spilin því lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá henni.

Hún var búin að ganga í gegnum marga erfiða tíma í sínu lífi. Ég á eftir að sakna símtalanna okkar. Við vorum duglegar að hringja hvor í aðra, og þegar maður spurði eins og bjálfi hvernig gengi þá var svarið alltaf „þetta gæti nú verið aðeins skárra“ eða „þetta gæti verið verra“ (þó vissi maður betur). Aldrei heyrði maður hana kvarta, á hverju sem gekk, og það var aðdáunarvert hvernig hún tókst á við veikindi sín. Það var einstakt hvað hún gat séð björtu hliðarnar á lífinu sem lék hana svo grátt.

Hún fór í gegnum þetta allt á hörkunni þessi elska og var alger hetja. Þessi kveðjuorð segja lítið en einlægar þakkir eiga þau að færa fyrir yndislega vináttu og tryggð í gegnum árin.

Elsku Gugga, minningarnar sem ég á um þig senda hlýju í hjartað. Þær geymi ég og gleymi aldrei.

Ég bið almættið að umvefja þig og ljóssins engla að lýsa veginn þinn til bjartari og betri heima.

Ást og friður fylgi þér.

Fegurstu perlur

fjaðra sinna

hún foldinni gefur.

Aldan niðar

við unnarsteina

og Ísland sefur.

(Davíð Stefánsson)

Ástvinum öllum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Margrét Geirsdóttir

(Magga).