Slagharpan er ekki langt undan, þó Jónas Ingimundarson sé sestur í helgan stein. Þegar mest var spilaði hann á 70 til 90 tónleikum á ári, frá 1967 til 2017.
Slagharpan er ekki langt undan, þó Jónas Ingimundarson sé sestur í helgan stein. Þegar mest var spilaði hann á 70 til 90 tónleikum á ári, frá 1967 til 2017. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allt útgefið efni með píanóeinleik Jónasar Ingimundarsonar og margt sem aldrei hefur komið út er nú aðgengilegt á streymisveitunni Spotify. Sjálfur hefur Jónas haft yndi af því að líta um öxl af þessu tilefni enda sestur í helgan stein.

Allt útgefið efni með píanóeinleik Jónasar Ingimundarsonar og margt sem aldrei hefur komið út er nú aðgengilegt á streymisveitunni Spotify. Sjálfur hefur Jónas haft yndi af því að líta um öxl af þessu tilefni enda sestur í helgan stein. „Ég læt mig bara berast með straumnum og leyfi þessu að fljóta inn í framtíðina. Ég er ekki að reisa mér minnisvarða en þetta er hluti af okkar sögu; ég get ekki svarið af mér þátttöku í íslensku tónlistarlífi í fimmtíu ár,“ segir hann. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Það er gestkvæmt hjá Jónasi Ingimundarsyni og Ágústu Hauksdóttur, eiginkonu hans, þegar mig ber að garði. Söngvararnir Sverrir Guðjónsson og Ingveldur Ýr Jónsdóttir láta fara vel um sig í betri stofunni og á fóninum ómar fögur tenórrödd Garðars Thors Cortes. „Snert hörpu mína, himinborna dís, svo hlusti englar guðs í Paradís,“ syngur hann og Jónas hefur taumhald á Steinway-flyglinum. „Leyndarmálið er að fylgja melódíunni eins og skugginn, „gefa og taka“, plús og mínus kveikir ljós,“ upplýsir hann áður en hann stendur upp til að heilsa mér. „Hingað inn kemur enginn án þess að hlusta á músík – hvort sem honum líkar betur eða verr!“ segir Jónas og tekur um handleggina á mér. Ég ætti að þola þá meðferð.

Heimili hjónanna hefur verið eins og brautarstöð fyrir söngvara gegnum tíðina og fyrir mörgum árum spurðu vinkonur dóttur þeirra hvort tröll væri í heimsókn þegar þær komu með henni heim eftir skóla. Byggðu þá kenningu á skónum sem blöstu við þeim í forstofunni. „Já,“ svaraði Jónas án þess að blikna. „Viljiði sjá?“ Það héldu þær stuttu nú. Og hver tók á móti þeim? Jú, rétt hjá ykkur. Kristinn Sigmundsson, sem söng fyrir hópinn.

Lækkaði í mér hljóðið

Fundum okkar Jónasar hefur oft borið saman gegnum tíðina en ég veiti því athygli nú að honum liggur lægra rómur. „Hann er búinn að tala nóg þessi,“ mun Guð almáttugur hafa hugsað með sér. „Svo hann lækkaði bara í mér hljóðið,“ segir Jónas og gamli góði stríðnisglampinn lætur á sér kræla í augunum. Ætli húmorinn verði ekki það seinasta sem almættið hefur af Jónasi.

„Fyrst Morgunblaðið er komið verð ég að slíta okkar góða fundi og hafa gestaskipti,“ segir hann við Sverri og Ingveldi Ýri. Þau una því og kveðja nestorinn með virktum. Sverrir ber kveðju frá gömlum nemanda Ágústu og Jónasar, Daða syni sínum. „Hann spilar stöðugt,“ segir Sverrir. „Jæja, svo hann er orðinn krónískur píanísti,“ svarar Jónas. „Við því er ekkert að gera!“

Þeir hlæja.

Tilefni heimsóknar minnar er hvorki lítið né ómerkilegt en fjölmargar klukkustundir af píanóleik Jónasar eru komnar inn á alþjóðlegu streymisveituna Spotify. Bæði útgefið og óútgefið efni. „Ég ólst upp við 33 snúninga plötur, síðan kom Longplay-platan, kassettan og segulbandið og geisladiskurinn en núna tala allir um Spotify,“ segir Jónas.

„Ertu ekki með Spotify?“ spurði téður Kristinn Sigmundsson, stórvinur Jónasar, og píanóleikarinn kom af fjöllum en fór að kynna sér málið. Þá kom í ljós að nokkuð af upptökum með Jónasi var þar án þess að hann hefði hugmynd um það. „Þá datt mér í hug að ég gæti skoðað málið og valið efni sjálfur.“

Vinir Jónasar, með Guðrúnu Pétursdóttur í broddi fylkingar, fóru síðan að leggja að honum að gera sinn flutning gegnum árin aðgengilegan á veitunni.

„Ég fór að skoða málið og áttaði mig á því að töluvert er til, þar á meðal margt sem aldrei hefur verið gefið út, upptökur héðan og þaðan. Ferill minn spannaði heil fimmtíu ár, frá 1967 til 2017 og fjölmargir tónleikar voru teknir upp. Þegar mest var spilaði ég á 50 til 70 tónleikum á ári og kom fram út um allt land, bókstaflega. Núna er ég sestur í helgan stein og þá fer maður óhjákvæmilega að líta um öxl og gefa þessum gömlu upptökum gaum. Það er virkilega ánægjulegt að eitthvað sé til, ekkert síður en fjölskyldualbúmið. Þökk sé tæknimönnum og tónmeisturum RÚV, Halldóri Víkingssyni hjá Fermata og Sveini Kjartanssyni hjá Stúdíó Sýrlandi og fleirum. Sveinn hefur séð um fráganginn fyrir Spotify.“

Á marga gersemina

Safn Ríkisútvarpsins er algjör gullkista tónlistar. „Útvarpið á marga gersemina, þar á meðal er mikið efni með öllum okkar fremstu píanóleikurum gegnum tíðina, fólki á borð við Árna Kristjánsson, Gísla Magnússon, Ásgeir Beinteinsson, Rögnvald Sigurjónsson og Halldór Haraldsson. Það er synd hvað eldri kynslóðirnar heyrast sjaldan.“

Téður Árni var kennari Jónasar og lærifaðir og sá tónlistarmaður í fortíðinni sem hann lærði mest af. „Hann var þeirrar skoðunar að tónlistin væri list augnabliksins. Hún lifir en deyr að flutningi loknum. Nema í minningunni. En með hljóðritunum er búið að brjóta hljóðmúrinn og festa augnablikið. Þá kemur upp nýtt sjónarhorn, samanber upptökur af meisturum sögunnar, sem gefa manni svo mikið. Það eru forréttindi að fá að gægjast undir höndina á meisturunum, en hvaða maður er ég að dæma? Ég á bara að njóta og reyna að skilja hvað þeir eru að fara.“

Jónas hefur haft yndi af verkefninu, að kafa í sína eigin fortíð. „Ég læt mig bara berast með straumnum og leyfi þessu að fljóta inn í framtíðina. Ég er ekki að reisa mér minnisvarða en þetta er hluti af okkar sögu; ég get ekki svarið af mér þátttöku í íslensku tónlistarlífi í fimmtíu ár. Til þessa alls var upphaflega stofnað til að reyna að gleðja fólk en til þess að gera það þarf þetta efni að heyrast; hvort sem ég er þess verður eður ei. Ég hef alla tíð reynt að leggja mitt á vogarskálarnar og opinbera fyrir áheyrendum og gefa þeim hlutdeild í mínu ævistarfi.“

Á Spotify má nú heyra Jónas leika verk eftir flesta helstu meistara tónlistarsögunnar, Chopin, Händel, Bach, Schubert, Mozart, Lully, Brahms og svona mætti lengi telja. Við Íslendingar eigum líka okkar fulltrúa, eins og Leif Þórarinsson og Atla Heimi Sveinsson.

Ekkert er fullkomið

Efinn er aldrei langt undan hjá listamanninum. „Það er ekkert fullkomið í heiminum. Manni finnst maður aldrei nógu góður og vill alltaf gera betur. Ég hef alltaf verið óöruggur um eigið ágæti – og er enn. Það getur verið hörð glíma. Ég hef til dæmis aldrei kunnað við að titla mig píanóleikara í símaskránni. Veit ekki hvort ég er þess verður.“

– Ertu alveg hættur að spila?

„Já, röddin er eins og spegill á mína orku. Hún fer þverrandi. Ég heyri enn of vel til að hafa gaman af því sem ég spila. Þegar maður er farinn að spila á röngum nótum er rétt að láta staðar numið en ég viðurkenni að það er mikið frá manni tekið þegar maður getur ekki einu sinni lengur spilað lítið lag fyrir konuna sína. Það er ákveðið tóm í mér enda hefur þetta verið mitt tjáningarform alla ævina og svo að segja það eina sem ég hef lifað fyrir. Þess vegna hefur verið gott að teygja sig í þessar gömlu upptökur til að sannfæra mig um að ég hafi ekki eytt ævinni í einhverja vitleysu.“

Og hann þurfti að hafa fyrir því. Ekki var alltaf litið á píanóleik sem starf. „Blessaður vertu,“ segir Jónas. „Oft var ég spurður í gamla daga: Ég veit að þú spilar á píanó en hvað gerirðu?“

Hann brosir.

„En ég er þrjóskur að eðlisfari og gafst aldrei upp. Mótspyrnan leiðir líka til lausnar og kveikir líf. Ég hef spilað á píanó, kennt á píanó, valið píanó og vígt þau mörg og svo framvegis.“

Byrjaði seint að læra

Jónas fékk fyrsta píanótímann í fermingargjöf og hafði þá ekki í annan tíma séð hljóðfærið. Það var ást við fyrstu sýn. „Píanó er eins og töfraborð; fullt af fegurð, depurð og gleði. Annars í raun spila ég ekki á píanóið, það hefur bara spilað á mig og þannig hef ég kynnst sjálfum mér. Í píanóinu eignaðist ég vináttu fyrir lífstíð.“

Hann stendur skyndilega upp og gengur að flyglinum í stofunni – eins og hann sé að fara á bak gæðingi. „Pabbi var mikill hestamaður og átti marga gæðinga og annaðist þá af nærfærni og virðingu. Árni Kristjánsson sagði einu sinni: „Mundu það, Jónas minn, að pínaóið kemur fram við þig eins og þú kemur fram við það!“ Það hefur verið mitt leiðarljós. Sjáðu bara verk meistaranna Chopin, Brahms, Schubert, Beethoven. Allt eru það spegilmyndir af lífinu. Hugsaðu þér hvað það er mikils virði að kynnast mestu tónskáldum sögunnar með því að takast á við þeirra verk.“

Ekki var það þó sjálfgefið að píanóið yrði hans hljóðfæri. „Það þótti alltof seint að byrja að læra 15 ára og fyrsti kennarinn minn var frú Leópoldína Eiríks, ekkja vestur í bæ. Þegar mamma mín innritaði mig í tónlistarskólann, að mér forspurðum raunar, var hún spurð hvort ekki væri heppilegra að ég lærði á trompett eða básúnu fyrir aldurs sakir og lítillar kunnáttu svaraði hún: „Hann á píanó.“ Ég var viss í minni sök og var um tíma á bát í Þorlákshöfn til að vinna fyrir píanói,“ segir Jónas.

Nú leggur Ágústa, sem situr okkur til samlætis, orð í belg. „Hann eyddi á tímabili öllu í grammófónplötur og kynntist þannig literatúrnum. Það komst ekkert annað að,“ segir hún.

Þarna sérðu!

Jónas hefur ekki bara spilað, hann hefur líka tekið þátt í að velja píanó fyrir hina ýmsu aðila út um allt land. Og mælir iðulega með Steinway & Sons.

„Ég fékk bréf frá þeim um árið, þar sem mér var kunngjört að ég væri orðinn félagi í Steinway-fjölskyldunni. Mér skilst að það hangi mynd af mér uppi í Steinway House í Hamborg,“ segir hann brosandi.

Jónas rifjar upp söguna af því þegar hringt var úr Ráðhúsi Reykjavíkur og hann beðinn um að mæla með hljóðfæri fyrir húsið. „Steinway & Sons,“ svaraði hann strax. „Það er frábært hljóðfæri með blæbrigðaríkan tón, sterklega byggt með bæði gott slit- og þanþol.“

„Er það ekki fullmikið?“ var spurt á móti. „Þetta er ekki tónleikasalur.“

Þá tíndi Jónas til eftirfarandi rök: „Hvað ef Valdimir Ashkenazy yrði útnefndur heiðursborgari Reykjavíkur og tæki við nafnbótinni með því að spila lítið lag í Ráðhúsinu? Mynduð þið þá sækja hljóðfærið út í bæ?“

„Nei.“

„Þarna sérðu!“

Það er annað ævintýri

Jónas er ekki síður þekktur fyrir samstarf sitt með helstu söngvurum þjóðarinnar gegnum tíðina, sem af mikilli hlýju kalla hann gjarnan Jónas Syngimundarson, og við blasir að spyrja hvort slíkar upptökur komi ekki til með að rata á Spotify líka?

„Það er annað ævintýri, minn kæri,“ segir hann og gerist óræður á svip, „sem sagt verður nánar frá síðar. En þú sást að það voru tveir söngvarar í heimsókn hjá mér þegar þú komst.“

Látum það duga í bili.

Söngurinn hefur fylgt Jónasi alla tíð. „Það var mikið sungið í minni bernsku. Lífið snýst um söng og dans, ljós og skugga og mér finnst ég taka þátt í söngnum. Margir bestu söngvarar heims urðu vinir mínir í æsku, þó ég skildi ekki orð af því sem þeir voru að segja. Mér finnst ég skynja söng í leik mínum og þykir vænt um það þegar söngvarar hafa orð á þessu. Ég hef lært mikið á því að spila með söngvurunum gegnum tíðina, eins fiðlurum, sellistum og fleirum.“

Hver hefur sitt lag og túlkunin getur verið eins misjöfn og flytjendurnir eru margir. Eins og með leiklistina, engir tveir leikarar túlka Hamlet eða Skugga-Svein með nákvæmlega sama hætti. „Annars nær orðið túlkun, að mínu mati, ekki alveg utan um þetta. Betra væri að tala um endursköpun. Þar liggur mátturinn,“ segir Jónas.

Aldrei komið fram óundirbúinn

Listamaðurinn má sín lítils án trausts baklands. „Ég er svo heppinn að eiga bestu konu í heimi,“ segir hann og horfir á Ágústu. „Hefði það ekki lukkast til þá hefði ég ekki gert neitt af þessu.“

– Hefðirðu þá endað á sjó?

„Nei, það held ég ekki. Ég er of mikið tilfinningabúnt til þess. Ævistarfið hefði alltaf orðið á hinu listræna sviði. Svo ég sættist við sjálfan mig. Ég er eins og kirtill sem nærist á tónlist. Hlutverk tónlistarflytjandans er að miðla tónlistinni svo áheyrendur fái upplifað, ef ekki þá er allt unnið fyrir gíg. Tökum söngvarann sem dæmi. Hann gefur þér hlutdeild í einhverju sem enginn getur gefið nema hann. Engir tveir geta gert þetta á sama hátt. Frá mér leiðir þetta fólk til hlustunar og ég er ákaflega stoltur af verkefni eins og Tónlist fyrir alla, sem ég stóð fyrir á sínum tíma. Það gaf mér mikið. Ég fer hvorki í golf né laxveiði. Hlýði bara köllun minni.“

Hann líkir tónlistinni við léreft málarans. Líkt og á hvítum ósnertum fleti málarans á striganum er ekkert fyrr en hann hefur sett fyrsta strokið. „Þögnin er forsenda tónlistarinnar. Sigurbjörn Einarsson biskup orðaði þetta einu sinni snilldarlega í ræðustól: „Sá tónn einn á rétt á sér sem er betri en þögnin sem hann rýfur.“ Þetta er göfugt markmið en snúið.“