Á sama tíma og hitabylgja reið með alvæpni yfir Bretlandseyjar og eirði engu, fremur en dönsku víkingarnir forðum, ríkti sum sé áttleysa á Íslandi.

Ég ber djúpa lægð fyrir veðurfræðingum. Afsakið, ég ber djúpa virðingu fyrir veðurfræðingum. Og enn þá dýpri virðingu fyrir veðurfræðingum í sjónvarpinu. Það eru okkar allra svölustu og hugdjörfustu menn. Hugsið ykkur að standa þarna berskjaldaður í myndverinu og vita að 80% þjóðarinnar sitja heima í stofu og bölva manni í sand og ösku fyrir að flytja alltaf kolómögulegar fréttir. Sjónvarpsveðurfræðingar eru knattspyrnudómarar vísindanna; það er engin leið að gera fólki til geðs og fari eitthvað úrskeiðis eru þeir alltaf blóraböggull númer eitt. „Kemur nú þessi andskoti; hann spáir alltaf slagveðri, kulda og almennum leiðindum! Þuríður, slökktu á þessu helvíti!“

Þið afsakið orðbragðið en hér er um að ræða stofudrama og karakterlýsingu og ekki við neitt ráðið.

Annars er það eitt sem ég skil ekki almennilega í veðurfréttunum. Það eru þessi endalausu skil. Ég átta mig að vísu á því að skil boða ekkert gott. Það er alltaf vesen á undan skilum og enn þá meira vesen á eftir þeim. Svo þegar ein skil eru gengin yfir landið styttist óðfluga í næstu skil. Skiljið þið þetta?

Nei, ég hélt ekki.

Okkar maður Trausti Jónsson veðurfræðingur kann að vonum skil á skilum. Hlustum snöggvast á hann: „Skil myndast þar sem loft af mismunandi uppruna mætist, til þæginda er talað um að tveir loftmassar takist á. Skil eru sjaldnast alveg kyrrstæð heldur hörfar annar loftmassinn oftast fyrir hinum sem þá sækir fram. Skilum fylgir að jafnaði einhver úrkoma.“

Já, já, eins og hjá öðrum veðurfyrirbrigðum sem álpast hingað norður eftir; þá er alltaf „einhver úrkoma“ með í farteskinu. Það er óhjákvæmilegt.

Svo virðist sem stöðug átök séu þarna í háloftunum og af veðurfréttum snemma í vikunni mátti ráða að hæð hefði bremsað af lægðir suður af landinu og meinað þeim aðgang að okkur dauðlegum mönnum hér á skerinu. Á sama tíma og hitabylgja reið með alvæpni yfir Bretlandseyjar og eirði engu, fremur en dönsku víkingarnir forðum, ríkti sum sé áttleysa á Íslandi.

Lýsingarnar á hitabylgjunni voru svo hástemmdar og svakalegar í fréttum hér heima sem úti að ég sló umsvifalaust á þráðinn til sonar míns sem er búsettur í Lundúnum, þar sem hvert hitametið féll af öðru. Hann hafði það bærilegt, þakka ykkur fyrir, en var búinn að leita skjóls fyrir hitanum í kjörbúðinni Tesco. Þar virkar víst loftræstingin best þar um slóðir. Það verður sennilega einhver bið á því að við þurfum að leita skjóls fyrir hita í Bónus!