Samkomula g Úkraínskir og tyrkneskir embættismenn funda í gærdag.
Samkomula g Úkraínskir og tyrkneskir embættismenn funda í gærdag. — AFP/Ozan Kose
Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Ekki er talið útilokað að kornútflutningur Úkraínumanna hefjist nú á nýjan leik, þrátt fyrir innrásarstríð Rússa, eftir að Tyrkir náðu samkomulagi við Úkraínu í gær um að vera þeim til fulltingis um að flytja korn yfir Svartahafið og þaðan í gegnum tyrknesku höfuðborgina Istanbúl.

Sátu við langt borð

Hafa Sameinuðu þjóðirnar miðlað málum á þessum vettvangi, enda hefur stefnt í þurrð á mörkuðum víða um heim eftir að ein helsta útflutningsgrein Úkraínu lagðist nánast af í kjölfar árásar Rússa á landið.

„Þetta er geisli vonar, möguleika og léttis,“ sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, við undirritun samkomulags Tyrkja og Úkraínumanna í gær. Þar vísaði hann til þess hve verð matvæla hefur hækkað um allan heim síðan Rússar réðust á nágranna sína í febrúar og lömuðu landbúnað þeirra og helstu útflutningsleiðir.

Hvort tveggja rússneskir og úkraínskir embættismenn rituðu undir sáttmálann í gær, þótt langt borð skildi þar bakka og egg. Í miðjunni sat tyrkneski forsetinn Recep Tayyip Erdogan og þakkaði Guterres aðalritari honum fyrir að hýsa viðræður sem vonandi mörkuðu vatnaskil í stríði nágrannaríkjanna.

Efumst ekki nokkra stund

„Spurningin snýst ekki um hvað kemur öðru ríkinu eða hinu til góða,“ sagði aðalritarinn í gær, „við verðum að horfa til þess sem er heimsbyggðinni mikilvægast. Og við skulum ekki efast nokkra stund um að þetta samkomulag er samkomulag alls heimsins,“ sagði Guterres enn fremur. Hann klykkti út með þeim hugleiðingum sínum að útflutningur frá Úkraínu reyndist þróunarlöndum er berðust í bökkum nýr vonarneisti.