Shelly-Ann Fraser-Pryce fagnar sigrinum í 100 metra hlaupinu.
Shelly-Ann Fraser-Pryce fagnar sigrinum í 100 metra hlaupinu. — AFP/Jewel Samad
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafi konan með skrautlegu hárkollurnar og bandstrikin í nafninu, Shelly-Ann Fraser-Pryce, ekki verið álitin ein sú sprettharðasta frá því mælingar hófust, þá er íþróttaáhugafólk eflaust komið á þá skoðun eftir atburði vikunnar. Kristján Jónsson kris@mbl.is

Fraser-Pryce varð heimsmeistari í tíunda sinn þegar hún sigraði í 100 metra hlaupinu á heimsmeistaramótinu í Oregon í Bandaríkjunum. Fraser-Pryce er 35 ára gömul og samkvæmt erlendum íþróttasagnfræðingum er hún sú elsta sem orðið hefur heimsmeistari í einstaklingsgrein á hlaupabraut. Hljóp hún á 10,67 sekúndum, sem er mótsmet.

HM fer fram í borginni Eugene og þar skapast skemmtileg stemning, enda þekkja íbúarnir vel að fá stór frjálsíþróttamót í bæinn. Þar hefur lokamótið í NCAA, bandarísku háskólaíþróttunum, oft verið haldið. Þar eru gjarnan framtíðarverðlaunahafar á HM og Ólympíuleikum. Stórfyrirtækið Nike sleit barnsskónum í Eugene og þar er rík hefð fyrir hlaupum.

Að slá bestu spretthlaupurum heims við á hlaupabrautinni er ávallt mikið afrek, enda leggur stórveldi eins og Bandaríkin mikið upp úr því að framleiða spretthlaupara. 100 metra hlaupið á stórmótum er iðulega ein vinsælasta íþróttagreinin í sjónvarpi, enda geta jafnvel þeir sem eru mjög tímabundnir leyft sér að fylgjast með. Sprettharðasta fólk heimsins er ekki lengi að ljúka slíku hlaupi. Nógu erfitt er að verða heimsmeistari í 100 metra hlaupi á aldrinum 26-30 ára, hvað þá 35 ára. Það vafðist þó ekki fyrir Fraser-Pryce sem er í fantaformi, jafnvel þótt keppnisferillinn hafi ekki verið ein allsherjar skemmtisigling í spegilsléttum sjó.

Fjórtán ár eru liðin frá því að Fraser-Pryce skaust fram á sjónarsviðið fyrir alvöru, þegar henni tókst ungri að árum að verða ólympíumeistari í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum eftirminnilegu í Peking sumarið 2008. Fraser-Pryce hljóp þá á 10,78 sekúndum í úrslitunum og varð fyrsta konan af karabískum uppruna til að vinna gullverðlaun í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum. Þær bandarísku höfðu unnið á fimm leikum í röð frá 1984-2000 og árið 2004 fór gullið til Hvíta-Rússlands.

Fraser-Pryce fylgdi árangrinum eftir með heimsmeistaratitli í greininni á HM í Berlín árið eftir. Þar var hún einnig í sigursveit Jamaíku í 4x100 metra boðhlaupi. Á þessum tíma má halda því fram að afrek Fraser-Pryce hafi fallið eilítið í skuggann af framgöngu landa hennar, Usains Bolts. Hann sigraði tvöfalt á ÓL 2008 og HM 2009 og í Berlín sló hann heimsmetið í 100 metra hlaupi rækilega. En með árunum hefur Fraser-Pryce fengið þá athygli sem hún á skilið.

Var löt að eigin sögn

Shelly-Ann Fraser-Pryce er fædd og uppalin í Kingston, stærstu borg landsins. Móðir hennar, Maxine, hafði verið í íþróttum og snemma sýndi Shelly-Ann tilþrif á hlaupabrautinni. Hún hljóp berfætt þegar hún byrjaði að keppa á grunnskólaaldri, rétt eins og Anna Þuríður Ingólfsdóttir, sem Sunnudagsblaðið ræddi við á dögunum. Á landsmóti Jamaíku fyrir 18 ára og yngri fékk Shelly-Ann Fraser bronsverðlaun í 100 metrunum en var einungis 16 ára og sterkar vísbendingar um að hún gæti náð langt.

Framan af stóð hugur hennar þó ekki til þess að leggja spretthlaup fyrir sig en viðhorf hennar breyttist um tvítugt. Sjálf segist hún hafa verið löt og hafi skort aga. Hún hafi komið of seint á æfingar og hafi ekki kært sig um að byggja upp mikinn vöðvamassa. Ekki er þetta nú formúla að heimsmeistaratitlum en meiri festa var á hlutunum eftir að hún hóf nám í University of Technology í Jamaíku. Þá tók Stephen Francis við þjálfun hennar og tók tæknina í gegn hjá Fraser. Sá hefur einnig þjálfað Asafa Powell og Elaine Thompson-Herah sem hefur verið keppinautur Fraser-Pryce síðustu árin. Árangurinn lét ekki á sér standa, því samstarf hennar og Francis hófst 2006 og tveimur árum síðar var ólympíugull komið í hús.

Til að fara hratt yfir sögu varð Fraser-Pryce síðar heimsmeistari í 100 metrunum í Moskvu 2013, Peking 2015, Doha 2019 og nú í Eugene. Er hún eini íþróttamaðurinn sem er fimmfaldur heimsmeistari í 100 metra hlaupi. Eru boðhlaupin þó ótalin. Í Moskvu sigraði hún einnig í 200 metra hlaupinu og á Ólympíuleikunum í London sigraði hún aftur í 100 metra hlaupinu. Á síðustu tvennum leikum hefur Thompson-Herah hins vegar sigrað í 100 og 200 metrunum.

Úrskurðuð í bann árið 2010

Á heildina litið er ferillinn glæsilegur eins og sjá má en Fraser-Pryce hefur þó lent í mótvindi. Var hún úrskurðuð í sex mánaða bann árið 2010 þegar hún var heims-og ólympíumeistari. Varð hún uppvís að því að taka sterk verkjalyf sem hún sagðist hafa gert vegna tannpínu. Ekki fylgdi þó eins mikil skömm þessu keppnisbanni eins og stundum verður þegar fólk fellur á lyfjaprófi, þar sem Fraser-Pryce hafði ekki tekið lyf sem bætt geta árangur. Þar sem efnið er samt sem áður á bannlista, sætti hún sig við refsinguna og sagðist bera ábyrgð á því að misfarist hefði að tilkynna um lyfjanotkunina.

Ekki er þetta í eina skiptið sem Shelly-Ann Fraser-Pryce hefur horfið úr sviðsljósinu um stundarsakir. Hún hefur ekki sloppið alveg við meiðsli á ferlinum og í ágúst árið 2017 fæddi hún soninn Zyon. Þar af leiðandi var hún ekki með á HM 2017. Soninn á hún með Jason Pryce og hafa þau verið gift í ellefu ár. Fraser-Pryce hefur greint frá því í viðtölum að hún hafi verið efins um að hún næði að komast aftur í heimsklassa sem spretthlaupari eftir barnsburð og það hafi tekið tíma. Í lok árs 2018 átti hún tíunda besta tímann í heiminum í 100 metrunum það árið og árið 2019 tókst henni að komast aftur í allra fremstu röð.

Við þetta má bæta að fremstu spretthlauparar heims taka gjarnan stór skref en Fraser-Pryce er einungis 152 cm á hæð. Til samanburðar var heimsmethafinn í 100 metra hlaupi, Florence Griffith-Joyner, 170 cm.

Gat leyft sér að hagræða hárkollunni

Vörumerki Shelly-Ann Fraser-Pryce í keppni hefur verið sítt hár í alls kyns litum. Hún á mikið safn af hárkollum og mætir með nokkrar gerðir á keppnisstaðinn þar sem stórmótin fara fram. Þess má geta að fleiri spretthlauparar frá Jamaíka hafa vakið athygli fyrir skrautlega hárgreiðslu í keppni.

„Ég kom með tíu hárkollur til Eugene. Ég lét lita þær og hér hefur hárgreiðslufólk séð um að setja þær á,“ sagði Fraser-Pryce við fjölmiðlafólk í vikunni. Hárið var meðal annars í fánalitunum í úrslitum 100 metra hlaupsins en í undanrásunum í 200 metra hlaupinu mætti Fraser-Pryce með býsna áberandi grænan lit.

Hún átti ekki í erfiðleikum með að komast upp úr undanrásunum og eftir því var tekið að hún gat leyft sér að hagræða hárkollunni lítillega í miðju hlaupi. Hún kom reyndar ekki fyrst í mark en fór auðveldlega áfram í undanúrslitin.

„Þessa gerði ég sjálf,“ sagði hún við fjölmiðlafólk að hlaupinu loknu. Í þessu tilfelli leyfði hún hárinu að leika um en algengara er að hún setji hárið í tagl þegar hún keppir.

Fraser-Pryce er lýst sem litríkri og ófeiminni persónu. Hefur því verið haldið fram að litríkar hárkollurnar séu í stíl við persónuna.