[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
K100 sækir Akureyri heim um helgina. Í dag, laugardag, verður Helgarútgáfan í beinni útsendingu frá Hamborgarafabrikkunni á Akureyri en eins og alltaf verður mikið glens og gaman.

„Við fljúgum með Icelandair til Akureyrar og förum beint á Fabrikkuna,“ segir Anna Margrét Káradóttir, einn af þremur þáttastjórnendum Helgarútgáfunnar, full eftirvæntingar.

Fjör á Fabrikkunni

„Aðalgestur okkar verður Hildur Eir Bolladóttir prestur. Við ætlum að leggja fyrir hana persónuprófið okkar og það kemur nú örugglega eitthvað skemmtilegt út úr því,“ segir Anna Magga og hlær. „Við munum líka heyra í Bjarna Snæbjörnssyni og fáum að heyra Pride-lagið í ár,“ segir Anna Magga um þéttsetna dagskrá Helgarútgáfunnar á Akureyri um helgina.

„Manúela okkar, sem er góðvinur Helgarútgáfunnar, spjallar við okkur og svo ætlum við líka að tala við Jóa á Fabrikkunni,“ segir Anna Magga og bendir á að umræddur Jói er ekki hinn eini sanni Jóhannes Ásbjörnsson sem oftast er kenndur við Hamborgarafabrikkuna, heldur Jóhann Stefánsson, framkvæmdastjóri Fabrikkunnar á Akureyri.

„Þeir eru tveir, Jóarnir sem kenndir eru við Fabrikkuna,“ segir Anna Magga glöð í bragði.

Hvað færð þú þér oftast af matseðlinum á Fabrikkunni?

„Ég fæ mér alltaf Ungfrú Reykjavík og Coke Zero. Ég er grænmetisæta og borða ekki kjöt. Þannig að Ungfrú Reykjavík er minn aðal-Fabrikkuréttur.“

Einar endurheimtur

Anna Magga segir helgina leggjast vel í sig og að hún sé spennt fyrir verunni á Akureyri. Veðurspáin sé nokkuð góð miðað við það sem af er sumri. Mikilvægast sé þó að hafa sól í sinni og hjarta – það smiti mest út frá sér.

„Það er langt síðan ég kom á Akureyri og þangað er alltaf gaman að koma. Ég gleðst samt mest yfir því að endurheimta hann Einar minn frá Tenerife. Vonandi kemur hann með sólina með sér alla leið til Akureyrar,“ segir hún með tilhlökkun að hitta samstarfsfélaga sinn, Einar Bárðarson, sem hefur notið sólarinnar á Tenerife síðustu daga.

Ásthildur Hannesdóttir

asthildur@mbl.is