Fyrr í mánuðinum var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á Vísi hf. fyrir 31 milljarð króna. Með í kaupunum fylgja 9.500 tonn af þorskkvóta, eða rétt rúmlega 5,4% af úthlutuðum þorskkvóta fyrir veiðiárið 2021/2022.

Fyrr í mánuðinum var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á Vísi hf. fyrir 31 milljarð króna. Með í kaupunum fylgja 9.500 tonn af þorskkvóta, eða rétt rúmlega 5,4% af úthlutuðum þorskkvóta fyrir veiðiárið 2021/2022. Síldarvinnslan á fyrir um 1,9% af þorskkvóta upp á samtals 7,3% af öllum þorskkvóta á landinu. Það er nokkurn veginn jafn mikið og hlutdeild Samherja í þorskkvótanum.

Samkvæmt lögum má enginn eiga meira en 12% af þorskkvótanum, eða eins og það er orðað: „Samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, má aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild“. Þar teljast tengdir aðilar vera þeir sem eiga beint eða óbeint meirihluta í hinu fyrirtækinu eða fara með meirihluta atkvæðisréttar. Þar teljast hlutir maka og skyldmenna í beinan legg einnig með.

Nú er langt frá því einfalt eða aðgengilegt að rekja eignatengsl, þrátt fyrir lög um skráningu raunverulegra eigenda. Til dæmis er Gunnþór Björn Ingvarsson skráður raunverulegur eigandi Síldarvinnslunnar með tegund eignarhalds sem „bein stjórnun skráðs aðila“ en í ársreikningi er Gunnþór hvergi á lista sem eigandi (þó líklega flokkist hann einhvers staðar innan hópsins „aðrir hluthafar“ sem eru í árslok 2021 með 16,45% eignarhlut.

Stærsti einstaki eigandi Sildarvinnslunnar er Samherji hf., með tæplega þriðjungseign. Þetta ætti að þýða að Samherji eigi í raun þriðjung af þorskkvóta Síldarvinnslunnar og Vísis hf. ef af samrunanum verður. Þannig færi óbeint eignarhald Samherja á þorskkvótanum upp í næstum 10%. Það hlutfall gæti verið hærra eftir því hverjir eru í hópi „annarra hluthafa“, því Þorsteinn Már Baldvinsson er til dæmis stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og náskyldur eigendum Samherja, sem eru ólíkt Síldarvinnslunni skráðir sem eigendur hlutafjár í Samherja. Á sama tíma er Þorsteinn Már Baldvinsson einnig skráður sem framkvæmdastjóri Samherja í síðasta ársreikningi. Á vefsíðu fyrirtækisins hefur sonur Þorsteins, Baldvin, hins vegar tekið við síðan þá.

Hér þarf að spyrja stórra spurninga, því samkvæmt lögum um raunverulega eigendur, þá er einhver raunverulegur eigandi sem á beint eða óbeint meira en 25% hlut. Síldarvinnslan kemst hins vegar hjá því að skrá raunverulega eigendur Samherja sem raunverulega eigendur Síldarvinnslunnar af því að Síldarvinnslan er skráð á markað. Því þótt eignarhald í Síldarvinnslunni sé tiltölulega dreift, þá eru mjög tengdir aðilar sem eiga nokkra stóra hluti.

Spyrja má hvers vegna tengdir aðilar þurfa að eiga meira en 50% en raunverulegir eigendur meira en 25%? Ég hefði haldið að sömu raunverulegir eigendur væru mjög tengdir aðilar.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is

Höf.: Björn Leví Gunnarsson