[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumarfrí. Þá er gott að slaka á með bók, hvort sem það er heima, í sumarbústað, á sundlaugarbakka eða á strönd. Ég hef alltaf lesið mikið og nú þarf að velja bók. Staflinn á náttborðinu er stór og af nægu að taka.

Sumarfrí. Þá er gott að slaka á með bók, hvort sem það er heima, í sumarbústað, á sundlaugarbakka eða á strönd. Ég hef alltaf lesið mikið og nú þarf að velja bók. Staflinn á náttborðinu er stór og af nægu að taka. Bjarmalönd eftir Val Gunnarsson liggja þarna hálflesin. Skemmtileg frásögn hans af flakki um Austur-Evrópu sem hann fléttar saman við sögu svæðisins. Nóg af húmor og fróðleik um lönd Austur-Evrópu.

Þarna er líka bókin Freezing Order eftir Bill Browder sem kom nýlega út í íslenskri þýðingu og heitir þá Ofsóttur . Browder var fjárfestir í Moskvu í kringum aldamót og naut mikillar velgengni. Hann lenti upp á kant við Pútín og lýsir því í fyrri bók sinni, Red Notice , hvernig spillingu og valdníðslu var beitt til að knésetja hann. Nýja bókin er framhald á ófögrum lýsingum hans á stjórnarháttum í Rússlandi. Ég hef lesið nokkrar bækur um ástandið í Rússlandi á þessum árum og mæli sérstaklega með bókinni Mafia State eftir blaðamanninn Luke Harding sem var fréttaritari The Guardian í Moskvu fyrir 10-15 árum. Reynslusögur hans frá Rússlandi eru ótrúlegar og draga svo sannarlega upp dökka mynd af stjórnarháttum þar. Harding hefur skrifað fleiri bækur um Rússland Pútíns, meðal annars um morðið á Alexander Litvinenko, afskiptin af bandarísku forsetakosningunum 2016 og um leynilegar aðgerðir þeirra víða um heim eins og tilræðið gegn Sergei Skripal.

Þriðja bókin í bunkanum, sem mig langar að nefna, er Veröld sem var eftir Stefan Zweig. Ég las bókina fyrir mörgum árum og hún hafði meiri áhrif á mig en nokkur önnur bók hefur haft. Þetta er sjálfsævisaga rithöfundarins Zweig sem var austurrískur gyðingur. Hann byrjaði að skrifa bókina í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar, eftir að nasistar komust til valda og gyðingaofsóknir blöstu við öllum sem þær vildu sjá. Hún er full af eftirsjá eftir því öryggi sem einkenndi veröld Zweig á fyrstu árum 20. aldar, þar til fyrri heimsstyrjöldin braust út, og af trega yfir því að Evrópubúar hafi glutrað þessu öryggi niður með ófriði. Mér finnst þessi bók eiga fullt erindi enn í dag. Veröld sem var liggur í bókabunkanum vegna þess að ég rakst nýlega á eintak – frumútgáfu á íslensku – hjá Ara Gísla á bokin.is og keypti. Ég var búinn að leita lengi.

Venjulega eru líka reyfarar eða aðrar skáldsögur á náttborðinu. Mig langar til dæmis að lesa nýju bókina eftir Jussi Adler-Olsen, Natríumklóríð , en hún hefur ekki ratað á náttborðið enn.

Líklega dugar mér ekki sumarfríið til að klára bunkann.