Reykjanes Samherji fiskeldi hyggst byggja þar allt að 40.000 tonna landeldi á laxi. Stöðin verður vel staðsett með tilliti til flutningaleiða fyrir afurðirnar.
Reykjanes Samherji fiskeldi hyggst byggja þar allt að 40.000 tonna landeldi á laxi. Stöðin verður vel staðsett með tilliti til flutningaleiða fyrir afurðirnar. — Tölvuteikning/samherji.is
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Samherji fiskeldi hf. hyggst fjárfesta fyrir allt að 60 milljarða í fiskeldi á komandi árum. Í undirbúningi er allt að 40 þúsund tonna landeldi á laxi nálægt Reykjanesvirkjun. Þetta er stærsta fjárfesting sem félagið hefur lagt í og jafnframt mesta áhætta sem það hefur tekið í rekstri, að mati Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Samherji fiskeldi hf. hyggst fjárfesta fyrir allt að 60 milljarða í fiskeldi á komandi árum. Í undirbúningi er allt að 40 þúsund tonna landeldi á laxi nálægt Reykjanesvirkjun. Þetta er stærsta fjárfesting sem félagið hefur lagt í og jafnframt mesta áhætta sem það hefur tekið í rekstri, að mati Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf.

Hann segir að þeir hafi verið í fiskeldi í rúmlega 20 ár og telji sig þekkja til greinarinnar. En hvers vegna þessi áhersla á landeldi?

„Við höfum trú á þessu og þekking á landeldi hefur aukist mjög mikið,“ segir Þorsteinn. Hann segir ljóst að fiskeldi, hvort sem er á rauðum eða hvítum fiski, muni vaxa og nefnir sem dæmi að andvirði útflutnings Norðmanna á 1,6 milljónum tonna af laxi samsvari útflutningsverðmæti 3,2 milljóna tonna af þorski.

Samherji ætlar að fjárfesta fyrir allt að fjóra milljarða í Silfurstjörnunni í Öxarfirði í laxeldi og seiðaframleiðslu. Einnig er að hefjast bygging nýrrar seiðaeldisstöðvar á Stað í Grindavík fyrir milljarð. Ef allt gengur upp, varðandi byggingu stóru eldisstöðvarinnar á Reykjanesi, ætlar Samherji að vera tilbúinn með seiði fyrir hana, að sögn Þorsteins.

„Við ætlum að nýta þá þekkingu sem til er og gæði lands og sjávar í sameiningu. Við höfum trú á að við getum byggt upp landeldi hér sem geti verið arðbært. En það kostar gríðarlega fjármuni. Við gerum ráð fyrir að Samherji ráði við fyrsta áfangann. Við höfum kosti umfram aðra, það er aðgang að vatni, hita og þekkingu sem á að geta gert þetta mögulegt. Svo þurfum við að leita að fleiri hluthöfum og fjármagni þegar fram í sækir.“ Þorsteinn segir ekki komið að því að afla fjármagns.

Öflugur liðsmaður í hópinn

Samherji greindi frá því í maí að hlutafé Samherja fiskeldis ehf. hefði verið aukið um 3,5 milljarða og var það fyrsta skref í 7,5 milljarða hlutafjáraukningu.

Norðmaðurinn Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri fiskeldisrisans Mowi og einn af reynslumestu sérfræðingum heims á sviði fiskeldis, fjárfesti þá í Samherja fiskeldi og sest í stjórn félagsins.

„Ég leyfi mér að fullyrða að aðrir menn í heiminum hafi ekki meiri þekkingu á fiskeldi en Alf-Helge Aarskog,“ segir Þorsteinn. „Hann hefur skoðað það sem við höfum gert og þær aðstæður sem við ætlum að nýta okkur. Það vakti áhuga hans. Það er bæði viðurkenning og hvatning fyrir okkur að fá hann inn í stjórn og á hluthafalistann.“