Árni Sigtryggsson fæddist 9. desember 1949. Hann lést 10. júlí 2022. Árni var jarðsettur 20. júlí 2022.

Nú er hann Árni farinn í sumarlandið. Það er erfitt að kveðja góðan vin sem var svo fullur af lífi. Hann var einn okkar besti vinur og nágranni í áratugi og samgangur var mikill þar sem bílaplön lágu saman. Þar var unnið hlið við hlið í húsum og görðum og samvinnan alltaf eins góð og hugsast gat svo ekki var hægt að hugsa sér betri nágranna en Árna og Diddu.

Árni var smiður og mjög góður í sinni grein. Aldrei voru nein vandamál svo stór að Árni leysti þau ekki enda var hann jafnvígur á allt, hvort sem það voru smíðar, múrverk eða flísalagnir. Ef við fengum einhverjar hugmyndir um breytingar en vissum ekki hvernig ætti að útfæra þær var bara kallað á Árna og hann settist niður með blað og blýant og lausnin kom fyrr en varði. Síðan var verkefnið drifið af því það var ekki hans stíll að hangsa yfir hlutunum. Ekkert hálfkák á iðnaðarmanninum þar. Hann var reyndar yfirleitt tilbúinn að taka sér pásu ef ég bakaði pönnukökur því pönnukökur með rjóma voru í miklu uppáhaldi hjá honum. Það var sama hvort var inni eða úti og garðarnir tóku t.d. stakkaskiptum þegar farið var í pallasmíði o.fl.

Árni átti bát og á milli smíðaverkefna reri hann til fiskjar og alltaf var passað upp á að færa okkur fisk í matinn og ítrekað við okkur að láta vita ef okkur vantaði fisk. Reyndar töluðum við stundum um að við værum komin í fæði hjá þeim því Didda átti til að elda of mikið og þá kölluðu þau hvort við værum nokkuð búin að borða því þau væru með svo mikinn mat.

En lífið er ekki bara vinna og Árni var skapgóður og lífsglaður maður enda líkaði öllum vel við hann. Hann var alltaf tilbúinn að halda veislur og var þá hrókur alls fagnaðar enda voru garðveislurnar þeirra ótrúlegar. Eitt sumarið átti t.d. að halda afmælisveislu (auðvitað í garðinum) en þá var spáð mikilli rigningu. Árni tók sig til og smíðaði stoðir og tjaldaði með plasti yfir allan garðinn og auðvitað varð veislan ógleymanleg.

Þegar við ákváðum að selja húsið okkar var erfiðast að skilja við Árna og Diddu sem nágranna og þó við færum ekki langt söknuðum við þeirra alltaf. Ég veit að Árna verður sárt saknað af þeim sem þekktu hann og erfitt verður fyrir barnabörnin að missa afa sem alltaf var til staðar fyrir þau hvort sem það var að leika við þau eða passa, en ef hann getur þá fylgist hann örugglega vel með þeim úr sumarlandinu.

Kæru Didda, börn og barnabörn. Við vottum ykkur innilega samúð okkar en við vitum að hann mun lifa í minningu okkar allra.

Nellý og Jón.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Í dag kveð ég kæran vin og eiginmann minnar kæru vinkonu Diddu.

Þegar sorgarfregnir berast um ótímabært andlát fer hugurinn að reika. Minningar um yndislegan mann, handlaginn, húmorista, jarðbundinn, vinnusaman og klett sinnar fjölskyldu. Mann sem var alltaf til staðar og tilbúinn til að aðstoða allt og alla. Svona kom Árni mér fyrir sjónir líkt og Didda. Samrýnd hjón sem gáfu hvort öðru tækifæri til að blómstra bæði sundur og saman. Börn og barnabörn áttu stóran part af þeirra hjarta sem fór ekkert á milli mála þegar maður kom við í Bröttukinninni. Árni var þolinmóður og góður maður en í honum leyndist líka prakkari. Svipurinn þegar hann laumaði hurðasprengjum til sonar míns í einni heimsókninni gleymist ekki þar sem þeir tveir skipulögðu saman hvernig sprengjunum skyldi komið fyrir. Einnig svipurinn þegar ég kom í heimsókn og það lifnaði yfir honum, ekki af því að ég var mætt heldur vegna þess að þá myndi Didda sækja eitthvað í læsta skápinn til þess að bjóða upp á og hann fengi að njóta með. Ég og mín fjölskylda höfum aldeilis fengið að njóta afla sem Árni hefur dregið í land. Eins var hann sérlegur skurðarmaður þar sem hann skar mörinn niður í sláturgerðinni okkar eftir stífum ráðleggingum Diddu hvert þvermálið ætti að vera á mörnum og ekkert klikkaði. Við kveðjum Árna öll með söknuði en Didda mun taka við hlutverki þeirra beggja og sinna því með miklum sóma án efa.

Elsku Didda, börn, barnabörn og aðrir ættingjar og vinir, ykkur sendi ég hlýjar kveðjur og ljósið bjarta. Sorgina sefi og von ykkur veiti, og vitið til, það kemur vor. Ég votta ykkur öllum innilega samúð, minning um góðan eiginmann, pabba, afa og vin mun lifa.

Sandra.