Hjalti Skaftason fæddist á Fjalli á Skaga 8. mars 1940. Hann lést á Landspítala 27. júní 2022.

Foreldrar hans voru Skafti Fanndal Jónasson, f. 25. maí 1915, og Guðrún Jóna Vilhjálmsdóttir, f. 15. júlí 1918. Þau eru bæði látin.

Systkini Hjalta eru Jónas, f. 26. febrúar 1941, d. 17. nóvember 2017, Vilhjálmur Kristinn, f. 9. apríl 1942, Anna Eygló, f. 12. júní 1944, og Þorvaldur Hreinn, f. 6. júní 1949.

Hjalti ólst upp á Skagaströnd en ungur að árum leitaði hann á vit ævintýranna og flutti suður. Gerðist snemma bílstjóri og stundaði þá iðju nánast alla ævi. Hann ók strætisvögnum, sendibílum, leigubílum, hópferðabílum og síðast en ekki síst flutningabílum. Hann flutti á Skagaströnd og stundaði þar vöruflutninga milli 1970 og 1982.

Hjalti var þrígiftur. Fyrir átti Hjalti Matthías Ingvar, f. 5. júní 1960. Móðir Matthíasar heitir Sigríður Fanney Matthíasdóttir.

Fyrsta eiginkona Hjalta var Hrafnhildur Auður Ágústsdóttir, d. 1997. Barn þeirra er Guðlaugur Örn, f. 20. maí 1965. Börn Guðlaugs eru Atli Þór Fanndal, Laufey Sunna, Huginn Frár og Auður Ísold. Sambýliskona Guðlaugs er Hjördís Pálmarsdóttir.

Önnur eiginkona Hjalta: Friðbjörg Þórunn Oddsdóttir, d. 2022. Börn þeirra eru Óskar Þór, f. 4. júní 1971. Börn Óskars eru: Jóhann Freyr, Petrína Pála, Patrekur Tumi og Bjartur Júlían Blær. Eiginkona Óskars er Jónína Helgadóttir. Valdimar Númi, f. 15. september 1972. Börn Valdimars Núma eru Kristófer, Birta, Óðinn Leó og Daníel Þór. Pálína Ósk, f. 5. nóvember 1975. Börn hennar eru Ágúst Hrafn, Óliver Máni og Sigurbjörn Snær. Eiginmaður Pálínu er Heiðar Kristinsson.

Þriðja eiginkona Hjalta, Jónína Þ. Arndal, var lífsförunautur hans í 40 ár. Hún lést 2021. Þau áttu engin börn.

Útför Hjalta fór fram 7. júlí 2022 frá Hafnarfjarðarkirkju.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi.

Síðustu vikur hafa heldur betur verið viðburðaríkar í lífi okkar fjölskyldunnar. Fyrir mánuði vissum við ekki betur en að þú værir við góða heilsu og á leið í ýmis ferðalög sem þú hafðir planað. Mikið sem við hlökkuðum til að heyra ferðasögurnar þínar því þú sagðir alltaf frá með miklum húmor. Nú er kalda staðreyndin sú að þú ert farinn frá okkur eftir snarpa baráttu við erfið veikindi. Ekki óraði okkur fyrir að þú værir í raun að fara af stað í ferðalagið langa inn í sumarlandið. Við sitjum eftir, enn að átta okkur á hvað gerðist. Á sama tíma birtast í huganum allar góðu minningarnar. Ferðalög okkar bæði innanlands og erlendis, öll matarboðin og veislurnar, símtölin og óvæntu heimsóknirnar í hverri viku svo ekki sé minnst á þína ótakmörkuðu hlýju, umhyggju og hjálpsemi.

Þú varst kletturinn í lífi okkar fjölskyldunnar og við hjónin fundum það sterkt að við deildum drengjunum okkar með þér. Þú kallaðir þá alltaf fjársjóðinn okkar. Missir okkar er mikill og mikið tómarúm sem þú skilur eftir í okkar lífi. Við minnumst þess hversu þrautseigur þú varst á erfiðum tímum lífsins. Það virtist vera sama hvaða verkefni lífið gaf þér, þú fannst þínar leiðir og jafnvel umbreyttir öllum siðum þínum og venjum til að aðlagast breyttu lífi. Hver hefði til dæmis trúað því að þú gætir á áttræðisaldri farið frá því að vera með olíu á fingrum á kafi í bílaviðgerðum yfir í eldhússtörfin að búa til rækjusalat og sjóða fisk? Með því kenndir þú okkur að það erum við mannfólkið sem þurfum að aðlagast lífinu hverju sinni en ekki öfugt.

Við trúum því að nú sért þú búinn að finna Nínu þína aftur og að saman séuð þið á ný að njóta samvista hvort annars á ykkar eilífa ferðalagi.

Við þökkum þér fyrir allar stundirnar okkar saman, fyrir að vera alltaf til staðar í lífi okkar og skilyrðislausu ástina sem þú sýndir okkur. Minning þín mun ávallt lifa í hjörtum okkar.

Þín dóttir

Pálína, Heiðar ogafastrákarnir Ágúst Hrafn, Óliver Máni

og Sigurbjörn Snær.

Hjalti og Nína komu fyrir margt löngu í messu hjá Ástjarnarkirkju og ekki leið langur tími þar til þau voru byrjuð að taka til hendinni í starfinu. Þau heiðurshjónin störfuðu lengi sem sjálfboðaliðar fyrir kirkjuna og höfðu mikinn metnað að henni farnaðist sem best, en Nína lést árið 2021.

Hjalti starfaði fyrst sem sjálfboðaliði við ýmis störf í kirkjunni og seinni árin tók hann að sér afleysingu kirkjuvarðar.

Hjalti var fyrst kosinn varamaður í sóknarnefnd árið 2011 og var aðalmaður er hann féll frá. Það var gott að vinna með sóknarnefndarmanninum Hjalta, hann var réttsýnn, rökfastur og lá ekki á sínum skoðunum. Hann bar hag kirkjunnar og velferð hennar fyrir brjósti.

Sóknarnefnd Ástjarnarkirkju þakkar Hjalta fyrir samfylgdina og hans mikilvægu störf fyrir Ástjarnarkirkju.

Hjalti kom reglulega við í kirkjunni í kaffi og spjall og verður missir að þeim heimsóknum en Hjalti var skemmtilegur og hafði sínar skoðanir á mönnum og málefnum og oft var stutt í brosið.

Blessuð sé minning Hjalta og blessuð sé minning Nínu og þakklæti fyrir þeirra góðu störf, minning ykkar lifir hjá Ástjarnarkirkju.

Fjölskyldum og vinum Hjalta sendum við samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Geir og Hermann,

formenn sóknarnefndar

í tíð Hjalta.