Vatnsendahvarf Kærendur eru ósammála niðurstöðu umhverfismatsins sem er nítján ára.
Vatnsendahvarf Kærendur eru ósammála niðurstöðu umhverfismatsins sem er nítján ára. — Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.is Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, Vinir Kópavogs og yfir 50 íbúar skrifuðu undir kæru sem var í gær send til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þar er þess krafist að deiliskipulag 3.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, Vinir Kópavogs og yfir 50 íbúar skrifuðu undir kæru sem var í gær send til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þar er þess krafist að deiliskipulag 3. kafla Arnarnesvegar og Elliðaárdals verði fellt úr gildi.

Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður Vina Vatnsendahvarfs, segist hafa fundið mikinn meðbyr með íbúum sem búa í grennd við veginn og að undirskriftirnar séu bæði frá einstaklingum sem búa í návígi við veginn Reykjavíkurmegin og Kópavogsmegin.

„Það er ekki ein manneskja sem ég hef átt samtal við, sem er sátt við útfærslu vegarins eins og hún stendur í dag,“ segir Helga Kristín.

Í kærunni er vísað til þess að umhverfismatið, sem framkvæmdin byggist á, sé frá árinu 2003 en þá hafi verið talið að vegarlagningin myndi hafa óveruleg áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Kærendur telji, ólíkt úrskurði umhverfismatsins, að framkvæmdin muni hafa í för með sér veruleg neikvæð áhrif á lífríki, umhverfi og útivist. Þá samræmist framkvæmdin heldur ekki markmiðum Samgöngusáttmálans.

Í kærunni segir að Vatnsendahvarfið sé gróðursæl náttúruperla og mikið nýtt útivistar- og útsýnissvæði íbúa nágrennisins. Fyrirhugaður 3. kafli Arnarnesvegar muni koma til með að skera Vatnsendahvarfið í tvennt og breyta ásýnd þess og notagildi til hins verra til frambúðar.