[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Jón Guðni Fjóluson leikur ekkert með sænska knattspyrnuliðinu Hammarby á þessu keppnistímabili. Jón Guðni sleit krossband í hné síðasta haust og reiknað var með honum á seinni hluta tímabilsins.

* Jón Guðni Fjóluson leikur ekkert með sænska knattspyrnuliðinu Hammarby á þessu keppnistímabili. Jón Guðni sleit krossband í hné síðasta haust og reiknað var með honum á seinni hluta tímabilsins. Hammarby skýrði frá því í gær að bakslag hefði komið í endurhæfinguna með þeim afleiðingum að Jón Guðni verði ekki tilbúinn fyrr en í byrjun næsta tímabils. Hann er samningsbundinn Hammarby út árið 2023.

* Wayne Rooney , knattspyrnustjóri DC United í Bandaríkjunum, vill fá Guðlaug Victor Pálsson , leikmann Schalke í Þýskalandi, til liðs við sig. Sport 1 í Þýskalandi skýrði frá því að DC United hefði sýnt Guðlaugi Victori áhuga undanfarnar vikur en þegar Rooney tók við á dögunum hefði hann strax lagt áherslu á að fá Íslendinginn í sitt lið.

* Sadio Mané frá Senegal, nýjasti liðsmaður Bayern München, var í gær útnefndur leikmaður ársins í Afríku af knattspyrnusambandi álfunnar en þetta er í annað sinn í röð sem hann hlýtur viðurkenninguna. Annar varð Édourad Mendy , markvörður Chelsea og Senegal, og þriðji varð Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool og Egyptalands.

*Handknattleiksmaðurinn Bergur Elí Rúnarsson er genginn til liðs við Íslandsmeistara Vals en hann hefur leikið með FH að undanförnu og er uppalinn þar. Bergur er 26 ára hægri hornamaður og hefur áður leikið með KR og Fjölni.

*Margt af fremsta frjálsíþróttafólki landsins verður með á Meistaramóti 15-22 ára sem fram fer á ÍR-vellinum í Mjóddinni í dag og á morgun. Meðal annars keppa Íslandsmethafarnir í kúluvarpi og sleggjukasti kvenna, þær Erna Sóley Gunnarsdóttir og Elísabet Rut Rúnarsdóttir , spretthlauparinn Tiana Ósk Whitworth , þrístökkvarinn efnilegi Daníel Ingi Egilsson og hin fjölhæfa Glódís Edda Þuríðardóttir.

*Ástralska knattspyrnukonan Claudia Valletta er komin til liðs við Tindastól sem er í toppbaráttu 1. deildar. Hún er 19 ára framherji, lék með yngri landsliðum Ástralíu og spilaði með Bergamo Sharks í ítölsku C-deildinni á síðasta tímabili.

*Arsenal hefur gengið frá kaupum á úkraínska bakverðinum Oleksandr Zinchenko frá Manchester City. Arsenal greiðir Englandsmeisturunum 30 milljónir punda fyrir leikmanninn. Zinchenko kom til Manchester City frá Ufa í Rússlandi árið 2016 og lék 76 leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hann hefur leikið 52 landsleiki fyrir Úkraínu.

*Íslenska U20 ára landslið karla í körfubolta er komið í undanúrslit í B-deild Evrópumótsins í Georgíu eftir 77:71-sigur á Svíþjóð í átta liða úrslitum í gær. Ísland mætir Finnlandi í undanúrslitum í dag. KR-ingurinn Þorvaldur Orri Árnason átti stórleik og skoraði 28 stig og tók níu fráköst. Þrjú efstu lið B-deildarinnar fara upp í A-deild og fer Ísland því upp um deild með sigri í undanúrslitunum.

*Knattspyrnumaðurinn ungi Aron Ingi Magnússon hefur verið lánaður til ítalska félagsins Venezia í Feneyjum frá Þór. Ítalska félagið mun hafa forkaupsrétt á Aroni á meðan á láninu stendur. Aron, sem er aðeins sautján ára, hefur leikið níu leiki með Þór í 1. deildinni í sumar.

*Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús er úr leik eftir tvo hringi á Big Green Egg German-mótinu á Áskorendamótaröð Evrópu. Mótið fer fram í Neuburg an der Donau í Þýskalandi. Haraldur lék fyrsta hringinn á fimmtudag á 72 höggum, eða á pari, og annan hringinn í gær á 75 höggum, þremur höggum yfir pari, og lauk því leik á þremur yfir pari og í 114. sæti.

* Englendingurinn Harley Willard skoraði tvö mörk fyrir Þór er liðið vann 4:2 útisigur á Kórdrengjum í 1. deild karla í fótbolta í gærkvöldi. Bjarni Guðjón Brynjólfsson og Kristófer Kristjánsson skoruðu einnig fyrir Þór en Arnleifur Hjörleifsson og Sverrir Páll Hjaltested gerðu mörk Kórdrengja. Sverrir fékk rautt spjald undir lokin.

*Anton Sveinn McKee bar sigur úr býtum í 100 metra bringusundi á Opna spænska meistaramótinu í Barcelona í gærkvöldi. Hann kom í mark á 1:01,60 mínútu en besti tími Antons í greininni er 1:00,32 mínúta. Mótið er liður í undirbúningi Antons fyrir Evrópumótið í 50 metra laug í Róm í ágúst. Anton varð annar inn í úrslitin, á tímanum 1:02,79 mínúta.